Posts

Krafan um aukna velsæld

Meira en fimmtíu þúsund Íslendingar hafa skrifað undir kröfu um endurreisn heilbrigðiskerfisins, þar sem þess er krafist að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið í heilbrigðismál. Ýmsir hafa orðið til þess að gagnrýna að 11% séu nefnd sem viðmið og ýmsir fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa spurt á móti hvaðan eigi að taka peningana og telja að þessi krafa kalli á niðurskurð á öðrum sviðum.

Ég er ósammála þeim málflutningi. Ég tel mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi leggi við eyrun þegar stór hluti landsmanna skrifar undir kröfu sem þessa. Krafan snýst um að styrkja heilbrigðisþjónustuna og snertir því eitt af grundvallaratriðum allrar stjórnmálaumræðu, þ.e. hvert á umfang samneyslunnar að vera og hvernig ætlum við að fjármagna hana.

Staðreyndin er sú að allt frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur hún markvisst gengið fram í því að veikja tekjustofna ríkisins. Þar nægir að minna á að eitt af fyrstu málum ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld og hefur útgerðin þannig greitt tugmilljörðum minna til þjóðarinnar undanfarin þrjú ár en ella. Þá má nefna að ákveðið var að framlengja ekki auðlegðarskattinn og ekki heldur orkuskattinn. Þá hefur tekjuskattur á einstaklinga verið lækkaður.

Þessi staða hefur leitt til þess að afgangur af ríkissjóði hefur orðið mun minni en ef haldið hefði verið áfram á sömu braut og mörkuð var á síðasta kjörtímabili. Fyrir síðustu kosningar, 2013, lögðum við Vinstri-græn fram ríkisfjármálaáætlun sem miðaðist við að skattar yrðu ekki hækkaðir en haldið yrði óbreyttri stefnu í tekjuöflun og þar með yrði skapað svigrúm til að styrkja innviði samfélagins. Meðal áherslumála okkar voru að efla heilsugæslu og byggja nýjan spítala, fyrir utan aðra uppbyggingu á sviði heilbrigðis, velferðar- og menntamála.

Þegar stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar spyrja þá 50 þúsund Íslendinga hvaðan þeir vilji taka fjármunina til að efla heilbrigðiskerfið er eðlilegt að benda á að allar þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar voru og eru pólitískt val en ekki nauðsyn. Það hefur verið pólitísk stefna stjórnvalda að lækka skatta sem samrýmist svo sem ágætlega þeirri hægristefnu sem hún stendur fyrir; þ.e. að draga úr umfangi velferðarkerfisins og samneyslunnar, draga úr jöfnuði með skattkerfisbreytingum og lækka skatta og gjöld á þá sem mest hafa milli handanna.

Íslendingar virðast vilja efla samneysluna og skoðanakannanir sýna mikinn stuðning landsmanna við öflugt félagslegt heilbrigðiskerfi, öflugt menntakerfi og öfluga velferð. Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér annað en að hlusta á þessar kröfur. Og þeir verða að vera reiðubúnir að afla þeirra tekna sem þarf til að tryggja samfélagsinnviði. Ég er raunar fullviss um það að landsmenn eru reiðubúnir til þess að leggja meira af mörkum til að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og velferðina, ekki síst ef þeirri tekjuöflun er dreift með réttlátum og sanngjarnari hætti þannig að hinir efnameiri leggi meira af mörkum en þeir sem minna hafa. Það er ábyrg stefna sem mun tryggja aukna velsæld landsmanna allra til lengri tíma.

Katrín Jakobsdóttir

Aðgerðir strax í þágu barna

Fyrr í vikunni kynnti UNICEF á Íslandi skýrslu um lífskjör íslenskra barna. Í skýrslunni kom meðal annars fram að hlutfall íslenskra barna sem býr við skort hefur tvöfaldast. Hér eru grafalvarlegar upplýsingar á ferð sem verður að setja í samhengi. Bornir eru saman tveir tímapunktar – árið 2009 og árið 2014. Kannanir sem þessar eru ekki gerðar með reglubundnum hætti og þess vegna ekki gott að átta sig á því hvort breytingar hafi átt sér stað síðan 2014 og þá í hvaða veru.

Ákvarðanir og vilji stjórnvalda á hverjum tíma hafa áhrif á kjör barna. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa barnabætur og vaxtabætur verið lækkaðar, matarskattur verið hækkaður, örorkubætur ekki hækkaðar til samræmis við kjör á vinnumarkaði. Allar þessar ákvarðanir hafa áhrif á daglegt líf og kjör íslenskra barna.

Þegar svo alvarlegar tölur koma í ljós hlýtur það að vera skýlaus krafa að stjórnvöld leggi fram skýra áætlun um að ráðast gegn skorti og fátækt í lífi barna á Íslandi. Við eigum ekki að líða að börn líði skort. Ekki undir nokkrum kringumstæðum og allra síst rík þjóð.

Auk þess að leggja fram slíka áætlun verður ekki við annað unað en að sambærilegar kannanir verði gerðar ár hvert líkt og UNICEF­ á Íslandi hefur lagt áherslu á. Með því móti geta stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, byggt sínar ákvarðanir á traustari grunni öllum börnum til heilla.

Það er ekki bragur að því að tala um að allt gangi betur á Íslandi þegar börnum sem líða skort fjölgar eins og kemur fram í skýrslunni. Jöfnuður er sannarlega mikilvægt markmið í samfélaginu og verður sífellt meira aðkallandi í heiminum öllum að stemma stigu við misrétti og ójöfnuði hvar sem það birtist. Þegar börn eru annars vegar verður að grípa í taumana og hefja aðgerðir tafarlaust. Hagur allra barna er á ábyrgð samfélagsins alls.

Svandís Svavarsdóttir

Ekki til sóma

Samfélög má vega og meta út frá ýmsu en einn mikilvægasti þátturinn er hvernig búið er að börnum, öldruðum og öryrkjum. Tveir síðastnefndu hóparnir hafa verið talsvert til umræðu síðustu vikur eftir að fjölmargir hópar í samfélaginu fengu kjarabætur. Þessir hópar sitja hins vegar eftir. Ríkisstjórnin hefur afsakað sig með því að benda á að lífeyrisþegar fái talsverða hækkun í prósentum talið í fjárlagafrumvarpinu. En prósenturnar segja ekkert um raunveruleg kjör lífeyrisþega.

Öryrkjabandalag Ísland hélt á dögunum fund um framfærslu öryrkja. Árið 2014 voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur örorkulífeyrisþega, sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót, um 187.507 krónur á mánuði en 172.000 krónur hjá þeim sem bjó með öðrum, 18 ára eða eldri.

Þegar litið er til tekna eldri borgara kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ernu Indriðadóttur, varaþingmanns, að 70% eldri borgara eru með tekjur undir þrjú hundruð þúsund krónum ef miðað er við samanlagðar tekjur að meðtöldum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þetta sjá allir að eru ekki háar tölur í ljósi þess hvað kostar að lifa á Íslandi. Þannig eru neysluviðmið fyrir fimm manna fjölskyldu eins og ég sjálf tilheyri á reiknivél velferðarráðuneytisins 613.752 krónur á mánuði án þess að húsnæðiskostnaður sé talinn með en óhætt ætti að vera að bæta a.m.k. 150 þúsundum við þessa tölu. Þrjú hundruð þúsund króna lágmarkslaun tveggja fullorðinna duga ekki fyrir þessi neysluviðmið og hvað má þá segja um lífeyrisþega sem eru langt undir þrjú hundruð þúsundum.

Reiknivél velferðarráðuneytisins veitir að sjálfsögðu ekki fullkomnar upplýsingar og þess vegna er áhugavert að kynna sér nýkynnta álitsgerð Öryrkjabandalagsins. Þar er reynt að meta raunverulega framfærsluþörf og miðast hún við árið 2014. Samkvæmt henni þarf barnlaus einstaklingur, sem býr einn í eigin húsnæði, 348.537 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði (482.846 krónur fyrir skatt) til að geta mætt eðlilegum útgjöldum. Þessar tölur sýna svart á hvítu að öryrkjar eiga ekki möguleika á að lifa af tekjum sínum.

Öryrkjabandalagið lét sömuleiðis gera könnun þar sem fólk var spurt hvort það teldi sig geta lifað af framfærslu upp á 172.000 krónur á mánuði. Ríflega 90% svarenda sögðust ekki geta lifað af svo lágri framfærslu. Einnig töldu um 95% að lífeyrisþegar ættu að fá jafnháa eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar.

Á sama tíma og stjórnvöld tala um bjartari horfur í efnahagsmálum sjá þau ekki sóma sinn í að tryggja lífeyrisþegum, öryrkjum og eldri borgurum, mannsæmandi framfærslu. Stjórnvöld hafa gengið fram fyrir skjöldu til að létta álögum af ríka fólkinu í landinu, auðlegðarskattur hefur verið afnuminn, veiðigjöld lækkuð, orkuskattur aflagður en á sama tíma hafa álögur aukist á launafólk; matarskattur var hækkaður, kostnaðarþátttaka sjúklinga hefur aukist og þannig mætti lengi telja. Allt er þetta dæmi um forgangsröðun í þágu hinna efnameiri á meðan viðkvæmustu hóparnir sitja eftir.

Enginn velur sér það hlutskipti að verða öryrki. Og þó að við viljum eflaust flest verða gömul þá höfum við um það lítið val. Hlutskipti þessara hópa um þessar mundir er íslensku samfélagi ekki til sóma. Hins vegar vill mikill meirihluti landsmanna  breyta því til batnaðar. Það ætti að verða stjórnvöldum nægjanleg hvatning.
Katrín Jakobsdóttir

Velferðin er ekki til sölu!

Af skrifum Áslaugar Maríu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og fulltrúa sjálfstæðisflokks í Velferðaráði í Morgunblaðið á dögunum, ásamt viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag má glöggt sjá að stefna sjálfstæðismanna snýst um það að einkavæða velferðarkerfið og bjóða betri þjónustu til þeirra sem hafa efni á að borga.

Langflestir íslendingar (yfir 90%) eru þeirrar skoðunar að greiða skuli fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu úr sameiginlegum sjóðum. Í einhverjum tilfellum má velferðarþjónusta vera á hendi styrktar- og eða góðgerðarfélaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þeir sem fá opinbert fé til að veita slíka þjónustu eiga eðlilega að gera grein fyrir hverri krónu og tryggja verður að opinbert fé fari ekki í arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.

Það á að vera metnaður okkar allra að tryggja það að ríki og sveitarfélög veiti öllum öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu, óháð efnahag. Framtíðarsýn sem byggist á því að sumir geti borgað aukalega fyrir betri þjónustu er sýn sem ég deili ekki. Það er skrýtið að líta á það sem forgangsverkefni að veita fé í arðgreiðslna til gróðardrifinna fyrirtækja á markaði, í stað þess að forgangsraða sama fé í þjónustuna sjálfa. Það nýtist nefnilega öllum, líka þeim fátæku. Um þessi áform hef ég aðeins eitt að segja. Velferðin er ekki til sölu.

Elín Oddný Sigurðardóttir er fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar

Þingsályktunartillaga um eflingu velferðar-og menntastofnana

Katrín Jakobsdóttir mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu um eflingu velferðar- og menntastofnana út frá batnandi stöðu ríkissjóðs. Allur þingflokkur Vinstri grænna flytur málið og setur þannig fram trúverðugan valkost við þær frjálshyggjuáherslur sem birtast í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt tillögunni yrði skipaður starfshópur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem fengi það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um eflingu velferðar- og menntastofnana sem yrði svo höfð til hliðsjónar við fjárlagavinnu á komandi árum.

Í greinargerðinni með tillögunni er bent á að nokkurt svigrúm komi til með að myndast í ríkisfjármálunum á næstu árum ef tekjumöguleikar ríkisins eru ekki skertir frá því sem nú er:

„Ekki er óvarlegt að áætla að þetta svigrúm geti numið samtals um 50–60 milljörðum kr. á næstu þremur árum sé rétt á málum haldið í ríkisfjármálunum og það þótt gert sé ráð fyrir allverulegri lækkun ríkisskulda á sama tímabili. Tillagan sem hér er lögð fram um að hefja sókn í velferðar- og menntamálum þjóðarinnar er því varfærin og ábyrg.“

Meðal þeirra forgangsverkefna sem tiltekin eru í tillögunni eru:
• Bætt kjör kennara, en bent er á að íslenskir kennarar séu fremur aftarlega á merinni miðað við starfssystkin þeirra í öðrum OECD-löndum.
• Stórefling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu.
• Bætt kjör heilbrigðistétta, en í því sambandi er bent á að síðasta ríkisstjórn setti af stað sérstakt jafnlaunaátak, m.a. til að bæta kjör kvennastétta innan heilbrigðisþjónustunnar.
• Húsnæðismál, en í tillögunni segir að ljóst sé að „uppsafnaðan vanda Íbúðalánasjóðs þarf að leysa samhliða því að fyrirkomulag húsnæðismála verði endurskoðað í því skyni að það verði sem auðveldast fyrir almenning í landinu að tryggja sér þak yfir höfuðið.“

Tillaga Vinstri grænna um styttri vinnuviku samþykkt

Í dag samþykkti borgarstjórn tillögu Vinstri grænna um að setja á laggirnar starfshóp sem hafi það að markmiði að útfæra tilraunaverkefni um styttingu vinnudags án launaskerðingar. Markmiðið með verkefninu verður að kanna áhrifin á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustuna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að valinn verði staður innan borgarkerfisins á sviði velferðar eða fræðslu þar sem starfsfólk vinnur undir miklu álagi.

Borgarritara er falið að skipa starfshópinn, en í honum verður fólk með sérfræðiþekkingu á sviði vinnuverndar, lýðheilsu og mannauðsmála, auk kjörinna fulltrúa. Þegar starfsstaður hefur verið ákveðinn, verður svo haft samráð við fulltrúa viðkomandi stéttarfélaga um útfærslu. Starfshópnum er ætlað að skila tillögu um starfsstað og útfærslu fyrir 1. október nk.

Umræður um styttingu vinnuvikunnar hafa átt sér stað um langt skeið. Til marks um það vitnaði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna í þingsályktunartillögu fyrrum flokkssystra sinna í Kvennalistanum frá árinu 1993 um málið, en fyrstu tillögur í þessum efnum voru lagðar fram á Alþingi árið 1987. Að undanförnu hafa fulltrúar atvinnurekenda og stéttarfélaga sýnt málinu aukinn áhuga, og því kjörið tækifæri til að grípa til aðgerða. Rannsóknir sýna að með styttri vinnudegi geta náðst fram umtalsverð jákvæð áhrif á lífsgæði, hagsæld, fleiri atvinnutækifæri og jöfnuð.

Samþykkt tillögunnar er sannkallað fagnaðarefni, enda í fyrsta skipti á Íslandi sem farið verður í beinar aðgerðir til að stytta vinnutíma án þess að skerða launakjör.