Posts

Stjórnmálaskóli VG – Sjálfbærni

Annar tími í stjórnmálaskóla VG var haldinn þriðjudaginn 3. maí fyrir fullu húsi í kjallaranum á Hallveigarstöðum. Guðni Elísson, Svandís Svavarsdóttir og Steinar Kaldal fluttur erindi sem má nálgast hér að neðan. Næsti tími eru 10. maí en þá verða mannréttindamál rædd.

Erindi Guðna

Erindi Svandísar

Erindi Steinars

Fákeppnin og skömmin

Hvar erum við stödd nú sjö/átta árum eftir hrun? Rifjum upp stemmninguna 2007 þegar peningar flæddu um samfélagið, peningar sem enginn átti en allir fengu að láni, gullið á borðum sumra, misréttið vaxandi. Arður greiddur ríkum. Bónusar stærri en mánaðarlaun verkafólks, stærri en árslaun sjúkraliða eða bensínafgreiðslumanns.

Aðdragandinn að hruninu var klæðskerasniðinn að hætti nýfrjálshyggjunnar. Hömlur skyldu minnkaðar, dregið úr eftirliti, fjármagnið skyldi frjálst, óháð, flæðandi. Markaðurinn allra meina bót. Samkeppni var lausnarorðið. Nýfrjálshyggjutilraunin í hámæli. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði, leysti einkaframtakið úr læðingi, allir glaðir, bankarnir stækkuðu og bólan þandist út.

Og svo hrundi allt. Fjármálakerfið, stjórnmálakerfið, traustið.

Árið er 2016 – hrunið að baki og sömu stjórnvöld við völd og í aðdragandanum. Sama stefið, sama trú, sama áráttukennda fullvissan um markaðinn og einkaframtakið fikrar sig inn í almannaþjónustuna, samfélagsstofnanir hæddar og innviðir vanræktir.

Staðan einkennist af einokunarkapítalisma. Fáir stórir aðilar sitja að því að bjóða þjónustu sem enginn getur vikið sér undan að kaupa. Samkeppnin er orðin tóm og í rauninni fákeppni – tryggingafélögin hafa óheftan aðgang í raun að almenningi. Sjóvá fékk stuðning frá þessum sama almenningi eftir hrun, úr ríkissjóði til að halda sjó og geta greitt út tryggingar. Hvert fara svo þessir peningar? Þessar fjárhæðir? Til eigenda. Í formi arðs.

Fjármálaráðherra sagði hér í gær að skömmin væri þeirra sem taka arðinn út úr fyrirtækjunum. Þar talaði fjármálaráðherra um málið úr samhengi. Skömmin er nýfrjálshyggjunnar. Skömmin er Sjálfstæðisflokksins. Skömmin er þeirra sem styðja þau sjónarmið til valda. Skömmin er þeirra sem hvetja nú til þess með aðgerðum og aðgerðaleysi að Ísland verði aftur tilraunaverkefni nýfrjálshyggjunnar.

Almenningur lætur ekki bjóða sér það. Það höfum við séð áður og það munum við sjá aftur.

Ríkisstjórnin ræðst á rammaáætlun

Rammaáætlun var rædd í fjölmennu flokksráði Vinstri grænna í dag og eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.

Fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem auglýstar er eru á vef umhverfisráðuneytisins eru augljóslega settar fram í því skyni að hafa að engu niðurstöðu rammaáætlunar 2. Þannig verður með breytingunum hægt að meta að nýju svæði í verndarflokki sem ekki hafa enn verið friðlýst. Núverandi ríkisstjórn hefur enga áherslu lagt á friðlýsingar þannig að sú vinna hefur legið niðri allt kjörtímabilið. Þótt ráðherra sé skylt samkvæmt lögum um rammaáætlun að hefja friðlýsingar á öllum svæðum í verndarflokki hefur engin áhersla verið lögð á þau verkefni. Með breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður unnt að meta öll þessi svæði að nýju með það að markmiði að færa einhver þeirra í nýtingarflokk. Áform Landsvirkjunar um að virkja í Norðlingaöldu sem er í verndarflokki með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins liggja greinilega meðal annars til grundvallar tillögum ráðuneytisins.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir þessi vinnubrögð umhverfisráðuneytisins og ráðherra umhverfismála og telur þau fara í berhögg við lög um rammaáætlun. Ljóst er að verndarsjónarmið eru að engu höfð og mæta afgangi í öllum verkum núverandi ríkisstjórnar.

Aðgerðir strax í þágu barna

Fyrr í vikunni kynnti UNICEF á Íslandi skýrslu um lífskjör íslenskra barna. Í skýrslunni kom meðal annars fram að hlutfall íslenskra barna sem býr við skort hefur tvöfaldast. Hér eru grafalvarlegar upplýsingar á ferð sem verður að setja í samhengi. Bornir eru saman tveir tímapunktar – árið 2009 og árið 2014. Kannanir sem þessar eru ekki gerðar með reglubundnum hætti og þess vegna ekki gott að átta sig á því hvort breytingar hafi átt sér stað síðan 2014 og þá í hvaða veru.

Ákvarðanir og vilji stjórnvalda á hverjum tíma hafa áhrif á kjör barna. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa barnabætur og vaxtabætur verið lækkaðar, matarskattur verið hækkaður, örorkubætur ekki hækkaðar til samræmis við kjör á vinnumarkaði. Allar þessar ákvarðanir hafa áhrif á daglegt líf og kjör íslenskra barna.

Þegar svo alvarlegar tölur koma í ljós hlýtur það að vera skýlaus krafa að stjórnvöld leggi fram skýra áætlun um að ráðast gegn skorti og fátækt í lífi barna á Íslandi. Við eigum ekki að líða að börn líði skort. Ekki undir nokkrum kringumstæðum og allra síst rík þjóð.

Auk þess að leggja fram slíka áætlun verður ekki við annað unað en að sambærilegar kannanir verði gerðar ár hvert líkt og UNICEF­ á Íslandi hefur lagt áherslu á. Með því móti geta stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, byggt sínar ákvarðanir á traustari grunni öllum börnum til heilla.

Það er ekki bragur að því að tala um að allt gangi betur á Íslandi þegar börnum sem líða skort fjölgar eins og kemur fram í skýrslunni. Jöfnuður er sannarlega mikilvægt markmið í samfélaginu og verður sífellt meira aðkallandi í heiminum öllum að stemma stigu við misrétti og ójöfnuði hvar sem það birtist. Þegar börn eru annars vegar verður að grípa í taumana og hefja aðgerðir tafarlaust. Hagur allra barna er á ábyrgð samfélagsins alls.

Svandís Svavarsdóttir

Náttúruverndarlög samþykkt samhljóða

Ný náttúruverndarlög voru samþykkt á Alþingi í dag með 42 samhljóða atkvæðum. Þingmenn allra flokka hafa sagt við atkvæðagreiðsluna að lögin séu stórt framfaraskref, búið sé að lenda helstu ágreiningsefnum og ljóst sé að tíminn hafi verið notaður vel og hann hafi komið náttúrunni til góðs.

„Löngum leiðangri loks lokið með því að náttúruverndarlögin frá 2013 eru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í þingsal.” segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.

Hún segir að ný náttúruverndarlög séu veruleg réttarbót fyrir íslenska náttúru og framför fyrir náttúruvernd.

„Auðvitað er um að ræða málamiðlun í ýmsum efnum en mikilvægast er að Vinstri græn áttu sterka og mikilvæga aðkomu að heildarendurskoðun náttúruverndarlaga en það var eitt af okkar stóru verkefnum þegar ný ríkisstjórn tók við 2009.” bætir Svandís við.

Þingfréttir – 40% misskilningur, flygildi og brennivín

Gleðilegan laugardag kæru félagar,

Vikan í þinginu hófst á því að Katrín spurði forsætisráðherra um yfirlýsingu hans á leiðtogafundi SÞ um markmið Íslands í losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Drógu bæði aðstoðarmaður og umhverfisráðherra síðar í land með yfirlýsingu Sigmundar. Katrín lagði því áherslu á mikilvægi þess að forsætisráðherra segði frá því með skýrum hætti hvernig þessi fyrirætlan væri hugsuð.

Sama dag spurði Katrín innanríkisráðherra um hvort setja eigi almenna löggjöf eða reglur um notkun dróna, eða flygilda eins og þetta tænkiundur er nefnt, hjá opinberum aðilum eða einkaaðilum í atvinnulífinu. Vísaði Katrín til Frakklands, Þýskalands og Svíþjóðar þar sem skýrar reglur eru um noktun flygilda.

Svandís sendi inn fyrirspurn til munnlegs svars til sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra um dýravernd og verður fyrirspurnin tekin fyrir vonandi sem fyrst.

Umræða um hæfnispróf í framhaldsskólum fór einnig fram í vikunni að frumkvæði Svandísar sem hafði sent til menntamálaráðherra fyrirspurn til munnlegs svars um málið.

Í störfum þingsins á þriðjudag vakti Lilja Rafney athygli á umdeildri ákvörðun Rannsóknarnefndar sjóslysa vegna hörmulegs sjóslyss í sumar þegar báturinn Jón Hákon BA sökk. Rannsóknarnefndin hefur ákveðið að ná ekki bátnum upp af hafsbotni en samtök sjómanna hafa harmað ákvörðunina. Undir þá gagnrýni tekur Lilja Rafney.

Stöðugleikaframlögin voru rædd á þinginu í gær þegar forsætisráðherra skundaði í þinghús og í óundirbúnar fyrirspurnir með stuttum fyrirvara. Katrín notaði tækifærið og benti á að stöðugleikaframlögin virðast minnka með hverjum degi skv. fréttum. Upphaflegu 450-500 milljarðarnir sem boðaðir voru séu komnir niður í um það bil 300 milljarða. Erfitt reynist að fá fullnægjandi upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd og því þurfi forsætisráðherra að fara yfir stöðuna enda um gríðarstórt hagsmunamál almennings sé að ræða.

Það hefur varla farið fram hjá neinum að mikið hefur verið rætt um brennivín síðustu daga, enda lagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, loks fram frumvarp sitt í gær um brennivínssölu í verslanir og fór fyrsta umræða fram á þinginu í kjölfarið. Framsóknarfólk er á móti frumvarpinu sem og okkar fólk og aðrir stjórnarandstöðuliðar. Ögmundur vakti athygli á lýðheilsusjónarmiðunum, samþykktum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem leggst gegn smásölu á áfengi og umsögnum landlæknisembættisins og samtaka um vímuefnamál og æsklýðsmál um frumvarpið. Ögmundur kallaði líka réttilega eftir viðveru og skoðun heilbrigðisráðherra og samflokksmanns Vilhjálms í málinu

Ögmundur tókst svo á við Vilhjálm um málið í Síðdegisútvarpi Bylgjunnar á fimmtudag

Það gerði Bjarkey líka í Morgunvakt Ríkisútvarpsins klukkan hálfátta á föstudegi

Bjarkey sendi líka inn fyrirspurn á Illuga Gunnarsson um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Spurningar hennar eru kristalskýrar og ættu að hjálpa ráðherranum að gera almennilega grein fyrir þessum tengslum. Vonast er til að hann svari Bjarkey ekki í Fréttablaðinu heldur í þingsal.

Steinunn Þóra fékk svör í vikunni við fyrirspurn sinni til félags og húsnæðismálaráðherra um endurgreiðslukröfurkröfur

Fæðingarorlofssjóð  og spurðist líka fyrir um aðgengisstefnu ríkisins að opinberum byggingum

Hún vippaði sér svo í Harmageddon á X-inu og lét þar gamminn geisa um að prestar hætti að fá leyfi til að gifta fólk og flutt til borgaralegra starfsmanna.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, settist í fyrsta sinn á þing í vikunni í fjarveru Steingríms. Ingibjörg talaði m.a. um nauðsyn þess að jafna fluggjaldakostnað á landinu og kynjafræðslu á öllum skólastigum. Ingibjörg situr áfram á þinginu næstu viku.

Góða helgi !

Til hamingju með dag íslenskrar náttúru

Forseti!

Ég vil óska þingheimi og þjóðinni allri til hamingju með Dag íslenskrar náttúru en á slíkum degi er tilefni til að fagna náttúru Íslands og því sem hún gefur okkur á degi hverjum, ár hvert og árið um kring.

Fiskur – orka – jarðhiti – vatn – loft – norðurljós – myrkur – gróður – fuglalíf – selir – hvalir – fossar og fjöll – landslag og einstök víðerni.

Samfélagið er drifið áfram af afurðum náttúrunnar, en arðinum þarf að skipta réttlátar, deila honum út á meðal fólksins, í sameiginlega sjóði þar sem allir njóta góðs af, þar sem enginn hirðir ótæpilegan gróða, þar sem samfélagið í heild, framtíðin og börnin njóta góðs af.

Öll nýting verður að vera með sjálfbærum hætti. Við eigum að skila náttúrinni jafngóðri eða betri til komandi kynslóða. Réttur okkar til nýtingar er takmarkaður við slíka nálgun.

En hver er staðan og skilningurinn á stöðu íslenskrar náttúru nú um stundir, hér á Alþingi og í stjórnarmeirihlutanum?

Náttúruminjasafn íslands sem á að vera höfuðsafn fær 25 milljónir í framlag á fjárlögum og býr við skilnings- og metnaðarleysi stjórnvalda. Þetta þarf að laga.

Rammaáætlun tókst að verja með miklu harðfylgi á síðasta þingi en friðlýsingar á grundvelli hennar fara ekki fram og engin áform sjást í nýju fjárlagafrumvarpi um að gera betur í friðlýsingarmálum. Þetta þarf líka að laga.

Frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra til náttúruverndarlaga felur í sér óburðuga vernd sérstakra náttúrufyrirbæra og varúðarreglan er allt of veik í frumvarpinu. Þetta þarf að laga svo bragur verði á.

Náttúra Íslands er einstök á heimsvísu. Hér má finna fjölbreytt náttúrufyrirbæri hlið við hlið, einstakar jarðminjar og fágæti við hvert fótmál, víðáttur, jöklar og sandar. Við verðum að átta okkur á því hversu einstök náttúran er og að hún vernduð er grundvöllur heillar atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar.

Íslensk náttúra og allt sem að henni lýtur þarf að skipa ríkari sess í allri ákvarðanatöku og umræðu. Við þurfum að skilja hana, rannsaka hana, virða hana – hagsmunir hennar eru hagsmunir komandi kynslóða og um þá ber okkur að standa vörð.

Núverandi stjórnvöld þurfa að gera betur, svo miklu betur. Sameinumst um hagsmuni íslenskrar náttúru.

Til hamingju með daginn.

Brúum bilið!

Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og löngu tímabært að taka af festu á því máli. Ungar barnafjölskyldur glíma við vandann á einstaklingsgrunni, með aðkomu dagforeldra, ungbarnaleikskóla eða hjálp fjölskyldu og ættingja. Ekkert heildstætt kerfi tekur við þegar fæðingarorlofi sleppir og úr því þarf að bæta eins fljótt og við verður komið til þess að Ísland verði aðlaðandi kostur fyrir barnafjölskyldur.

Á dögunum kom út skýrsla á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Skýrslan er unnin á grundvelli þingsályktunartillögu frá þingflokki VG sem samþykkt var á Alþingi í desember 2013. Skýrslunni ber að fagna enda má greina í henni eindreginn samhljóm meðal ríkis og sveitarfélaga um að nú þurfi að stíga næstu skref.

Í skýrslunni kemur fram að þótt sveitarfélög séu ekki öll jafn vel í stakk búin til að sinna þessum málaflokki er þörfin ótvíræð. Rannsóknir bendi til þess að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að börn njóti leikskólavistar og að um sé að ræða verulegan faglegan ávinning fyrir yngstu börnin að vera í góðum leikskólum með vel menntuðu starfsfólki. Þetta eigi sérstaklega við um börn með seinkaðan þroska, börn sem búa við bága félagslega stöðu og börn af erlendum uppruna. Þannig má öllum vera ljóst að með leikskólastarfi fyrir yngstu börnin er stuðlað með skýrum hætti að félagslegum jöfnuði. Að sjálfsögðu er um að ræða stórt og umsvifamikið verkefni þar sem huga þarf að húsnæðisþörf, starfsfólki og kostnaðarauka, og þá um leið fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ekki verður við það unað að svo mikilvægt verkefni falli milli skips og bryggju vegna togstreitu þar sem ríki og sveitarfélög takast á um fjármuni. Öll erum við skattgreiðendur og höfum falið ríki og sveitarfélögum það sameiginlega hlutverk að byggja undir og drífa áfram öflugt samfélag í þágu heildarinnar.

Í fyrrnefndri skýrslu er sérstaklega fjallað um alþjóðlegan samanburð en þar er bent á að á Íslandi er fæðingarorlof tiltölulega stutt og skylda sveitarfélaga til að bjóða upp á leikskólavist ekki nægilega vel skilgreind í lögum. Á þessu þarf að gera bragarbót. Aftur á móti er tiltölulega almennt og mikið aðgengi að íslenska leikskólanum og þar eru gerðar ríkar faglegar kröfur sem bæði koma fram í námskrá og menntun kennara. Skýrslan er efnismikil og vel unnin en nú þarf að fylgja henni eftir. Þar þurfa ráðherrar menntamála og félagsmála að sýna pólitískan vilja sinn og ríkisstjórnarinnar til góðra verka. Fæðingarorlof þarf að lengja og leikskólann þarf að efla. Rökin liggja fyrir og þörfin blasir við.

Eldhúsdagsumræður – Svandís Svavarsdóttir

Herra forseti, góðir Íslendingar!

Svo óvenjulega háttar til að eldhúsdagsumræður að þessu sinni eru í byrjun júlí og hafa aldrei í sögunni farið fram svo seint. Þingið hefur nánast rekið á reiðanum mánuðum saman enda stjórnarmeirihlutinn á löngum köflum forystulaus. Forsætisráðherra sífellt á flótta frá samskiptum við þingið og þjóðina. Fjöldamörg dæmi eru um mál þar sem hann hleypur héðan út eða svarar málefnalegri gagnrýni með skætingi. Síðast nú í byrjun vikunnar í umræðum um samninga við kröfuhafa. Meðan sundrung og óeining hafa einkennt störf ríkisstjórnarinnar hefur stjórnarandstöðunni tekist að standa saman í baráttunni fyrir betra samfélagi. Við í VG höfum lagt áherslu á að skapa forsendur fyrir þeirri samstöðu í fjölmörgum málum. Sundrung og óeining í okkar röðum var ekki til heilla á síðasta kjörtímabili og við Vinstri græn höfum lært mikið af þeirri reynslu. Okkur hefur tekist að skapa samstöðu innan okkar eigin raða og ekki síður í stjórnarandstöðunni allri. Niðurstaðan er skýr árangur: ýmis óþurftarmál sem ríkisstjórnin ætlaði að þvinga í gegnum þingið hafa verið stöðvuð og ber þar hæst fordæmalausa breytingartillögu við rammaáætlun þó að dæmin séu miklu fleiri. Þetta tókst af því að við stóðum saman.

En stjórnarandstaðan hefur ekki bara verið samstæð í því að veita andspyrnu. Hún hefur líka staðið saman að tillöguflutningi og sýnt með því frumkvæði að mikilvægum breytingum í átt til jafnréttis og lýðræðis. Stjórnarandstaðan stóð saman að breytingum á fjárlagafrumvarpinu með félagslegum áherslum og lagði líka fram tillögu um að setja Evrópusambandsmálin í lýðræðisfarveg. Öll höfum við talað fyrir auknu lýðræði, gagnsæi, jöfnuði, kvenfrelsi og umhverfissjónarmiðum þótt einhver áherslumunur sé á milli flokka. Í meirihlutanum í Reykjavík er þetta orðað svona í samstarfssáttmála VG, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata: „Með hreinskilni og heiðarleika að leiðarljósi ætlum við að læra hvert af öðru og mynda heild sem er auðugri en summa okkar samanlögð.“ Þetta finnst mér gott leiðarljós. Og leiðarljós til að vinna með áfram.

Ríkisstjórnin aftur á móti hefur verið verkstjórnarlaus og ekki ráðið við að koma málum áfram. Þar er engin yfirsýn, engin heildarsýn heldur er hver ráðherra settur í þá stöðu að berjast fyrir sínum málum og jafnvel eru dæmi um mál þar sem úthald til þess er ekki fyrir hendi. Greinilegt er og það hefur komið í ljós í vetur að lítil samstaða er í stjórnarliðinu; það er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna. Þar má nefna bankabónusa og bankasýslu ríkisins, áherslur við stjórnun fiskveiða, húsnæðismál, fleira og fleira. Stjórnarflokkarnir hafa ekki einu sinni getað komið sér saman hvernig fagna eigi aldarafmæli íslenska fullveldisins og situr tillaga þar að lútandi föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

En við höfum líka verið ábyrg stjórnarandstaða. Andstaða sem hefur sýnt því skilning þegar þörf hefur verið á því að kalla til þingfunda á óvenjulegum tímum eða mæla fyrir stórum málum eins og þeim sem nú eru í efnahags- og viðskiptanefnd og fjalla um samninga við kröfuhafa. Þannig erum við ólík þeirri stjórnarandstöðu sem var hér á síðasta kjörtímabili og setti sig á móti stórum málum og smáum, hver sem þau voru.

Næsta skref okkar í VG er að halda áfram að leggja okkar lóð á þær vogarskálar að skapa samstöðu um nýja stjórnarstefnu byggða á heilindum, jafnrétti og lýðræði. Það þurfum við gera með því að stöðva ofsagróða örfárra útgerða og að flytja þá fjármuni til fólksins í landinu. Það gerum við með því að byggja landspítala sem við öll getum verið stolt af, – með því að efla og styðja öll skólastig í stað þess grafa undan menntakerfinu, reisa því skorður og ýta undir sundrungu. Sem dæmi má nefna að loka framhaldsskólunum fyrir 25 ára og eldri, þröngva ólíkum skólum í sama mót og sameina með valdboði. Það gerum við með því að skapa samstöðu um breytingar á stjórnarskránni, breytingar sem hefja lýðræði til vegs, færa vald til fólksins, og fá bæði náttúru og auðlindum veglegan sess. Umhverfis- og náttúruverndarmál eiga að vera í forgrunni á ný og kynjajafnrétti bæði í orði og á borði. Við þurfum að hemja þensluna og nýta efnahagsbatann öllum til heilla, koma til móts við þá hópa sem höllustum fæti standa, og útrýma fátækt á Íslandi. Hún á ekki að viðgangast.

Lýðræði snýst ekki bara um já eða nei, einfaldan aðgang að ákvarðanatöku, ekki bara um kosningar og atkvæðagreiðslur í sveitarfélögum eða hjá þjóðinni allri. Lýðræðið snýst um að hafa rödd allt árið um kring og leiðir til að koma skoðunum og sjónarmiðum á framfæri, vettvang fyrir opna og lifandi umræðu. Lýðræðið varðar öll svið mannlífs og býr yfir mörgum víddum. Í lýðræðissamfélagi þarf ekki bara kosningarétt og tíðar atkvæðagreiðslur heldur líka óhindrað aðgengi að hvers konar menntun, öfluga fjölmiðla í almannaþágu og jöfn tækifæri allra þjóðfélagshópa til þátttöku. Allt eru þetta sígild baráttumál vinstri manna og félagshyggjufólks um allan heim. Fólk þarf greiðan aðgang að upplýsingum, góða menntun, fjölmiðla sem gagnrýna valdhafana, varpa skýru ljósi á peningaöflin og endurspegla fjölbreytt mannlíf. Það þarf ryðja hindrunum úr vegi um samfélagið allt. Aðgengi er forsenda þátttöku og þátttaka er forsenda lýðræðis. Við erum ekki bara að tala um aðgengi að byggingum eða almannarými heldur líka að samtölum og umræðu þar sem ráðum er ráðið, í valdastofnunum, á vinnustöðum, í félagasamtökum, á heimilum og í skólum. Stundum þarf til túlkun, textun, góða hljóðvist og tillit til fjölbreyttra þjóðfélagshópa. Lýðræði má nefnilega ekki bara vera fyrir suma. Það verður að vera fyrir alla. Þannig ber okkur að skipuleggja samfélagið og ryðja brautir eins og nokkurs er kostur.

Nú er kjörtímabilið hálfnað og þá fer að styttast í næstu þingkosningar. Nú er tímabært að fylkja liði um sameiginlega framtíðarsýn þeirra sem ekki styðja hægri stefnu, gamaldags vinnubrögð, sms-styrki, auðmannadekur, lagasetningar á kjaradeilur og aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Ísland á betra skilið.

Forseti – við í VG og félagar okkar í stjórnarandstöðunni höfum öll miklar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu. Kerfið er að þrotum komið, stjórnvöld standa fyrir árásum á kerfið, starfsfólk þess og innviði. Heilbrigðisstarfsfólk sætir lagasetningu á kjarabaráttu sína og ekki er komið til móts við réttlátar kröfur BHM og hjúkrunarfræðinga um laun sem endurspegla menntun og þola samanburð við nágrannalöndin. Fremstu ráðamenn þjóðarinnar togast á um framtíðarsýn, byggingu landspítala er sífellt skotið á frest. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar býr við skort á heildarstefnumörkun á meðan ríkisstjórnin daðrar við einkavæðingu og aukin notendagjöld í heilbrigðisþjónustunni. Dæmi eru um einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem ekki virðast valda verkefninu og sæta alvarlegri gagnrýni en fá að halda áfram með blessun ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma berast fréttir af eigendum þessara fyrirtækja að fjárfesta í fokdýrum einbýlishúsum. Þetta er að sjálfsögðu óþolandi og gengur þvert á vilja almennings en er um leið algjörlega í anda ríkisstjórnar hægri manna. Um þetta var ekki kosið í síðustu kosningum og þetta þarf að stöðva í þeim næstu, því fyrr, því betra. Þjóðin vill gott og öflugt heilbrigðiskerfi fyrir okkur öll, hvernig og hvar sem við stöndum.

Forseti! Stjórnarmeirihlutinn hér á alþingi aðhyllist greinilega hugmyndina um einfalt meirihlutaræði í gömlum stíl. Það endurspegla orð hvers ráðherrans af öðrum og rifja má upp orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann sagði hér í ræðu, „meirihlutinn ræður“. Viðhorf af þessu tagi eru beinlínis skaðleg fyrir lýðræðið. Með þessu er látið eins og valdið sé ósnertanlegt og að gagnrýni eigi ekkert erindi. Menn láta eins og viðhorf þeirra og verk séu hafin yfir umræðu og rökræður. Hugmyndin er að hægt sé að setja minnihlutann til hliðar, takmarka möguleika hans til að koma sinni sýn á framfæri, almenningur er hunsaður og menn vísa í kosningar sem óskorað og varanlegt umboð sem ekki megi efast um. Gjarnan er þá talað um að ekki skuli tekið mark á skoðanakönnunum, að mótmæli byggi á misskilningi eða séu sett fram á röngum stað eða á röngum tíma. Skemmst er að minnast mótmælanna 17. júní sem forsætisráðherra ákvað að taka ekki til sín á nokkurn hátt, meðan reiði og gremja almennings er raunveruleg og mikilvægt að hlusta eftir henni. Kannski er það okkar mikilvægasta verkefni að hlusta í stað þess að halda lofræður, upphefja eigin verk, flokka og þjóð.

Þessi þingvetur hefur fært okkur öllum mikilvæga lærdóma. Niðurstaðan verður að vera endurmat á vinnubrögðum okkar og verklagi. Meira og opnara samtal verður að eiga sér stað og meirihlutinn verður að leggja af valdbeitingu og yfirgang. Þau mál sem hér hafa valdið mestum árekstrum hafa flest öll verið brotin á bak aftur þannig að afrakstur stjórnarflokkanna er enginn. Tuddapólitík og meirihlutaræði verður að vera liðin tíð.

Óheft markaðsöfl og peningahyggja eru hvarvetna til bölvunar, ógna jöfnuði og mannréttindum um allan heim. Þau leiða til styrjalda, neyða fólk til fátæktar, valda hnattrænni hlýnun og spilla umhverfi okkar, náttúru og auðlindum. Við sjáum hve öll er erfitt er vinda ofan af þeim skaða sem þessi öfl valda um allan heim ekki síður en hér á landi og það minnir okkur á að baráttan við auðvaldið er barátta án landamæra.

Góðar stundir!