Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar um breytingar á fjárlögum
Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar standa sameiginlega að breytingartillögum við fjárlög ársins 2016.
Tillögurnar sýna að mögulegt er að leggja aðrar áherslur við stjórn landsins og nýta bætta afkomu ríkissjóðs á sanngjarnari hátt. Áhersla er á bætt kjör almennings og þeirra sem lægstar tekjur hafa, á heilbrigðisþjónustu, menningu og menntamál og á fjárfestingar í umhverfi og innviðum samfélagsins um allt land. Þannig verði unnið gegn ójöfnuði á Íslandi og tryggt að aukin hagsæld skiptist á réttlátan hátt.
Í tillögunum fer stærstur hluti fjármuna til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt og með sama hætti og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga, sem miða við 300 þúsund króna mánaðarlaun, og að Landspítalinn fái fjármuni til að standa undir nauðsynlegri starfsemi.
Barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þúsund og barnabætur hækki með hækkun á skerðingarviðmiðum.
Gert er ráð fyrir hækkun til háskóla og fjármunum til að aflétta fjöldatakmörkunum í framhaldsskólum og styrkja rekstur þeirra. Eins er gert ráð fyrir framlögum til að taka til varna fyrir íslenskt mál.
Áhersla er lögð á fjárfestingar í innviðum og sóknaráætlun landshluta. Sérstakt átak er lagt til í viðhald og nýframkvæmdir í vegagerð, enda þörfin afar brýn.
Til að mæta skuldbindingum Íslands vegna loftslagsvandans er gert ráð fyrir auknum fjármunum til fjárfestinga í græna hagkerfinu og til Loftslagssjóðs.
Að auki eru gerðar tillögur um ýmis brýn réttlætismál: Aukin framlög til móttöku flóttamanna, til aukins stuðnings við innflytjendur, til fangelsismála, til baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, til geðheilbrigðismála og til frumkvæðisathugana Umboðsmanns Alþingis.
Full fjármögnun
Allar þessar tillögur eru fjármagnaðar með auknum tekjum, hærri veiðigjöldum, arði af bönkum, orkuskatti á stóriðju og bættu skatteftirliti.
Þar fyrir utan má minna á að á yfirstandandi kjörtímabili hefur stjórnarmeirihlutinn tekið fjölmargar ákvarðanir um lækkun tekna sem nemur tugum milljarða. Þar má nefna lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts, lækkun á tekjuskatti betur stæðra, afnám sykurskatts, auk þess að heykjast á alvöru gjaldtöku af ferðamönnum. Breytingar á þessum ákvörðunum í heild eða hluta myndu geta skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.
Tillögur stjórnarandstöðunnar des 2015 | |
Útgjöld | mkr |
Landspítali viðhald | 1.400 |
Landspítali magnaukning | 1.040 |
Landspítali kjarasamningar | 400 |
Sjúkrahúsið á Akureyri | 100 |
Geðfatlaðir þjónusta, húsnæði | 33 |
Háskólar almennt | 400 |
Framhaldsskólar almennt | 400 |
Hækkun örorku og ellilífeyris | 5.305 |
Samgöngur nýframkvæmdir | 700 |
Viðhald vega | 700 |
Sóknaráætlun landshluta | 400 |
Fæðingarorlof hækkun | 1.700 |
Barnabætur | 2.400 |
Umboðsmaður Alþingis | 15 |
Fangelsismálastofnun | 80 |
Kynbundið ofbeldi | 200 |
Útlendingamál | 200 |
Stafræn íslenska | 170 |
Loftslagssjóður | 200 |
Græna hagkerfið | 70 |
Menningarmál | 40 |
Ríkisskattstjóri | 58 |
Samtals: | 16.011 |
Tekjur | mkr |
Orkuskattur | 2.000 |
Skatteftirlit | 4.000 |
Arður af bönkum | 8.000 |
Veiðigjöld | 3.000 |
Samtals | 17.000 |