Posts

Við og hinir

Við vitum að á Íslandi eru stunduð mannúðarstörf. Með því er átt við fjölskylduhjálp, líknarmeðferð á sjúkrahúsum, endurhæfing þeirra sem eiga við gerðræn vandamál að stríða, fjárgjafir til íbúa jarðskjálftasvæðis sem hefur orðið illa úti og …? Er þörf á að nefna meira? Rauði krossinn á Íslandi telur 42 deildir og í Landsbjörgu eru 18 þúsund félagar og sjálfboðaliðar. Við gerum ekki mun á hjálpar- og mannúðarstöfum af því að við erum siðrænir mannvinir og stundum þau þegar þarf. Sjálf höfum við þegið hjálp að utan í neyð og þakkað fyrir mannúð þegar náttúruöfl hafa gert okkur tjón, óhamingju og mannskaða. Okkur er ekki tamt að setja kostnað við mannúð upp á móti öðrum samfélagskostnaði og heimta að menn velji. Ópera eða líknardeild? Snjóflóðavarnir eða ókeypis máltíðir skólabarna? Móttaka bátafólks eða jarðgöng? Nei, þetta er einfaldlega bæði og.

Möguleikinn á mannsæmandi lífi

Í stríðshrjáðum löndum, sem má telja á annan tug, og löndum þar sem einföldustu mannréttindi eru úr gildi færð telst fólk í neyð. Það flýr til að finna lágmarksfrið og möguleika á að lifa mannsæmandi lífi.
Samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu SÞ sem Íslendingar samþykkja og styðja (sjá 14. grein – 1. atr.) „hafa allir rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum”. Orðin eru alveg ljós og við þau eigum við að standa enda segir í 30. grein að ekkert í yfirlýsingunni megi túlka á þann veg að nokkru ríki, hópi eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það sem stefni að því að gera að engu þau réttidi eða frelsi sem talin eru þar upp.

Aðeins 25% veitt hæli

Árið 2015 leituðu hingað 335 einstaklingar. Þar af af hættu 15% við, 35% var synjað, 25% vísað frá og 82 eða 25% veitt hæli. Af fjöldanum sem leitaði hingað voru 151 í umsjón Útlendingastofnunar og 193 hjá þremur sveitarfélögum. Greitt er með hverjum og einum meðan úrlausn er ákveðin og rennur bróðurparturinn af því fé til umsjónaraðila en ekki til hælisleitandans beint.

Spáð var 600-800 umsóknum á þessu ári og voru 162 mál í vinnslu hjá hinu opinbera í janúar 2016. Fái 20% af 700 manns jákvæða úrlausn eru það 140 einstaklingar. Giska má á að nokkur hundruð manns hafi fengið hér hæli á einum áratugi; meðal tugþúsunda útlendinga sem margir hverjir bíða ríkisborgararéttar og hafa lang-langflestir auðgað þjóðfélagið.

Við getum öll ímyndað okkur flótta og neyð hinna, ekki satt? Þegar svo við erum orðnir hinir einhvern daginn þökkum við fólki og hamingjunni, jafnvel guði, fyrir það sem allir geta líka ímyndað sér: Auðsýnda mannúðina. Vissulega er til sveiflukenndur hámarksfjöldi á ári sem unnt er að sinna sómasamlega. Finnum hann í stað þess að deila um sammannlegt hlutverk hins viti borna.

Höfundur skipar 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi

Internet og krókaveiðar?

Nútíminn setur svip á málefni sem við nefnum oftast byggðastefnu. Það merkir að sjálfssögð gæði eins og lífleg menningarstarfsemi, notaleg veitingahús, örugg raforka og háhraðatenging inn í netheima vega þungt. Þegar eldri íbúar taka ákvörðun um að bregða búi eða dvelja áfram í heimabyggð, og ungt fólk einsetur sér að lifa og starfa í heimabyggð, koma þessi atriði og fleiri til álita. En ekki bara ný gildi. Þau mannréttindi að fá að nýta eina gjöfulustu náttúruauðlind okkar og geta stundað aldagamla hefð, þéttofna inn í mannlíf og menningu, vegur líka þungt. Já, auðvitað á ég við fiskveiðar á nærsvæði byggða. Öflugt bæjarlíf í tugum sjávarbyggða er háð á líflegri útgerð smærri skipa og báta með sem umhverfisvænstu sniði, svo sem krókaveiðum og lágmarkseyðslu eldsneytis, rétt eins og starfsemi stærri útgerða í helstu fiskveiðibæjum landsins hefur staðið undir styrku mannlífi þar í bland við smáútgerð.

Héraðsbundnar fiskveiðar

Nýjar tilraunir með rafknúin smáskip og báta á Húsavík gætu opnað nýjar aðferðir við að minnka losun frá hluta flotans.

Með kvótasetningu og annarri fiskveiðistjórnun var ekki sá tilgangur æðstur að loka margan sjómanninn og útgerðarmanninn frá auðlindinni; kverka smáútgerð og trillusjómennsku. En það gæti þó hafa legið við með þróun veiða og veiðiréttinda eins og hún var lengst af, allt þar til á allra síðustu árum. Sem betur fer eru teikn á lofti um að snúa megi þróuninni við og líta á héraðsbundnar fiskveiðar og -vinnslu sem eina leið af mörgum leiðum til að halda uppi sjálfbærri byggð í landinu, efla fjölmenningu, halda uppi góðu atvinnustigi, framleiða dýrmæta vöru og auka á þá gleði sem fylgir góðum náttúrunytjum með dreifðum afrakstri.

Ari Trausti Guðmundsson skipar 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi

Ferðaþjónustan: Meira þarf til

Margir benda á að megingagnrýni á þróun ferðaþjónustunnar varði sein viðbrögð opinberra aðila og einkageirans við álaginu.
Byggðir, bæir, borgin og ólíkir geirar samfélagsins hafa misvel skilgreinanleg þolmörk frammi fyrir þjónustuhlutverki sínu; ekki bara ein heldur mörg. Íbúar bæja og héraða persónuleg þolmörk, annað atvinnulíf en ferðaþjónusta hefur þolmörk og innviðir hafa þolmörk o.s.frv. Þar í blandast ólíkar skoðanir á hvað er réttara en annað þegar ferðaþjónustulestin æðir áfram, sífellt hraðar. Það er flókið verk að búa þannig um að þessi þolmörk séu sæmilega ljós og í samræmi við lýðræði. Til þess þarf frumkvæði einkaaðila, samtaka og umfram annað: Stjórnvalda á stigi sveitastjórna og ríkisvalds.

Umhverfið hefur þolmörk

Þolmörk umhverfis, bæði þess manngerða og náttúrunnar, eru líka til. Allar umhverfisnytjar og þá sér í lagi náttúrunytjar hafa sín þolmörk. Um þau hefur þegar verið rætt en þau sjaldan tengd við raunveruleikann, þ.e. blússandi fjölgun dýrmætra ferðamanna sem verða sennilega nær áttfaldur fjöldi fullorðinna landsmanna við árslok 2016 og 2,4M á næsta ári.

Verkefnalistinn er langur

Vegvísir í ferðaþjónustu (október 2015) sem Samtök ferðaþjónustunnar og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóðu að er einungis grunnur að stefnu; langur verkefnalisti. Stefnan sjálf verður til þegar unnið er úr þessum vegvísi, hann bundinn áætlunum, hengdur verðmiði á mikilvæg atriði og ákveðið hvernig peninganna er aflað. Lítið hefur enn sést til þess alls og er þá ekki gert lítið úr auknum fjárveitingum eða nýjungum. Heildina vantar. Inn í alla þá vinnu verður að flétta þolmörkum. Fyrsta skrefið er að viðurkenna að ferðaþjónusta lýtur ekki ósvipuðum takmörkum og aðrar náttúru- og samfélagsnytjar – ef við viljum halda uppi fjölbreyttu mannlífi, fjölbreyttri atvinnu og áhugaverðu náttúruumhverfi. Annað skrefið felst í að ræða og ákvarða aðferðir við að stýra uppbyggingunni jafnt sem álagi á fólk og umhverfi.

Sjálfbær ferðaþjónusta er markmið, ekki satt?

Ari Trausti Guðmundsson skipar 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi

Auglýst eftir frambjóðendum í Suðurkjördæmi

Vinstrihreyfingin- grænt framboð í Suðurkjördæmi auglýsir eftir frambjóðendum á lista hreyfingarinnar við næstu alþingiskosningar. Þeir sem áhuga hafa á að taka sæti á listanum og/ eða geta stungið upp á frambjóðendum til að taka þar sæti eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við eitthvert eftirtalinna sem skipa uppstillingarnefnd eigi síðar en 24. júní nk.

Almar Sigurðsson heima@lambastadir.is
formaður uppstillinganefndar

Þórunn Friðriksdóttir thorunn@fss.is
Bjarni Þórisson bjarni@gmail.com
Anna Sigríður Valdimarsdóttir annasigga@aknet.is
Guðmundur Ólafsson gudm.olafsson@gmail.com
Ragnar Óskarsson ragnarrho@simnet.is
Sigrún Birna Steinarsdóttir sigrun.birna@gmail.com
Steinarr Guðmundsson steinarr.g@gmail.com

Uppstilling í Suðurkjördæmi

Ákveðið hefur verið að stilla upp á lista Vinstri grænna  í Suðurkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningar. Þetta var ákveðið á aðalfundi kjördæmisráðs á Selfossi 7. maí sl.

Mikill hugur var í fundarmönnum og ljóst að fólk er tilbúið að vinna af alefli að framgangi Vinstri grænna í komandi kosningabaráttu í Suðurkjördæmi. Ákveðið var að gefa því fólki sem gengið hefur til liðs við hreyfinguna eða vill gera það, tækifæri til að gefa sig fram, vilji það taka sæti á lista fyrir kosningarnar. Einnig er mögulegt að senda inn ábendingar og tilnefningar um fólk sem vill taka sæti á lista Vinstri grænna fyrir næstu kosningar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, ávarpaði aðalfund kjördæmisráðsins á Selfossi.  Hún fór yfir þau mál sem eru í brennidepli á þinginu og ræddi hún stöðuna í stjórnmálunum og undirbúning fyrir kosningabaráttuna sem nú er framundan.

Nýtt umhverfismat fyrir Hvammsvirkjun!

Á fjölmennum aðalfundi kjördæmisráðs Vinstri grænna í Suðurkjördæmi var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Kjördæmisráð Vinstri grænna á Suðurlandi tekur undir kröfu um nýtt umhverfismat fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.

Það er nauðsynlegt að standa vel og faglega að verki þegar reisa á mannvirki sem hafa mikil áhrif á umhverfi og samfélag um ófyrirsjáanlega framtíð.

Kjördæmisráðs Vinstri grænna skorar á stjórnvöld og Landsvirkjun að láta þegar af öllum þrýstingi á verkefnisstjórn rammaáætlunar og Skipulagsstofnun og leyfa málinu að hafa sinn gang.

Vinstri græn í Suðurkjördæmi

Jólablöð VG á Suðurlandi

Kjördæmisráð Vinstri grænna í Suðurkjördæmi og Vinstri græn í Vestmannaeyjum hafa gefið út Jólablöð VG. Blöðunum er dreift víða á Suðurlandi og svo er hægt að fletta þeim hér á PDF sniði.

Jólablað VG í Suðurkjördæmi

Jólablað VG í Vestmannaeyjum