Posts

Vandamálið Tyrkland

Slæmar fréttir hafa borist frá Tyrklandi um alllangt skeið og hafa áhyggjur umheimsins af stöðu mála í landinu síst minnkað í kjölfar valdaránstilraunar þar í landi fyrir fáeinum vikum. Stjórn Erdogans Tyrklandsforseta virðist einbeitt í að nota hana sem átyllu til að herða tök sín á öllum sviðum, jafnt til að ganga milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum og til að sveigja tyrkneska löggjöf og samfélag í átt sem stjórninni hugnast betur en lýðræðissinnuðu fólki lakar.
Rétt er að árétta að hér er ekki um nýja þróun að ræða. Ár er liðið frá því að Tyrklandsstjórn rauf áralangt en viðkvæmt vopnahlé sitt við Kúrda með loftárásum. Lýsti NATO við tilefni þeirri skoðun sinni að Tyrkir væru í fullum rétti. Fyrir hálfu ári síðan lék Tyrklandsforseti þann háskaleik að láta skjóta niður rússneska herþotu og aftur reyndist hann njóta stuðnings NATO sem var til í að taka áhættu á þriðju heimsstyrjöldinni fyrir þennan dyntótta liðsmann sinn. Nú síðast hefur komið fram í fréttum að þýsk stjórnvöld álíti að Tyrkir hafi um árabil unnið með íslömskum hryðjuverkasamtökum og stutt þau fjárhagslega.

Blikur á lofti

Á undanförnum misserum hafa tyrknesk stjórnvöld þrengt að lýðræði í landinu m.a. með því að svipta þingmenn, fyrst og fremst kúrdíska, á tyrkneska þinginu þinghelgi og mikill fjöldi blaðamanna hefur verið hnepptur í fangelsi. Efasemdir um að lýðræði og frjáls fjölmiðlun njóti tilhlýðilegrar verndar eru því óhjákvæmilegar. Ýmis óheillaskref sem stigin hafa verið í Tyrklandi að undanförnu vekja eins upp ugg. Má þar nefna áætlanir um að taka á ný upp dauðarefsingu sem og dómsúrskurður í þá átt að lækka samræðisaldur, sem vakið hefur hörð viðbrögð mannréttinda- og kvennasamtaka í landinu.
Tyrkland er meðlimur í NATO sem fyrr segir. Í ljósi þess að kjarnorkuvopn úr vopnabúri NATO eru staðsett í Tyrklandi hlýtur hið ótrygga ástand þar að vekja sérstakan ugg. Raunar ættu atburðir liðinna mánaða að vekja upp alvarlegar spurningar um skynsemi þess að vera í hernaðarbandalagi með gagnkvæmri verndarskyldu með Tyrkjum.
Fyllsta ástæða er til að hafa sérstakar áhyggjur af hlutskipti tyrkneskra Kúrda við ríkjandi aðstæður og er vert að beina þeirri áskorun til stjórnvalda í Tyrklandi að virða mannréttindi og mannhelgi allra tyrkneskra borgara. Við aðstæður sem þessar er það skylda annarra ríkja að láta í sér heyra og það á Ísland að gera þó smátt sé. Yfirgangur og ofbeldi mega aldrei líðast.

Steinunn Þóra Árnadóttir

Óþolandi árás á alþjóðalög

Hernám Marokkó á Vestur-Sahara hefur nú staðið í fjóra áratugi, en Marokkómenn sölsuðu undir sig landið eftir að Spánverjar drógu sig frá þessari fyrrum nýlendu sinni. Framferði Marokkó­stjórnar var fordæmt af alþjóðasamfélaginu og hafa Sameinuðu þjóðirnar margítrekað þá afstöðu sína að hernámið sé ólöglegt og að virða beri sjálfsákvörðunarrétt íbúa svæðisins með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu meðal Vestur-Saharabúa um framtíðarstjórnskipan sína.

Árið 1991 var samið vopnahlé í áralangri borgarastyrjöld í landinu milli POLISARIO, sjálfstæðishreyfingar Vestur-Sahara og stjórnarhers Marokkó. Friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna hélt þá til landsins með það yfirlýsta hlutverk að tryggja frið milli deiluaðila og undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu svæðisins. Frá þeim tíma hefur Marokkóstjórn dregið lappirnar og staðið í vegi fyrir framkvæmd kosninganna.

Fyrr á þessu ári dró til tíðinda þegar Ban Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, heimsótti Marokkó og æskti þess að fá að heimsækja hið hernumda landsvæði. Marokkóstjórn hafnaði þeirri beiðni, sem út af fyrir sig er hrópleg ósvífni í garð þessara mikilvægustu alþjóðasamtaka í heimi. Ban Ki Moon lét þetta þó ekki stöðva sig heldur heimsótti flóttamannabúðir Vestur-Saharabúa í Alsír og héruð innan landamæra Vestur-Sahara sem eru á valdi POLISARIO. Á ferðalagi þessu talaði aðalritarinn um hernám Marokkóstjórnar, en slíkt orðalag á sér fyrirmyndir í mörgum samþykktum Sameinuðu þjóðanna.

Stjórn Marokkó brást ókvæða við ferðalaginu og notaði ummælin sem átyllu til að reka úr landi stóran hluta friðargæsluliðanna. Fyrir utan það að tefla þannig í tvísýnu viðkvæmu vopnahléi, er hér um fordæmalausa og grafalvarlega aðgerð að ræða. Að ríkisstjórn taki einhliða ákvörðun um að víkja úr landi friðargæsluliðum í aðgerð á vegum Sameinuðu þjóðanna er óásættanlegt með öllu.

Ban Ki Moon hefur leitað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eftir einarðri stuðningsyfirlýsingu í þessu máli, en því miður ekki fengið. Ástæðan er sú að Marokkóstjórn er undir verndarvæng Frakka, sem raunar hafa margoft beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu þegar kemur að málefnum Vestur-Sahara.

Fyrir smáríki eins og Ísland er það sérstaklega mikilvægt að tryggja að alþjóðalög séu virt og ríkjum líðist ekki að beita aflsmunum gegn nágrönnum sínum. Það er því brýnt að íslensk stjórnvöld láti mál þetta til sín taka og beiti áhrifamætti sínum á alþjóðavettvangi til að tryggja að Marokkóstjórn komist ekki upp með að sýna alþjóðasamfélaginu fyrirlitningu í þessu máli.

Þorum að velja frið

Á síðustu tveimur mánuðum hafa hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, Daesh, lýst ábyrgð á nokkrum stórum hryðjuverkaárásum. Þetta eru sprengjutilræði í Ankara, Beirút, fjöldamorð í Túnis, tortíming rússneskrar farþegaþota og nú síðast fjöldamorð í París. Eru þá ótalin öll ódæðisverk þeirra í Sýrlandi og Írak. Þótt tala fallinna í árásunum sé skelfileg er hún dropi í haf mannfallsins í styrjöldum sem geisað hafa í Miðausturlöndum  og hafa með beinum og óbeinum hætti leitt til þessara hryðjuverkaárása.

Innrásin í Írak 2003 er einhver stærstu mistök í sögu vestrænnar utanríkisstefnu. Upplausnin sem af því leiddi gat af sér þessi illræmdu hryðjuverkasamtök og ýtti undir borgarastríðið í Sýrlandi. Út úr því öngstræti átaka ólíkra vígahópa verður ekki komist nema með pólitískum leiðum. Öll stórveldi á svæðinu verða tafarlaust að hætta að hugsa fyrst og fremst um að ná fram eigin markmiðum og láta af því að vígbúa stríðandi fylkingar.

Hryðjuverkaárásirnar í París mega ekki verða til þess að stríðshrjáð og landflótta fólk verði fyrir aðkasti í Evrópu eða að stjórnvöld noti þau sem átyllu til að skjóta sér undan sammannlegri ábyrgð sinni á að hjálpa fólki í neyð. Samfélög Vestur-Evrópu verða jafnframt að vera meðvituð um þá hættu sem það hefur í för með sér ef einstakir þjóðfélagshópar eru jaðarsettir og eiga minni möguleika en aðrir, t.d. til menntunnar og atvinnu, vegna fordóma og bágrar félagslegrar stöðu.

Raddir þeirra sem nota hryðjuverk og ótta til að réttlæta aðskilnað og sundurgreiningu hópa sem búa saman í samfélagi mega ekki verða ofan á. Með því að taka undir slíkan málflutning er  í raun verið að fallast á sjónarmið ofstækismanna, hvaða nöfnum sem þeir nefnast.  Sigurinn í baráttu gegn hryðjuverkum vinnst ekki með hernaði. Hann vinnst ekki heldur með vígvæðingu lögreglunnar, víðtækum njósnum um borgarana eða hertu landamæraeftirliti. Hann vinnst með því að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum  þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Steinunn Þóra Árnadóttir

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

Þingfréttir – 40% misskilningur, flygildi og brennivín

Gleðilegan laugardag kæru félagar,

Vikan í þinginu hófst á því að Katrín spurði forsætisráðherra um yfirlýsingu hans á leiðtogafundi SÞ um markmið Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Drógu bæði aðstoðarmaður og umhverfisráðherra síðar í land með yfirlýsingu Sigmundar. Katrín lagði því áherslu á mikilvægi þess að forsætisráðherra segði frá því með skýrum hætti hvernig þessi fyrirætlan væri hugsuð.

Sama dag spurði Katrín innanríkisráðherra um hvort setja eigi almenna löggjöf eða reglur um notkun dróna, eða flygilda eins og þetta tænkiundur er nefnt, hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum í atvinnulífinu. Vísaði Katrín til Frakklands, Þýskalands og Svíþjóðar þar sem skýrar reglur eru um noktun flygilda.

Svandís sendi inn fyrirspurn til munnlegs svars til sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra um dýravernd og verður fyrirspurnin tekin fyrir vonandi sem fyrst.

Umræða um hæfnispróf í framhaldsskólum fór einnig fram í vikunni að frumkvæði Svandísar sem hafði sent til menntamálaráðherra fyrirspurn til munnlegs svars um málið.

Í störfum þingsins á þriðjudag vakti Lilja Rafney athygli á umdeildri ákvörðun Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna hörmulegs sjóslyss í sumar þegar báturinn Jón Hákon BA sökk. Rannsóknarnefndin hefur ákveðið að ná ekki bátnum upp af hafsbotni en samtök sjómanna hafa harmað ákvörðunina. Undir þá gagnrýni tekur Lilja Rafney.

Stöðugleikaframlögin voru rædd á þinginu í gær þegar forsætisráðherra skundaði í þinghús og í óundirbúnar fyrirspurnir með stuttum fyrirvara. Katrín notaði tækifærið og benti á að stöðugleikaframlögin virðast minnka með hverjum degi skv. fréttum. Upphaflegu 450-500 milljarðarnir sem boðaðir voru séu komnir niður í um það bil 300 milljarða. Erfitt reynist að fá fullnægjandi upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd og því þurfi forsætisráðherra að fara yfir stöðuna enda um gríðarstórt hagsmunamál almennings sé að ræða.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að mikið hefur verið rætt um brennivín síðustu daga, enda lagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, loks fram frumvarp sitt í gær um brennivínssölu í verslanir og fór fyrsta umræða fram á þinginu í kjölfarið. Framsóknarfólk er á móti frumvarpinu sem og okkar fólk og aðrir stjórnarandstöðuliðar. Ögmundur vakti athygli á lýðheilsusjónarmiðunum, samþykktum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem leggst gegn smásölu á áfengi og umsögnum landlæknisembættisins og samtaka um vímuefnamál og æsklýðsmál um frumvarpið. Ögmundur kallaði líka réttilega eftir viðveru og skoðun heilbrigðisráðherra og samflokksmanns Vilhjálms í málinu

Ögmundur tókst svo á við Vilhjálm um málið í Síðdegisútvarpi Bylgjunnar á fimmtudag

Það gerði Bjarkey líka í Morgunvakt Ríkisútvarpsins klukkan hálfátta á föstudegi

Bjarkey sendi líka inn fyrirspurn á Illuga Gunnarsson um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Spurningar hennar eru kristalskýrar og ættu að hjálpa ráðherranum að gera almennilega grein fyrir þessum tengslum. Vonast er til að hann svari Bjarkey ekki í Fréttablaðinu heldur í þingsal.

Steinunn Þóra fékk svör í vikunni við fyrirspurn sinni til félags og húsnæðismálaráðherra um endurgreiðslukröfurkröfur

Fæðingarorlofssjóð  og spurðist líka fyrir um aðgengisstefnu ríkisins að opinberum byggingum

Hún vippaði sér svo í Harmageddon á X-inu og lét þar gamminn geisa um að prestar hætti að fá leyfi til að gifta fólk og flutt til borgaralegra starfsmanna.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, settist í fyrsta sinn á þing í vikunni í fjarveru Steingríms. Ingibjörg talaði m.a. um nauðsyn þess að jafna fluggjaldakostnað á landinu og kynjafræðslu á öllum skólastigum. Ingibjörg situr áfram á þinginu næstu viku.

Góða helgi !

Ræða Steinunnar

Hæstvirtur forseti, kæru landsmenn!

Mestöll þjóðin var í sigurvímu eftir jafntefli íslenska karla-knattspyrnuliðsins um liðna helgi. Fáir þó eins og hæstvirtur fjármálaráðherra, sem fór þegar í fjölmiðlum að gefa undir fótinn með byggingu risavaxins knattspyrnuvallar upp á 15-20 milljarðar króna.

Þessi höll, myndi mögulega – að sögn hæstvirts ráðherrans – ekki kosta skattgreiðendur neitt, ekki frekar en Hvalfjarðargöngin. Hana mætti nefnilega reisa með töfraformúlunni “eignatryggðri fjármögnun”. En eignatryggð fjármögnun mun vera það sem hét “einkaframkvæmd í opinberum rekstri” áður en það hugtak fékk óorð á sig.

En auðvitað komum við til með að borga fyrir slíka framkvæmd, ef af yrði – á sama hátt og við greiðum enn í hvert sinn sem við ökum undir Hvalfjörð. Einkaframkvæmdadekrið hefur þann eina raunverulega tilgang að gefa milliliðum kost á að hagnast.

Loftkastalar hæstvirts fjármálaráðherra voru mjög í stíl við stefnuræðu hæstvirts forsætisráðherra. Honum verður tíðrætt um bestu fjárlög allra tíma, mestu framlög til velferðarmála allra tíma og að allir verði ríkari, jafnari og hamingjusamari. Hins vegar er skautað fram hjá því á hversu veikum fótum áætlanirnar standi og hversu lítið megi út af bregða til að hagstjórnin fari úr böndunum. Fram hjá þessu víkur hæstvirtur forsætisráðherra sér, á sama tíma og hann sendir verkalýðshreyfingunni lítt duldar hótanir um breytingar á umgjörð kjarasamninga – þrátt fyrir þá staðreynd að hans eigin ríkisstjórn sé einhver mesti dragbítur á heilbrigða kjarasamningagerð í landinu með ítrekuðum lögum sínum á kjaradeilur.

En það er ekki bara þegar kemur að fótboltavöllum sem stjórnarflokkarnir hafa kokgleypt kenningar um ágæti einkarekstrar. Það er nefnilega raunveruleg ástæða til að óttast að ríkisstjórnin hyggi lengra inn á brautir einkarekstrar og verktöku í velferðarmálum, með tilheyrandi sveltistefnu gagnvart opinbera kerfinu. Það mun aðeins leiða til aukinnar mismunar og meiri kostnaðar fyrir samfélg og einstaklinga.

Kannanir staðfesta að meginþorri Íslendinga vill öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi sem er rekið á vegum samfélagsins og fjármagnað með almennum sköttum. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á samábyrgð og jöfnuð þegar kemur að skipulagi þessa málaflokks – ekki markaðshyggju.

Virðulegi forseti.

Í ræðu sinni hér áðan sagði hæstvirtur forsætisráðherra að Ísland væri „svo langt frá heimsins vígaslóð“. Ekkert er þó fjær sanni. Ísland hefur á liðnum árum einmitt verið virkur þátttakandi í velflestum stríðum og íhlutunum vestrænna þjóða í Miðausturlöndum. Stundum sem aðildarþjóð í Nató, stundum sem fylgisveinn Bandaríkjastjórnar.

Flest það fólk sem nú hrekst til Evrópu er á flótta undan styrjöldum sem Nató-ríki ýmist stofnuðu til eða hafa kynt undir leynt og ljóst. Öllum má ljóst vera að stríðið í Sýrlandi er skilgetið afkvæmi innrásarinnar í Írak árið 2003. Um stríðin í Afganistan og Líbýu þarf ekki að fjölyrða.

Og jafnvel nú, þegar afleiðingarnar blasa við okkur, eiga hernaðarveldin þá einu lausn að bera fleiri sprek á eldinn. Síðast í sumar stóðu Nató-ríki saman að því að styðja Tyrki í að ganga á milli bols og höfuðs á Kúrdum og flækja þannig styrjöldina enn frekar. Óhjákvæmileg afleiðing þeirrar ákvörðunar verða enn meiri hörmungar. Enn meira ofbeldi. Enn fleira fólk á vergangi.
Virðulegi forseti,

Hæstsvirtur forsætisráðherra hefur sagt að huga þurfi að rótum flóttamannastraumsins. – Þar er ég honum sammála. Á sama tíma og við opnum faðm okkar fyrir fólki á flótta þá skulum við líka ráðast að rótunum. Hættum að kynda undir styrjöldum í fjarlægum löndum og undrast svo hörmungarnar sem af því hljótast.

Aldrei aftur Hiroshima, aldrei aftur Nagasaki

Hér er ræða Steinunnar Þóru, þingmanns Vinstri grænna, sem flutt var við kertafleytingu SHA 6. ágúst 2015.

Ágæta samkoma,

Í kvöld fleytum við kertum hér á Reykjavíkurtjörn til að minnast þeirra sem létu lífið eða örkumluðust 6. og 9. ágúst 1945, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum yfir Japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki.

Yfir 200 þúsund óbreyttir borgarar létu lífið í þessum árásunum. Tugir þúsunda strax við sprengingarnar, aðrir dagana og vikurnar á eftir. Að auki hefur fjöldi fólks í áranna rás misst heilsuna eða látist úr sjúkdómum eins og krabbameini, geislaveiki eða genagöllum sem má rekja beint til sprengjanna – og fólk er enn að deyja – eins og við vorum svo átakanlega minnt á í sjónvarpsfréttum í vikunni.

Þó svo að við minnumst þess nú í kvöld að 70 ár eru liðin frá þessum voðaverkum og fögnum því auðvitað að kjarnorkuvopnum hafi ekki aftur verið beitt í hernaði, fer því fjarri að kjarnorkuógnin sé úr sögunni.

Vissulega var jákvæður og sögulegur samningur gerður við Írani fyrir aðeins nokkrum vikum um að Íran muni ekki þróa kjarnorku til nota í hernaðarlegum tilgangi. Því ber að fagna.

Og sem betur fer hafa lang flestar þjóðir heimsins engin áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Þannig hafa 113 ríki hvatt til þess á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að kjarnorkuvopn verði bönnuð og þeim eytt. Því miður hafa íslensk stjórnvöld ekki kosið að skipa sér í þann hóp.

Í dag eru ríkin sem búa yfir kjarnorkusprengjum 9 og áætlað að sprengjurnar séu 16 þúsund talsins. Það eru vissulega færri sprengjur en þegar verst lét á tímum kalda stríðsins – en er eftir sem áður miklu meira en nægjanlegt til að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum. Obbann af þessum sprengjum eiga Rússar og Bandaríkjamenn.

Vandinn er hinsvegar sá að í stað þess að keppast um að eiga sem flestar kjarnorkusprengjur gengur kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup samtímans út á það að eiga bestu kjarnorkusprengjurnar.

Þess vegna hafa annarsvegar verið þróaðar sprengjur sem eru mörgum sinnum öflugri en þær sem varpað var yfir Hiroshima og Nagasaki. Í nýlegri skýrslu alþjóðlega Rauða krossins var bent á það að ef slík sprengja væri sprengd yrðu afleiðingarnar ekkert í líkingu við þær sem urðu fyrir 70 árum – heldur margfallt meiri og verri.

Hinsvegar er verið að búa til svokölluð strategísk kjarnorkuvopn – sem herstjórnendur telja að hægt verði að nota með staðbundnari eyðileggingarmætti, þar sem geislavirkni komi einungis til með að ná til takmarkaðs svæðis.

– Og það er nákvæmlega þar sem ein helsta kjarnorkuvá samtímans liggur. Í því að stjórnmálamenn og herstjórnendur telji í lagi að beita þesskonar kjarnorkuvopnum – því skaðinn verði einungis staðbundinn.

Sjálfsblekkingin verður varla meiri eða hættulegri.

Og raunar er þessi skelfilega vegferð þegar hafin, þar sem geislavirk efni eru notuð í vopn til að auka eyðileggingarmáttinn. Sprengjur með auðguðu úrani hafa nefnilega verið notaðar í mörgum af styrjöldum liðinna ára, þar á meðal í Írak. Heilbrigðisstarfsmenn hafa bent á hörmulegar afleiðingar þessara vopna og sýnt fram á hvernig tíðni alvarlegra fæðingargalla og fósturskemmda er margfaldur á þeim svæðum þar sem þau hafa verið notuð. Geislavirkni er því bætt ofan á þær hörmunar sem stríð leiða yfir almenna borgara.

Við Íslendingar státum okkur oft af því að vera herlaus þjóð. Til að geta hinsvegar staðið undir nafni sem raunveruleg friðelskandi þjóð verðum við að krefjast þess af ráðamönnum okkar að þeir tali máli friðar og afvopnunar á meðal þjóða heimsins. Og þá ekki hvað síst kjarnorkuafvopnunar.

Raunin er hins vegar sú að Íslendingar eru aðilar að hernaðarbandalagi sem byggir tilveru sína að miklu leyti á kjarnorkuvopnum. Kjarnorkuvígbúnaður er hornsteinn í stefnu NATÓ og bandalagið áskilur sér rétt til notkunar kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Það er vegna aðildarinnar að Nató sem Ísland hefur ítrekað setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögum sem miða að útrýmingu kjarnorkuvopna. Við erum hluti af vandanum en ekki lausninni.

Við verðum að víkja af þessari braut. Við verðum að hafna kjarnorkubandalögum, hvaða nafni sem þau nefnast. Og við verðum að krefjast þess að öll þau ríki sem hafi yfir þessum vítisvélum að ráða hætti tafarlaust þróun og framleiðslu þessara vopna og eyði þeim sem fyrir eru. Við verðum að berjast fyrir stofnun og stækkun kjarnorkuvopnalausra svæða og að þeir afvopnunarsáttmálar sem þegar eru við lýði sé virtir.

Aðeins þannig getum við tryggt að það verði aldrei aftur annað Hiroshima. Að það verði aldrei aftur annað Nagasaki. Að kjarnorkuvopnum verði aldrei aftur beitt.

Takk fyrir mig.

Vandi brothættra byggða

Þriðjudaginn 3. mars 2015, lögðu VG-þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Steinunn Þóra Árnadóttir fram tillögu til þingsályktunar um eflingu brothættra byggða og byggðafestu veiðiheimilda. Þetta þingmál miðar að því að gerð verði gangskör að því að tryggja tilveru svonefndra brothættra sjávarbyggða með því að byggðafesta þar veiðiheimildir en í þeim byggðum þar sem sú ráðstöfun getur ekki orðið að notum verði beitt aðferðum sem mótast hafa í samvinnuverkefni Byggðastofnunar og heimamanna í svonefndum brothættum byggðum. Þarna hefur verið farið inn á nýjar brautir í byggðamálum þar sem þekking, viðhorf og væntingar heimafólks eru mikils ráðandi um skipulag og framkvæmd aðgerða.

Þessu tengt er að næstkomandi fimmtudag, kl. 11, fer fram á Alþingi sérstök umræða þar sem Lilja Rafney Magnúsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræða um vanda brothætta byggða og þær leiðir sem unnt er að fara til að tryggja framtíð þeirra.

Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala

Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Byggingarsjóð Landspítala. Frumvarpið felur í sér að nýbyggingar fyrir Landspítala Háskólasjúkrahús verði fjármagnaðar með því að leggja á tímabundinn auðlegðarskatt sem renni í sérstakan Byggingarsjóð Landspítala. Gert er ráð fyrir að auðlegðarskatturinn verði lagður á í fimm ár, 2016-2020, og má ætla að það fé safnast með þessu móti dugi til spítalabyggingar í samræmi við þau áform sem nú eru uppi.

Þessi lausn á fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar á þjóðarsjúkrahúsi Íslendinga felur það í sér að kostnaður vegna hennar leggst af meiri þunga á efnameiri Íslendinga heldur en þá sem minna hafa af efnalegum gæðum. Fyrri álagning auðlegðarskatts mætti gagnrýni fyrir það að vera full íþyngjandi fyrir þá af greiðendum hans sem áttu stóran hluta þeirrar eignar sem myndaði skattstofninn í formi íbúðarhúsnæðis til eigin nota en höfðu ef til vill aðeins takmarkaðar tekjur. Við þessu er nú brugðist með því að sett er inn frímark vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Ekki þarf að fjölyrða um nauðsyn þess að grípa til markvissra aðgerða til að fjármagna uppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss, enda ljóst að í óefni er komið með fjármögnun þess. Frumvarp um Byggingarsjóð Landspítala er ætlað að högga á þennan hnút með því að nýta skatttökuleið sem mikill stuðningur er við í samfélaginu.