Posts

Ríkisstjórnin ræðst á rammaáætlun

Rammaáætlun var rædd í fjölmennu flokksráði Vinstri grænna í dag og eftirfarandi ályktun samþykkt einróma.

Fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem auglýstar er eru á vef umhverfisráðuneytisins eru augljóslega settar fram í því skyni að hafa að engu niðurstöðu rammaáætlunar 2. Þannig verður með breytingunum hægt að meta að nýju svæði í verndarflokki sem ekki hafa enn verið friðlýst. Núverandi ríkisstjórn hefur enga áherslu lagt á friðlýsingar þannig að sú vinna hefur legið niðri allt kjörtímabilið. Þótt ráðherra sé skylt samkvæmt lögum um rammaáætlun að hefja friðlýsingar á öllum svæðum í verndarflokki hefur engin áhersla verið lögð á þau verkefni. Með breytingum á starfsreglum verkefnisstjórnar rammaáætlunar verður unnt að meta öll þessi svæði að nýju með það að markmiði að færa einhver þeirra í nýtingarflokk. Áform Landsvirkjunar um að virkja í Norðlingaöldu sem er í verndarflokki með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins liggja greinilega meðal annars til grundvallar tillögum ráðuneytisins.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir þessi vinnubrögð umhverfisráðuneytisins og ráðherra umhverfismála og telur þau fara í berhögg við lög um rammaáætlun. Ljóst er að verndarsjónarmið eru að engu höfð og mæta afgangi í öllum verkum núverandi ríkisstjórnar.

Vill metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi óundirbúinni fyrirspurn um loftslagsmarkmið Íslands til umhverfisráðherra á Alþingi í morgun.

„Hér á Alþingi ræðum við mörg mál en að mínu viti verjum við ekki nægilegum tíma í að ræða stærsta viðfangsefni samtímans, sem eru loftslagsbreytingar.“ Katrín spurði umhverfisráðherra út í loftslagsmarkmið Íslands fyrir fyrirhugaða loftslagsráðstefnu í París á þessu ári. Hún benti á að Evrópusambandið væri búið að setja sér sín markmið og að Noregur hefði sett fram markmið um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030. Markmið Íslands væru hins vegar ekki komin fram. „Enn bólar ekkert á þessum markmiðum“, sagði Katrín og spurði: „Hvar eru markmiðin, hvenær koma þau og hver verða þau?“

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra svaraði því til að verið væri að vinna markmið Íslands og að þau yrðu lögð fram í ríkisstjórn „áður en þing fer heim í næstu viku“. Umhverfisráðherra sagði einnig „mjög líklegt, svo ég segi það, að við munum fylgja Noregi og Evrópu.“

Í seinni ræðu sinni lagði Katrín áherslu á að nefndir þingsins fengu kynningu á loftslagsmarkmiðum Íslands á sama tíma og ríkisstjórnin. Katrín ítrekaði að loftslagsvandinn veyrði ekki leystur „nema ríkisstjórnir heimsins komi sér saman um róttækar aðgerðir.“ Að lokum sagði Katrín: „Ef við ætlum að taka mark á þeim vísbendingum sem koma fram hér árlega þá hvet ég hæstvirtan ráðherra til þess að þau markmið sem verði hér kynnt í næstu viku verði róttæk þannig að við getum átt von á að þau skili einhverjum árangri.“

Ekkert gengur að friðlýsa svæði í verndarflokki

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, spurði í dag Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfisráðherra, um það hverju sætti að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá samþykkt Rammaáætlunar hafi ekkert gengið að ljúka friðlýsingu þeirra svæða sem samþykkt voru í verndarflokk Rammaáætlunar 2013.

Ráðherra svaraði því til að friðlýsingar væru „fullmargar“ og ekki væri nægjanlegt fjármagn til að ljúka friðlýsingum og reka friðlýst svæði. Katrín benti þá á að þetta væri ekki mál ráðherra að ákveða, þingið hefði þegar samþykkt að setja umrædd svæði í verndarflokk og ráðherra bæri að fara að samþykktum þingsins. Ennfremur að lítið þýddi að bera við ónógu fjármagni þar sem það væri einmitt núverandi stjórnarmeirihluti sem hefði staðið fyrir umfangsmiklum niðurskurði í þessum málaflokki árið 2014.

Umræðunni lauk með því að ráðherra „þakkaði fyrir brýninguna“.

 

Geðþótti eða lögleg vinnubrögð

Eftir tíu daga í embætti segir nýr umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, í Kastljósi að nægar rannsóknir liggi fyrir til að leggja til að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun verði settar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þetta vakti athygli og undrun margra.

Aðdragandinn að rammaáætlun – vinnan og framvindan – nær mörg ár aftur í tímann. Á árinu 2011 voru lög um rammaáætlun samþykkt á Alþingi og kveða lögin á um það hvernig skyldi fara með tillögur og ákvarðanir varðandi vernd og nýtingu náttúrusvæða. Þessi lög um verklag og leikreglur voru samþykkt án andstöðu í þinginu og var víða fagnað sem mikilvægu skrefi í átt að því að ná sameiginlegum grundvelli um virkjanir og náttúruvernd á Íslandi.

Það er mikilvægt að halda því til haga að það var þingið sjálft sem samþykkti þessa aðferðafræði og ætti því sjálft að gæta að því að hún sé höfð í heiðri.

Verkefnisstjórnin skal samkvæmt lögunum gera tillögu til ráðherra og ráðherra síðan leggja kostina til við þingið. Eftir þessu var farið þegar verkefnisstjórn rammáaætlunar gerði tillögu um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk og þingsályktunartillaga í framhaldinu lögð fram á Alþingi um þann virkjunarkost. Verkefnisstjórnin taldi ekki forsendur til þess að gera frekari tillögur um færslu virkjanakosta í nýtingarflokk og því liggur aðeins þessi eina tillaga hjá Alþingi, hvorki fleiri né færri.

Í þessu ljósi er það verulegt álitamál hvort það standist yfirleitt lögin að atvinnuveganefndin ein og sér geri tillögu um sjö virkjunarkosti til viðbótar án þess að verkefnisstjórnin hafi lokið sinni umfjöllun um þá eins og Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hugðist gera í haust. Auk þess hafa ítrekað komið fram efasemdir um að það í sjálfu sér standist þingsköp að kalla það breytingartillögu við þingsályktunartillögu að breyta einni tillögu í átta. Þannig fengi breytt tillaga í raun bara eina umræðu sem telst tæpast þinglegt.

Það er ekki síður álitamál hvort löglegt sé að ráðherra geri tillögur umfram þær sem umfjöllun verkefnisstjórnarinnar segir til um eins og hún boðaði í Kastljósi. Þetta er ekki síst ámælisvert í ljósi þess að eftirfarandi kemur fram í greinargerð verkefnisstjórnar um tillögu þá sem atvinnuveganefnd hefur á sínu borði:

„Í niðurstöðum sínum leggur verkefnisstjórn til að Hvammsvirkjun verði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk en gerir að öðru leyti ekki tillögu um breytingu á þeirri röðun virkjunarkosta sem fram koma í núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt var á Alþingi 14. janúar 2013.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur jafnframt fram að hún telji að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar um markmið fyrir mótvægisaðgerðir sem miða að verndun fiskstofna, eftirlits- og viðbragðsáætlun með lýsingu á viðbrögðum ef markmiðum er ekki náð og skilgreining á því hvaða viðbótarrannsóknir þurfi að gera á búsvæðum laxfiska í Þjórsá, einkum í Þjórsárkvísl neðan við Búða og í Murneyrarkvísl.“

Afstaða verkefnisstjórnarinnar er því afar skýr: Hún telur einmitt að frekari rannsókna sé þörf áður en hægt sé að taka ákvörðun um þessa tvo virkjanakosti. Í ljósi þess að það er einmitt hlutverk verkefnisstjórnarinnar að taka afstöðu til þessara atriða, má spyrja til hvers Sigrún Magnúsdóttir telur verkefnisstjórnina vera?

Eru þetta byrjendamistök hjá ráðherra? Hefur hún ekki kynnt sér lög um rammaáætlun eða telur hún að eigin geðþótti dugi til?

Hvammsvirkjun ekki til umhverfisnefndar

Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var til umræðu á Alþingi í dag en umhverfis- og auðlindaráðherra leggur nú til að Hvammsvirkjun fari úr biðflokki yfir í nýtingarflokk. Þetta er gert þrátt fyrir verulega óvissu um áhrif slíkrar virkjunar á laxagengd, óvissu um hver áhrif mótvægisaðgerða vegna laxagengdar verða á arðsemi slíkrar virkjunar og þá staðreynd að samfélagsleg áhrif slíkrar virkjunar hafa í raun ekki verið metin.

Mestum usla olli þó tillaga umhverfis- og auðlindaráðherra að vísa tillögunni til atvinnuveganefndar en ekki umhverfis- og samgöngunefndar þó að málið sé á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra og hafi áður verið hjá umhverfis- og samgöngunefnd. Með þessari tilhögun er nýtingin rifin úr samhengi við verndun nattúru og umhverfis og þannig gengið þvert á hugmyndafræði rammaáætlunar sjálfrar. Þetta sýnir skýrt hvaða augum núverandi stjórnvöld líta rammaáætlun og náttúruverndarmálin í heild sinni.