Posts

Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar um breytingar á fjárlögum

Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar standa sameiginlega að breytingartillögum við fjárlög ársins 2016.

Tillögurnar sýna að mögulegt er að leggja aðrar áherslur við stjórn landsins og nýta bætta afkomu ríkissjóðs á sanngjarnari hátt. Áhersla er á bætt kjör almennings og þeirra sem lægstar tekjur hafa, á heilbrigðisþjónustu, menningu og menntamál og á fjárfestingar í umhverfi og innviðum samfélagsins um allt land. Þannig verði unnið gegn ójöfnuði á Íslandi og tryggt að aukin hagsæld skiptist á réttlátan hátt.

Í tillögunum fer stærstur hluti fjármuna til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt og með sama hætti og lægstu laun á samningstíma kjarasamninga, sem miða við 300 þúsund króna mánaðarlaun, og að Landspítalinn fái fjármuni til að standa undir nauðsynlegri starfsemi.

Barnafjölskyldum verði mætt með hækkun á þaki fæðingarorlofs upp í 500 þúsund og barnabætur hækki með hækkun á skerðingarviðmiðum.

Gert er ráð fyrir hækkun til háskóla og fjármunum til að aflétta fjöldatakmörkunum í framhaldsskólum og styrkja rekstur þeirra. Eins er gert ráð fyrir framlögum til að taka til varna fyrir íslenskt mál.

Áhersla er lögð á fjárfestingar í innviðum og sóknaráætlun landshluta. Sérstakt átak er lagt til í viðhald og nýframkvæmdir í vegagerð, enda þörfin afar brýn.

Til að mæta skuldbindingum Íslands vegna loftslagsvandans er gert ráð fyrir auknum fjármunum til fjárfestinga í græna hagkerfinu og til Loftslagssjóðs.

Að auki eru gerðar tillögur um ýmis brýn réttlætismál: Aukin framlög til móttöku flóttamanna, til aukins stuðnings við innflytjendur, til fangelsismála, til baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, til geðheilbrigðismála og til frumkvæðisathugana Umboðsmanns Alþingis.

 

Full fjármögnun

Allar þessar tillögur eru fjármagnaðar með auknum tekjum, hærri veiðigjöldum, arði af bönkum, orkuskatti á stóriðju og bættu skatteftirliti.

Þar fyrir utan má minna á að á yfirstandandi kjörtímabili hefur stjórnarmeirihlutinn tekið fjölmargar ákvarðanir um lækkun tekna sem nemur tugum milljarða. Þar má nefna lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts, lækkun á tekjuskatti betur stæðra, afnám sykurskatts, auk þess að heykjast á alvöru gjaldtöku af ferðamönnum. Breytingar á þessum ákvörðunum í heild eða hluta myndu geta skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.

Tillögur stjórnarandstöðunnar des 2015  
Útgjöld mkr
Landspítali viðhald  1.400
Landspítali magnaukning  1.040
Landspítali kjarasamningar  400
Sjúkrahúsið á Akureyri  100
Geðfatlaðir þjónusta, húsnæði  33
Háskólar almennt  400
Framhaldsskólar almennt  400
Hækkun örorku og ellilífeyris  5.305
Samgöngur nýframkvæmdir  700
Viðhald vega  700
Sóknaráætlun landshluta  400
Fæðingarorlof hækkun  1.700
Barnabætur  2.400
Umboðsmaður Alþingis  15
Fangelsismálastofnun  80
Kynbundið ofbeldi  200
Útlendingamál  200
Stafræn íslenska  170
Loftslagssjóður  200
Græna hagkerfið  70
Menningarmál  40
Ríkisskattstjóri  58
Samtals:  16.011    
Tekjur  mkr
Orkuskattur  2.000
Skatteftirlit  4.000
Arður af bönkum  8.000
Veiðigjöld  3.000
Samtals  17.000    

Þingfréttir 16.-20. nóvember

Spurningar og svör, bág fjárhagsstaða sveitarfélaga og fjarvera Gunnars Braga

Gleðilegan föstudag !

Þingvikan hófst hjá okkar fólki með því að fimm skriflegum fyrirspurnum þingmanna VG til ráðherra þar sem beðið var um munnlegt svar var svarað.

Katrín spurði fyrst forsætisráðherra um stöðu stjórnarskrármálsins. Tilefnið var að á undanförnum fundum stjórnarskrárnefndar hefur verið lagt upp með að um lokafund væri að ræða. Síðan hefur það breyst eftir hvern fund og hvergi bólar á sýn forsætisráðherrans hvenær eða hvernig beri að ljúka málinu og í hvaða farveg eigi svo að setja það.  Hvet ykkur til að lesa svör Sigmundar við spurningum Katrínar. 

Innanríkisráðherra svaraði svo fyrirspurn Katrínar til munnlegs svars um framkvæmd fyrirhugaðrar íbúakosningar um kísilver í Reykjanesbæ. Til upprifjunar hefur meirihlutinn bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sagt að hann muni ekki endilega hlíta niðurstöðum íbúakosningarinnar, þrátt fyrir að til hennar sé boðað að frumkvæði íbúa í samræmi við ákvæði tiltölulega nýrra sveitarstjórnarlaga.

Innaríkisráðherra svaraði líka skriflegri fyrirspurn Bjarkeyjar til munnlegs svars um hver staðan væri á  löggæsluáætlun fyrir Íslands sem var samþykkt  með þingsályktunartillögu þann 19. júní 2012 að yrði framkvæmd.

Þá svaraði sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra skriflegri fyrirspurn Steingríms um undirbúning við gerð búvörusamninga og tollavernd í landbúnaði.

Loks svaraði Illugi Gunnarsson 6 vikna gamalli fyrirspurn Bjarkeyjar um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Þess má geta að ráðherrar hafa 2 vikur til að svara fyrirspurnum þingmanna. Vildi Bjarkey fá á hreint hvenær ráðherrann hefði fengið seinast laun frá Orku Energy, boðsferðir á borð við laxveiðiferðir eða aðrar fyrirgreiðslur eða lán frá fyrirtækinu. Skemmst er að segja að Illugi játaði að hafa unnið fyrir fyrirtækið eftir að hann settist aftur á þing 2012 en gat ekki skýrt út af hverju hann fékk launagreiðslu í lok ársins nema þá að ekki hafi verið um fyrirframgreiðslu að ræða… Lítil sem engin fjölmiðlaumfjöllun hefur verið um þessa játningu ráðherrans.

Voðaverkanna í París minnst, bág fjárhagsstaða sveitarfélaga  og leitin að Gunnari Braga

Við upphaf þingfundar á miðvikudag var sérstök umræða um voðaverkin í París fyrir viku síðan. Tóku meðal annarra til máls þær Steinunn Þóra og Svandís.

Lárus tók til máls í störfum þingsins sama dag og og vakti athygli á bágri fjárhagsstöðu um 70 % sveitarfélaga í landinu sem standa í mjög erfiðum rekstri þrátt fyrir að hafa unnið velflest í endurskipulagningu á rekstri og á fjármálum sínum undanfarin ár. Vill Lárus endurskoða skiptinguna á tekjum á milli sveitarfélaga og ríkis. Undir þetta tók Steingrímur í sinni ræðu.

Lárus tók svo málið aftur upp við fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á fimmtudag.

Loks er ekki hægt að minnast á þingstörf vikunnar en að segja frá leitinni að Gunnari Braga. Stjórnarandstöðuþingmenn mótmæltu því hástöfum að ráðherra lét ekki sjá sig bæði á miðvikudag.

Þegar önnur umræða fór fram um frumvarp utanríkisráðherrans um Alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, sem innifelur í sér niðurlagningu  Þróunarsamvinnustofnunar Íslands ( ÞSSÍ ) og minni framlög íslenska ríkisins til þróunarmála, uppsagnir starfsfólks og óskýra stefnu og sýn á þróunarmál og framlög Íslands í þann málaflokk .

Ræddu þingmenn einnig fjarveru ráðherrans um málefni ÞSSÍ á fimmtudag og voru þingmenn sammála um að fjarvera hans í umræðunni um málefni ÞSSÍ kæmi í veg fyrir að skoðanaskipti um málið gæti átt sér stað og væri niðurlægjandi fyrir þingið.

Kröfðust þingmenn VG  þess í lok dags á fimmtudag að hætta ætti umræðunni um frumvarpið þar sem ráðherran ætlaði sér greinilega ekki að vera viðstaddur umræðuna um sitt eigið frumvarp. Lagði Ögmundur m.a til að forseti þings myndi taka frumvarpið af dagskrá, halda dagskránni áfram og ræða næstu mál á borð við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í lok fimmtudags mótmæltu svo þingmenn því að þeir þyrftu að lesa um það í fjölmiðlum að 2. umræða fjárlaga muni ekki geta átt sér stað í næstu viku eins og áætlað var. Tilefnið var orð formanns fjárlaganefndar í Fréttablaðinu um að umræða fjárlaga verði ekki í næstu viku. Játti forseti þingsins að hafa frétt af því eins og aðrir í fjölmiðlum.

Með þessu framhaldi er alveg ljóst að það stefnir hraðbyri í að núverandi ríkisstjórn verði sú verklausasta sem setið hefur, enda hafa aðeins um 20 – 30 stjórnarþingmál litið dagsins ljós af þeim rúmlega 120 stjórnarþingmálum sem ríkisstjórnin ætlaði sér að leggja fram á þingi fyrir jól. Kannski er það vel.

Góða helgi !

Rósa Björk

Þingfréttir 9.-13. nóvember

– Ný náttúruverndarlög, fjáraukinn og sérstök umræða um RÚV-

Merkustu tíðindi vikunnar á þinginu er án efa lagasetning nýrra náttúruverndarlaga á fimmtudaginn. Til upprifjunar eru núgildandi lög um náttúruvernd frá 1999 en um sumarið 2009 hófst vinna við Hvítbók um náttúruvernd á Íslandi en afrakstur þeirra vinnu varð að stjórnarfrumvarpi um ný lög um náttúruvernd sem lagt var fram í nóvember 2012,  rætt í þingsal og vísað til umhverfis-og samgöngunefndar í janúar 2013 og samþykkt á þingi í mars sama ár. Eftir stjórnarskiptin 2013 var lengi vel raunhæft að lögin yrðu einfaldlega felld úr gildi og afturkölluð en með miklu samráði við stjórnarandstöðu var því afstýrt en farið í nýja lagasmíð sem byggði á fyrri vinnu  við náttúruverndarlögin frá 2013.  Afrakstur þeirrar vinnu varð svo að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013,
með síðari breytingum (varúðarregla, almannaréttur,
sérstök vernd, framandi teg­undir o.fl.) og lagt fram á þingi nú í lok september.

Það er óhætt að fullyrða að Svandís Svavarsdóttir hafi borið hitann og þungann í vinnu samhents minnihluta  umhverfisnefndar við meðferð frumvarpsins nú. Þar kom reynsla og staðfesta Svandísar sér vel. Hún sagði meðal annars við atkvæðagreiðslu laganna ;

Hér erum við að horfa á gríðarlega mikilvæga niðurstöðu. Við erum að horfa á betri náttúruverndarlög en samkvæmt núgildandi rétti. Við erum að horfa á verulega réttarbót fyrir íslenska náttúru. “ sagði Svandís en notaði líka tækifærið að minna á næsta stóra verkefni í náttúruvernd sem væri vilji þjóðarinnar til að stofna miðhálendisþjóðgarð. Sömuleiðis áréttaði Svandís að hér væri ekki um sátt um náttúruvernd að ræða, heldur um sögulega málamiðlun.

Svaraleysi, fjáraukinn, makrílveiðar og aðgerðir gegn ofbeldi á fötluðum konum

Annars hófst vikan á því að mennta – og menningarmálaráðherra bað um frest til að svara heilum 11 skriflegum fyrirspurnum sem honum hafa borist. Þar af er um að ræða 4 fyrirspurnir frá þingmönnum VG.

Fyrsta umræða fjáraukalaga fór fram á mánudaginn. Bjarkey sagði í ræðu sinni að frumvarpið þjóni ekki tilgangi sínum og gagnrýndi m.a. að áhrifa nýgerðra kjarasamninga hafi ekki verið metinn inn í frumvarpið nema að hluta til.

Aðrir þingmenn VG sem tóku til máls í fjáraukalagaumræðunni voru Ögmundur, sem reifaði ágreining stjórnarþingmanna um samfélagsbanka og tillögu ríkisstjórnarinnar um sölu á 30% hlut ríkisins í Landsbankanum. Lárus Ástmar og Steingrímur tóku líka til máls en sá síðastnefndi gagnrýndi niðurskurð í fjárfestingum hins opinbera í innviðum samfélagsins á borð við framkvæmdir í vegamálum, í fjarskiptum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu sem og lækkun veiðigjalda síðustu 2 ára um heila 8,7 milljarða.

Steingrímur birti svo grein í Fréttablaðinu á föstudag um þessa heildarlækkun veiðigjalda sem nú er komin fram.

Í óundirbúnum fyrirspurnum á þriðjudag spurði Lárus Ástmar sjávarútvegsráðherra um breytingar á fyrirkomulagi makrílveiða smábáta og hvort ráðherra ætlaði sér að breyta því þar sem hún þýddi að margir smábátasjómenn fengu litla sem enga úthlutun og stóðu veiðar ekki undir tilkostnaði.

Steinunn Þóra, spurði Eygló Harðardóttur líka í óundirbúnum um hvernig hún hyggist beita sér fyrir aukinni fræðslu starfsfólk til að þekkja og koma auga á ofbeldi gegn fötluðu fólki þar sem fatlað fólk dvelur eða kemur saman og hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir fjármögnun fræðslu um ofbeldi gegn fötluðum.

 

Landbúnaðarháskólar og sérstök umræða um RÚV

Í óundirbúnum fyrirspurnum á fimmtudaginn spurði Lárus Ástmar menntamálaráðherra um framtíðarrekstur landbúnaðarháskólanna að Hólum í Hjaltadal og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Sagði Lárus hljóðið í íbúum þessa svæða vera afar þungt.

Sérstök umræða var svo um RÚV-skýrslu seinasta þingdag vikunnar að beiðni Svandísar. Í ræðu sinni minntist hún á þá sögulegu staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil haft horn í síðu Ríkisútvarpsins og viljað hlut almannaútvarps sem minnstan. Vildi Svandís eiga orðastað við mennta-og menningamálaráðherra um stöðu í nánustu framtíð.

Ráðherra svaraði því meðal annars til að RÚV skýrslan væri  ágætur grunnur ásamt öðrum upplýsingum sem hafa komið fram um rekstur Ríkisútvarpsins. Ekki útlistaði hann nánar stefnu sína í málefnum RÚV frekar heldur ræða ætti hana í framtíðinni.

Þingsályktunartillaga um Landsiðaráð lögð fram

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur ásamt samflokksfólki og þingmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stofnun Landsiðaráðs.

Ástæða þess að tillagan var mótuð og lögð fram eru ábendingar um að þörf sé fyrir sjálfstæðan og óháðan vettvang í íslensku samfélagi sem fjallar um siðfræði á breiðum grundvelli, veitir stjórnvöldum og almenningi leiðbeiningar í þeim efnum og stuðlar að umræðu um siðfræði. Bent er á siðaráð í Þýskalandi og Danmörku sem dæmi um slíkan vettvang sem gegnir mikilvægu hlutverki í þessum samfélögum.

Full ástæða er til að ætla að þörf sé fyrir Landsiðaráð á Íslandi, m.a. voru ábendingar um það í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 að siðferði hefði víða verið ábótavant í aðdraganda bankahrunsins og mætti rekja ófarirnar til þess að einhverjum hluta. Lögð er áhersla á það í þingsályktunartillögunni að Landsiðaráð verði fjölskipaður og óháður faglegur siðfræðivettvangur sem geti að eigin frumkvæði tekið siðfræðileg álitamál til umfjöllunar og gefið um þau álit sitt.

Efling heilbrigðiskerfisins með áframhaldandi sykurgjaldi

Þingflokkar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar, auk Birgittu Jónsdóttur þingmanns Pírata,  munu leggja fram sameiginlega breytingartillögu við þriðju umræðu á tekjuöflunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagafrumvarpið, sem nú stendur yfir. Tillagan gerir ráð fyrir að gjald á sykraðar vörur verði ekki afnumið um áramótin heldur haldist óbreytt og nefnist héðan í frá „sykurgjald“.

Lagt er til að tekjur sem hlýst af áframhaldandi gjaldi á sykraðar vörur, um 3 milljarðar króna, verði nýttir í uppbygging í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Tekjur af gjaldinu verði einnig nýttar til að sporna gegn þeim auknum lyfjakostnaði sjúklinga í S-merktum lyfjum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Ráðherra telur sáttanefnd „töluvert inngrip“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tók til máls í upphafi þingfundar í dag til að eiga orðastað við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra um verkfall og kjaradeilu lækna.

Katrín greindi frá því að hún hefði ásamt formönnum hinna stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi gert tillögu um skipun sáttanefndar í kjaradeilu lækna og ríkisins. „Við sjáum fram á kostnað sem hleðst upp í framtíðinni, auknir biðlistar eftir aðgerðum og öllum öðrum verkum og gríðarlegar áhyggjur almennings í landinu af stöðu mála í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Katrín og spurði heilbrigðisráðherra hvort skipun sáttanefndar kæmi ekki til greina til að leysa úr stöðunni.

Í svari sínu sagðist heilbrigðisráðherra deila áhyggjum af því hversu hægt miðar í deilunni og tók undir að staðan væri mjög alvarleg. Ráðherra útilokaði ekki að fara þá leið sem stjórnarandstöðuformennirnir hafa lagt til en sagði það vera „töluvert inngrip“. Í seinni ræðu sinni minnti Katrín hins vegar á að Alþingi hafi nýlega sett lög á kjaradeilur og benti á að „sáttanefnd sé mun vægara inngrip en slík lagasetning.“

Katrín lauk ræðu sinni með því að minna á skyldur Alþingis gagnvart heilbrigðisþjónustu almennings: „Það er okkar hlutverk hér á Alþingi en ekki síst hæstvirtrar ríkisstjórnar að tryggja þann stöðugleika sem almenningur í landinu á skilið,“ sagði Katrín og bætti við: „Það gerum við meðal annars með því að tryggja það að hingað snúi læknar aftur, til að mynda úr námi.“

Sameiginlegar tillögur stjórnarandstöðunnar til breytinga á fjárlagafrumvarpinu

Fyrir aðra umræðu fjárlaga hefur stjórnarandstaðan sameinast um eftirfarandi breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu. Tillögurnar miða að því að sníða helstu vankantana af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum stjórnarmeirihlutans og eru fjármagnaðar að fullu.

Í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir að teknar séu til baka ýmsar ákvarðanir stjórnarmeirihlutans um útgjöld og tekjur, svo sem fokdýr skuldaniðurfærsla, lækkun veiðigjalds, afnám auðlegðarskatts og nú síðast lækkun sykurskatts sem samtals nema nærri 50 milljörðum króna á ári. Breytingar á þeim ákvörðunum í heild eða hluta getur þannig skapað gríðarlegt viðbótarsvigrúm í ríkisrekstrinum.

Velferðarmál

Greiðslur sjúklinga hækki ekki

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu hækka greiðslur almennings fyrir heilbrigðisþjónustu um 1.900 milljónir á ári. Lagt er til að þessar hækkanir verði allar dregnar til baka.

Sókn í velferðarmálum

Framlög til viðhalds bygginga Landspítala og til að vinna á biðlistum vegna verkfalls og sérstakt framlag til BUGL. Aukin framlög til lífeyrisþega.

 

Mennta- og menningarmál

Framhaldsskólinn verði opinn fyrir alla

Stjórnarmeirihlutinn mun að óbreyttu loka aðgangi fólks yfir 25 ára aldri að framhaldsskólum. Þessi aðgangstakmörkun er dregin til baka í tillögunum.

Sátt um RÚV og íslenska menningu

Útvarpsgjald verði óbreytt og renni óskert til RÚV í samræmi við tillögu stjórnar RÚV. Aukin framlög í verkefnasjóði skapandi greina og bókasafnssjóð rithöfunda. Framlag til Landssambands æskulýðsfélaga og framlag til að fylgja eftir þingsályktun um stafræna íslensku.

Háskólar fái úrlausn

Opinberir háskólar fái stuðning til að efla samstarf og samvinnu og Listaháskólinn húsnæðisframlag

 

Atvinnumál og innviðir samfélagsins

Stöndum vörð um réttindi á vinnumarkaði

Fallið verði frá styttingu bótatíma atvinnuleitenda úr þremur í 2 ½ ár og aukið fé verði veitt í þjónustu við atvinnuleitendur. Ríkið greiði áfram umsamin framlög til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða.

Uppbygging innviða

Stóraukin framlög í sóknaráætlun, nýframkvæmdir í vegamálum, hafnamálum og í framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Framlög verði veitt á ný veitt í Græna hagkerfið.

 

Ýmis réttlætis- og mannréttindamál

Hætt verði við að fella niður framlag til ríkissaksóknara og lögreglu vegna þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis. Aukið framlag til Útlendingastofnunar til að vinna á biðlistum og stytta málshraða við meðferð hælisumsókna. Framlag til þingsályktunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi (IMMI).

 

Fjármögnun tillagnanna

Á móti auknum útgjöldum er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna hækkun veiðigjalda til samræmis við fyrri áform og efldra skattrannsókna, m.a. með tafarlausum kaupum á upplýsingum úr skattaskjólum og auknu framlagi til skattrannsóknarstjóra.

 

Sækja PDF