Posts

Uppstilling í Reykjavík

Samþykkt var á félagsfundi Vinstri grænna í Reykjavík að stilla upp á lista hreyfingarinnar fyrir alþingiskosningar í haust. Vel sóttur félagsfundur VGR sem haldinn var á Hallveigarstöðum í gærkvöld samþykkti uppstillingu í atkvæðagreiðslu með umtalsverðum meirihluta.

Fimm manna kjörnefnd var einnig kosin á fundinum og mun hún gera tillögu um lista hreyfingarinnar, m.a. á grundvelli hugmynda almennra félagsmanna um frambjóðendur. Gert er ráð fyrir að kjörnefnd ljúki störfum sínum í ágúst. Tillögur kjörnefndar um frambjóðendur þarf að staðfesta á almennum félagsfundi sem gert er ráð fyrir að verði haldinn í lok ágúst.

Kjörnefnd skipa Elín Oddný Sigurðardóttir formaður, Steinar Harðarson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Elías Jón Guðjónsson og Ragnar Auðun Árnason.

VG er á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúruna

Ræða Lilju Rafneyjar flutt í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi, eldhúsdegi, 30. maí 2016

Virðulegi forseti, góðir landsmenn .

Þjóðinni var algjörlega misboðið þegar upplýst var í Panamaskjölunum um tengsl og fjármuni íslenskra ráðherra,efnafólks og fyrirtækja með aflandsfélög í skattaskjólum.

Ég átti spjall við portúgalskan verkamann þegar ég beið eftir flugi vestur á Ísafjörð , hann var á leið til Akureyrar og þaðan til vinnu á Þeystareyki. Hann sagði að kjör almennings í Portúgal væru erfið og mikil spilling væri í landinu.

„Þið íslendingar eruð bara eins og ein stór fjölskylda og deilið kjörum og enginn er merkilegri en annar“ sagði hann.
„En svo kemur í ljós að æðstu ráðamenn ykkar eru í Panamaskjölunum og litla Ísland er ekki eins saklaust og ætla mætti heldur hefur spillingin, græðgin og vont siðferði náð að grassera hér eins og heima í Portugal sem leitt hefur til misskiptingar í samfélaginu. „Þá var kallað út í flug til Ísafjarðar svo þannig endaði þetta samtal sem var sláandi.

Það var eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina þegar upp komst að það eru langt í frá allir að róa í sömu átt – það er sá hluti þjóðarinnar sem er á fyrsta farrými og felur fé sitt í skattaskjólum og svo eru það þeir sem eru í lestinni og halda þjóðarskútunni á floti og standa undir samfélagslegri ábyrgð.

Mælikvarði á heilbrigt og gott samfélag er hvernig búið er að unga fólkinu,öldruðum og öryrkjum. Þessir hópar hafa ekki verið að njóta þess efnahagslega ábata sem orðið hefur með auknum hagvexti allt frá árinu 2010.

Skattkerfisbreytingarnar miðast fyrst og fremst við það að hlífa þeim sem betur mega sín en draga úr stuðningi við þá efnaminni. Aldraðir og öryrkjar fá ekki sambærilegar hækkanir og aðrir og lægstu laun á vinnumarkaði og þeir lægst launuðu greiða allt of hátt skatthlutfall af tekjum sínum.

Það reynist ungu fólki erfitt að leigja eða eignast húsnæði, mennta sig og stofna heimili við þau kjör sem ungu barnafólki eru búin í dag.

Vinstri græn vilja stóraukin stuðning í húsnæðismálum við ungt og efnaminna fólk,lengja fæðingarorlofið og hækka fæðingarorlofsþakið og að leikskólar verði gjaldfrjálsir.

Landsbyggðarstefna þessarar ríkisstjórnar fær algjöra falleinkunn. Samgönguáætlun lýsir algjöru metnaðarleysi. Eina ljósið er að loksins á að bjóða út Dýrafjarðargöngin sem byrjað hefði verið á fyrir 2 árum ef áætlun fyrri ríkisstjórnar hefði verið framfylgt. Samgönguinnviðir í landinu eru látnir drabbast niður og vegakerfi landsins er víða orðið stórhættulegt með aukinni umferð.

Stórátak þarf að gera í samgöngumálum ef ekki á illa að fara.

Fjarskiptamál skipta landsbyggðina jafn miklu máli og samgöngubætur og það skiptir sköpum fyrir búsetu að gott netsamband sé tryggt um land allt .

Sveitafélögunum var att út í samkeppni um þá litlu fjármuni sem til skiptana voru í útboði og þau verst settu sátu eftir með sárt ennið. Þarna þurfa að koma til miklu meiri fjármunir því ljúka þarf ljósleiðaravæðingu og háhraðatengingum um land allt sem fyrst því það verkefni þolir enga bið.

Aðgengi að menntun er lykilatriði fyrir allar framfarir og ég tel að það sé aðför að jöfnum tækifærum til menntunar þegar stjórnvöld hefta aðgengi að framhaldsskólum landsins og fjársvelta skólana og nýjasta útspilið um LÍN virðist stefna í að draga úr möguleikum efnaminna fólks til náms. Litlu háskólarnir berjast fyrir tilveru sinni og niðurskurður til menntamála og takmarkað aðgengi að námi eftir efnahag og búsetu er óásættanlegt og verður ekki liðið.

Heilbrigðiskerfið er fjársvelt þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs og ákalli þjóðarinnar um aukna fjármuni til heilbrigðismála er ekki mætt. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hefur verið aukinn og mikill arður er tekinn út úr einkarekstri sem bitnar á opinberri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og dregur úr aðgengi þeirra efnaminni að heilbrigðisþjónustu.

Mikilvægt er að bregðast strax við þeirri miklu þörf sem er t.d. á aukinni geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

Vinstri græn vilja stórauka fjármagn til opinbera heilbrigðiskerfisins og gera það gjaldfrjálst og tryggja gott aðgengi óháð efnahag og búsetu.

Ferðaþjónustan skapar orðið mestar gjaldeyristekjur í landinu en ekkert bólar á fjármagni til innviðauppbyggingar. Mikilvægt er að ferðaþjónustan eflist um allt land og létta þannig á álagi á fjölförnustu stöðunum. Við Vinstri græn leggjum til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verði fjármagnaður með komugjöldum á flugfarseðla til landsins og gistináttagjaldi sem renni að hluta til sveitarfélaganna til uppbyggingar heima fyrir.

Það eru víða brothættar byggðir til sjávar og sveita í landsbyggðunum. Við vitum vel hvernig kvótakerfið hefur leikið mörg sjávarpláss og sá búvörusamningur sem nú liggur fyrir og tollasamningur með stórauknum innflutningi landbúnaðarvara stefnir sauðfjárrækt í jaðarbyggðum í tvísýnu og hefðbundnum fjölskyldubúum í hættu.

Vinstri græn vilja efla byggðahlutverk landbúnaðarins og efla þar nýsköpun og sjálfbærni og að stuðningur við landbúnað skili sér í sameiginlegum hagsmunum innlendra framleiðanda og neytanda með heilnæmri vöru á góðu verði þar sem horft er til matvæla öryggis og umhverfissjónarmiða.

Ríkisstjórnin hefur viðhaldið óbreyttu kvótakerfi og lækkað veiðigjöld á stórútgerðina sem er í bullandi hagnaði og greiðir sér mikinn arð meðan staða margra minni útgerða er erfið. Erfiðleikar og vandi íbúa brothættra sjávarbyggða er óleystur og krefst þess að verða leystur varanlega með byggðatengdum aflaheimildum en ekki endalausum smáskammtalækningum.

Vinstri græn vilja rótæka endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem tryggir stöðugleika og atvinnu í sjávarbyggðunum, eflir nýliðun og aðgengi að öflugum leigupotti ríkisins með aflaheimildir.
Strandveiðarnar hafa verið sá vaxtarbroddur sem hleypt hefur lífi í sjávarbyggðirnar og þær verður efla.

Við viljum að þjóðin fari með óskorað eignarhald á öllum auðlindum til lands og sjávar og að auðlindarentan nýtist til uppbyggingar um land allt.
Sérstaða Vinstri grænna hefur m.a. falist í friðarmálum,umhverfismálum og kvenfrelsismálum. Í þessum málaflokkum höfum við skyldur á alþjóðavísu og eigum að vera leiðandi afl og til fyrirmyndar þó fámenn þjóð séum.

Vinstri græn vilja að framtíðin byggist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni,jöfnuði og félagslegu réttlæti.
Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúru landsins.
Við treystum á stuðning ykkar góðir landsmenn í kosningunum í haust því ný ríkisstjórn verður að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.

Við þurfum að axla okkar ábyrgð á flóttamannavandanum og eigum að tala fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi og setja markið hátt í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda sem er stærsta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins fyrir komandi kynslóðir.

Kvenfrelsi er ekki sjálfgefið og stöðugt þarf að vera á varðbergi svo að sá árangur sem náðst hefur varðveitist og við höldum áfram á réttri braut til hagsbóta fyrir bæði kynin.

Portúgalski verkamaðurinn sem ég hitti á Reykjavíkurflugvelli um daginn minnti mig svo sannarlega á að baráttan fyrir réttlátu samfélagi líkur aldrei og hættan á aukinni misskiptingu og spillingu er stöðugt til staðar jafnt hér heima sem annarsstaðar ef við sofnum á verðinum.

Vinstri græn vilja að framtíðin byggist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni,jöfnuði og félagslegu réttlæti.
Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúru landsins.

Við treystum á stuðning ykkar góðir landsmenn í kosningunum í haust því ný ríkisstjórn verður að hafi réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.

Ný Vinstri græn í Árnessýslu

Vinstri Græn í Árnessýslu er nýtt félag sem nær yfir alla sýsluna frá Þingvöllum til Þjórsár.   Félagið er stofnað á grunni þriggja félagsdeilda Vinstri Grænna í uppsveitum og Flóa, Vinstri Grænna í Árborg og Vinstri Grænna í Hveragerði og Ölfusi.  Með sameiningunni verður félagið fimmta stærsta svæðisfélag Vinstri grænna.

Stofnfundur félagsins var haldinn á Lambastöðum í Flóa 26. maí.  Almar Sigurðsson var kosinn formaður Vinstri grænna í Árnessýslu. Með honum í stjórn eru:

Margrét Magnúsdóttir
Svanborg Rannveig Jónsdóttir
Ida Lön
Einar Bergmundur Arnbjörnsson
Anna Gunnarsdóttir
Einar Sindri Ólafsson

Með nýja félaginu verður mögulegt að efla til muna alla starfsemi VG í Árnessýslu, bæði í aðdraganda kosninga og í almennu pólitísku starfi næstu misseri og ár. Fyrsti viðburður á vegum félagsins er sameiginleg skemmtiferð félaga Vinstri Grænna á Suðurlandi með Ferðafélagi Vinstri Grænna,  laugardaginn 4. júní næstkomandi.  Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins verður fararstjóri og er förinn heitið  vítt um Árnessýslu til að heimsækja merkilega staði og merkilegt fólk.

Friðun miðhálendis: Forgangsmál

Vorið 1928 samþykkti Alþingi lög um friðun Þingvalla, sem lýstu Þingvelli við Öxará friðlýstan helgistað allra Íslendinga frá og með upphafi þjóðhátíðarársins 1930. Voru með þessu mörkuð þau mikilvægu tímamót í sambúð lands og þjóðar að verndargildi landsvæðis í almannaeigu hlaut viðurkenningu löggjafans og gerðar voru ráðstafanir í samræmi við það sem miðuðu að því að varðveita þar menningarminjar og náttúrufar.

Eitt forgangsmál Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á þessu þingi er stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Friðun miðhálendisins hefur verið til umræðu allt frá tíunda áratug síðustu aldar þegar Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og þingmaður lagði fram tillögu um að stofnaðir yrðu fjórir þjóðgarðar á miðhálendinu umhverfis helstu jökla þess: Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul.

Sú tillaga þróaðist yfir í að verða sérstök tillaga um Vatnajökulsþjóðgarð sem var samþykkt og lyktaði með stofnun þess þjóðgarðs. Flestir munu þakklátir fyrir það skref enda er hið ósnortna hálendi auðlind í sjálfu sér sem okkur ber skylda til að vernda fyrir frekari ágangi og varðveita í þágu fjölbreytni náttúrunnar. Auk heldur skilar það miklum efnahagslegum ávinningi sem áfangastaður ferðamanna í leit að einstakri reynslu. Hinn efnahagslegi ávinningur er umtalsverður þó að mestu skipti að ósnortin náttúra hefur gildi óháð mannlegum mælikvörðum.

Fimmtán hugmyndir

Í hugmyndabanka orkufyrirtækjanna má nú finna að minnsta kosti fimmtán hugmyndir að virkjunum og uppistöðulónum á hálendinu. Þá eru uppi ýmsar hugmyndir um raflínulagnir og uppbyggða vegi á hálendinu. Þessar hugmyndir sýna hve takmörkuð sýn á auðlindir er ráðandi á þeim bæjum. Ef byggja á upp fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar þarf að fjölga stoðum efnahagslífsins og fjárfesta margfalt meira í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Eins má skjóta styrkari stoðum undir stærstu útflutningsgrein okkar um þessar mundir, ferðaþjónustuna, meðal annars með náttúruvernd.

Fjölbreytt atvinnustefna skilar stöðugra efnahagslífi án þess að ganga á náttúruna eins og stóriðjustefnan sem því miður er orðin þráhyggja hjá sumum í ríkisstjórnarflokkunum og hjá orkufyrirtækjunum. En nú er kominn tími til að leggja hana á hilluna og taka stefnuna í staðinn á fjölbreytt atvinnulíf þar sem traustur efnahagur auðgast af náttúruvernd.

Mikilvægi miðhálendisins
Tillaga þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um nýjan þjóðgarð á miðhálendinu er í takt við nýja atvinnustefnu þar sem skilningur ríkir á mikilvægi miðhálendisins. Vonandi ber þinginu gæfa til að samþykkja hana með tilliti til langtímahagsmuna Íslendinga. Rétt eins og við sem nú byggjum land erum þakklát þeim sem horfðu fram á veg og samþykktu að stofna þjóðgarð á Þingvöllum árið 1928 tel ég víst að eftir 90 ár verði almenningur þakklátur þeim þingheimi sem samþykkir að stofna þjóðgarð á miðhálendinu.

Katrín Jakobsdóttir

Eldhúsdagsumræður – Lilja Rafney

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það þing sem nú lýkur störfum hefur einkennst af átökum um hvernig samfélag við viljum að sé á Íslandi. Viljum við í kjölfar kreppu að hér rísi samfélag jöfnuðar eða mun þjóðin verða leidd af hægri öflunum aftur inn í misskiptingu og ójöfnuð sem átti stóran þátt í því að hér féll spilaborgin árið 2008?

Á Íslandi búum við í landi allsnægta en samt eru ýmsar brotalamir og ójöfnuður sem okkur ber að uppræta. Við erum ríkt samfélag með gnótt af auðlindum bæði til lands og sjávar og allar forsendur eru til þess að hér ríki jöfnuður í lífskjörum meðal íbúa landsins og til að sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi hafi jöfn tækifæri á að nýta hæfileika sína sem best í þjóðfélaginu.

Veruleikinn er annar fyrir allt of stóran hóp, því miður. Á Íslandi búa allt of mörg börn við fátækt. Aukin fátækt meðal barna er sár og er þjóðfélagslegt mein. Fátæktin er mun líklegri hjá börnum einstæðra foreldra, atvinnulausra, lágtekjufólks og hjá börnum innflytjenda. Slík þróun getur haft langtímaafleiðingar fyrir börnin. Hætt er við að þau börn sem foreldrar geta ekki veitt eðlileg lífsgæði verði ekki þess umkomin að nýta hæfileika sína sem skyldi í framtíðinni. Við sem samfélag verðum að bæta stöðu þeirra sem minnst mega sín. Fátækt má ekki líðast meðal þjóðar sem er svo rík en misskiptingin endurspeglast í því að 70% eigna þjóðarinnar er í eigu 10% landsmanna.

Sú ríkisstjórn sem lækkar skatta á þá efnamestu og fellur frá þrepaskiptu skattkerfi, lækkar veiðigjöld á útgerðina og hækkar svo matarskattinn á almenning í landinu stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem leggur til að bankabónusar verði aftur teknir upp í fjármálakerfinu, að aukin gjaldtaka verði í heilbrigðiskerfinu, að atvinnuleysisbótatímabilið verði stytt og aðgangur að framhaldsskólakerfinu verði takmarkaður stuðlar ekki að jöfnuði í samfélaginu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að halda áfram að afhenda fáum útvöldum náttúruauðlindir landsins á silfurfati eins og makrílinn stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem ætlar að hunsa allar leikreglur með skammtímagróða að veganesti og nýta dýrmætar náttúruperlur landsins sem skiptimynt fyrir stóriðjuuppbyggingu stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem notar yfir 80 milljarða í skuldaniðurfærslu þar sem þeir tekjuhæstu fengu 1.5 milljarð í niðurfellingu og 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu lækkun sinna lána — sú aðgerð stuðlar ekki að jöfnuði í landinu. Sú ríkisstjórn sem sker niður fjármuni til velferðarkerfisins, samgöngumála, menntamála og til landshlutaverkefna, eins og sóknaráætlunar, stuðlar ekki að jöfnuði í landinu.

Ójöfnuður er líka milli landshluta hvað varðar aðgang að ýmiss konar þjónustu, menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngum, háhraðatengingu, orkuverði og vöruverði, svo eitthvað sé nefnt. Gert er ráð fyrir því í áætlun að íbúum hér á höfuðborgarsvæðinu fjölgi á næstu 25 árum um 70 þús. manns. Það eru tæp 90% af þeirri mannfjölgun sem Hagstofan spáir fyrir um á landinu öllu næstu 25 árin. Þessar spár ættu að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni, ekki bara okkur landsbyggðarfólki heldur einnig öllum þeim sem vilja sjá byggðina í kringum landið hafa möguleika á því að vaxa og dafna.

Það getur ekki verið góð þróun fyrir litla og fámenna þjóð að hér þróist borgríki með tilheyrandi kostnaði fyrir höfuðborgarsvæðið. Stjórnvöld verða að bregðast við með öllum ráðum svo við stöndum ekki frammi fyrir hnignun byggðanna vítt og breitt um landið bæði til sjávar og sveita. Landsbyggðin hefur ýmis tækifæri, bæði varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu og nýsköpun er víða í gangi, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði og ýmiss konar frumkvöðlastarfsemi er víða um land sem styðja á við. En það er ekki hægt að afgreiða fækkun fólks á landsbyggðinni með því að segja að hún sé eitthvert náttúrulögmál. Fullt af ungu og menntuðu fólki vill setjast að utan höfuðborgarsvæðisins og það fólk sem býr utan þess vill vera þar áfram ef þjónustustig er álíka og á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að ríkisvaldið hafi verið sofandi gagnvart íbúaþróun á landsbyggðinni á síðustu áratugum og hafi sífellt komið með einhverjar smáskammtalækningar þegar áföllin hafa dunið yfir. Stór hluti af vanda veikra byggða á landsbyggðinni er tilkominn vegna ákvarðana stjórnvalda, eins og hið alræmda kvótakerfi sem hefur hyglað þeim stóru og sterku.

Ég hóf ræðu mína á að ræða ójöfnuð og hann er víða að finna bæði á meðal fólks og á milli landsvæða. Rannsóknir virtra fræðimanna hafa sýnt fram á að ójöfnuður innan samfélaga leiðir til hnignandi hagvaxtar og hnignandi efnahagslífs. Vinstri græn eru flokkur sem vill auka jöfnuð í samfélaginu, láta náttúruna njóta vafans, efla velferðarkerfið og byggja upp innviði landsins. Við höfum sýnt það með störfum okkar í vetur að við látum ekki ólýðræðisleg vinnubrögð yfir okkur ganga og munum ekki átakalaust láta þessa ríkisstjórn vinna skemmdarverk á velferðarkerfinu eða öðrum þeim stoðum sem jöfnuður mun byggjast á. — Góðar stundir.

Eldhúsdagsumræður – Andrés Ingi

Herra forseti, góðir áhorfendur,

Mikilvægasta hlutverk okkar sem sitjum hér á þingi – mikilvægasta hlutverk allra þeirra sem stunda stjórnmál – er að hlusta. Og það nægir ekki að verða bara við kröfunni um að hlusta á fjögurra ára fresti, þegar kosningabaráttan kallar á.

En það er erfitt að hlusta þegar það eina sem heyrist utan frá er þögn.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur ótrúleg orka leyst úr læðingi á Íslandi. Þessi orka snýst öll um að úthýsa þögninni, varpa ljósi á samfélagsmein, hrópa á réttlátara og betra samfélag.

Hér á ég við kvennabyltinguna sem gegnir ýmsum nöfnum. Samfélagsbylgju sem tók að rísa á samfélagsmiðlum undir yfirskrift #FreeTheNipple og hefur síðan tekið á sig ýmsar myndir. Byltingu sem er að mestu borin uppi af ungum konum.

Þótt sá sem hér stendur sé búsettur alla leið suður á meginlandi Evrópu leyndi krafturinn í #FreeTheNipple sér ekki þegar sú bylgja reis.
Mér brá. Ég hafði ekki áður áttað mig á því hvað hrelliklám, ein útgáfa af rafrænu ofbeldi, er stór hluti af lífi ungra kvenna. Hversu margar höfðu upplifað það á eigin skinni og hversu margar hafa búið í stöðugum ótta við að viðkvæmum myndum af þeim væri deilt með hverjum sem er, hvenær sem er, hvar sem er. Án þeirra samþykkis.

Mér brá, af því að þótt ég vissi af vandanum hafði ég ekki áttað mig á því hversu útbreidur og hversu alvarlegur vandi hrelliklám væri.

En ég fylltist á sama tíma mikilli von og gríðarlegu stolti þegar ég sá þúsundir ungra kvenna standa saman gegn óværunni, fastar fyrir og óhræddar.

Forseti,
Við megum öll vera stolt af þeim.

#FreeTheNipple-bylgjunni fylgdu margar aðrar sjálfsprottnar byltingar gegn þögninni.

Sú nýjasta er mögulega sú sterkasta. Þá voru konur hvattar til að deila reynslu sinni af ofbeldi í hópi annarra kvenna á Facebook. Umræðan barst okkur körlunum síðan þegar sögur og myndir tóku að birtast á samfélagsmiðlum. Þolendur ofbeldis merktu sig appelsínugulum andlitum. Gul andlit urðu táknmynd allra hinna, sem þekkja þolendur ofbeldis.

Appelsínugulu andlitin voru ótrúlega mörg. Svo mörg, að mér leið helst eins og náttúruhamfarir hefðu orðið.

Í náttúruhamförum hefðu viðbrögðin ekki staðið á sér. Þá skipuleggja stjórnvöld fjöldahjálparmiðstöðvar, þau bretta upp ermarnar og taka til óspilltra málanna. Þau laga það sem lagað verður.

En hver voru viðbrögðin þegar þagnarmúrinn brast?

Þau voru lítil. Að minnsta kosti ekki í neinu samræmi við umfang vandans.
Góðir landsmenn,

Öll þekkjum við þolendur ofbeldis og öll þekkjum við gerendur. Að því leytinu verða viðbrögðin við kvennabyltingunni alltaf önnur en við náttúruhamförum. Okkur nægir nefnilega ekki að fá almannavarnir til að opna fjöldahjálparmiðstöð og semja aðgerðaráætlun fyrir þolendur ofbeldis, eins og eftir stóran jarðskjálfta.

Þótt yfirskrift nýjustu bylgjunnar hafi verið #þöggun og #konurtala, þá væru það til lengdar litið algjörlega ófullnægjandi viðbrögð að láta okkur nægja að hjálpa þolendum ofbeldis að opna sig um reynsluna.

Það þarf nefnilega hina hliðina, sem er líklega erfiðasti hlutinn, að horfast í augu við gerendurna.

Þegar Íslendingar upplifa stór áföll bregðast þeir við. Við erum svo lánsöm að hafa byggt innviði til að takast á við flest það sem náttúran lætur okkur finna fyrir.
Sjaldan er spurt um verðmiða þegar þarf að byggja upp eftir jarðskjálfta eða jökulhlaup, en af hverju er sálfræðiþjónusta steytt úr hnefa til þolenda kynferðisofbeldis?

Í þeirri umræðu sem kemur reglulega upp um að rafbyssuvæða lögregluna virðist kostnaður aldrei vera sami þröskuldurinn og þegar ræddar eru leiðir til að stórefla kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Hverju sætir?

Við höfum varið milljörðum til að verjast snjóflóðum, en hvaða upphæðum hefur verið varið til að fræða lögregluþjóna og dómara um eðli og meðferð kynferðisbrotamála? Hvers vegna gengur ekki hraðar að fjölga kvenkyns dómurum? Hvar eru forvarnarsjóðirnir og forvarnarátökin sem ættu að vera stöðugt í gangi? Hvar eru rannsóknirnar á umfangi og þjóðhagslegum áhrifum ofbeldis, rannsóknirnar á því hvers vegna svo mikill fjöldi kvenna í okkar góða samfélagi hefur orðið fyrir nauðgun, kynferðisofbeldi eða áreitni?

Nú þurfum við öll að hlusta; ríkisstjórnin, þingið og þjóðin. Og við þurfum að bregðast við. Mæta kröfum byltingarinnar. Stelpurnar okkar – og strákarnir – eiga það skilið!

Og þið öll þarna úti: Takk fyrir byltinguna!

Ný stjórn VG á Suðurnesjum

Á aðalfundi VG á Suðurnesjum var kjörin ný stjórn. Stjórnina skipa:

Bjarni Þórisson, formaður

Þórunn Friðrisdóttir, ritari

Þorvaldur Örn Árnason, gjaldkeri

Agnar Sigurbjörnsson, meðstjórnandi.

Jónatan J. Stefánsson, meðstjórnandi

Varamenn: Þormóður Logi Björnsson og Þorvarður Bryjólfsson

Skoðunarmenn reikninga: Hólmar Þráinn Magnússon og Jakob Jónatansson

Flokksráðsfundi lokið

Flokksráðsfundi Vinstri grænna lauk síðdegis í dag, en hann var haldinn á Iðnó í Reykjavík. Á fundinn mættu um hundrað flokksráðsfulltrúar, þar á meðal þingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn svæðisfélaga og fulltrúar kjörnir á landsfundi. Tilgangurinn með fundinum var ekki síst að vinna að endurnýjun á stefnu Vinstri grænna sem lögð verður fram á landsfundi næsta haust.

Sex ályktanir voru samþykktar á fundinum. Í ályktuninni Styðjum baráttu launafólks segir m.a.: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs styður framkomnar launakröfur verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst réttlátar kröfur um hækkun lægstu taxta, og leggur áherslu á að í góðu samfélagi verður fólk að geta lifað af dagvinnulaunum sínum. Nýjar kannanir ASÍ hafa sýnt að lægstu laun á Íslandi eru um 30% lægri en laun í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Lágmarkslaun dagvinnu á Íslandi duga einfaldlega ekki fyrir brýnustu þörfum.“

Einnig var samþykkt ályktun um einkavæðingu opinberra háskóla: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varar við stefnu menntamálaráðherra um að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) og Háskólans á Hólum og sameina þessa skóla Háskólanum á Bifröst undir hatti einnar sjálfseignarstofnunar. Ekki hafa verið færð nein fagleg rök fyrir þessari sameiningu og í raun virðist hún fyrst og fremst eiga að fækka opinberum stofnunum og einkavæða tvo opinbera háskóla. Landbúnaðarháskóli Íslands er ein af grunnstoðum landbúnaðar í landinu auk þess að hafa á undanförnum áratugum skapað sér sérstöðu með kennslu í umhverfis- og náttúrufræði. Mikilvægt er að stjórn hans og umsýsla sé í höndum ríkisins en ekki einkaaðila. Sömu rök eiga við um Hólaskóla, eina elstu menntastofnun landsins.”

Allar ályktanir má lesa og sækja hér.

Sameinumst um að fólk geti lifað af launum sínum

Katrín Jakobsdóttir gerði kröfu Starfsgreinasambandsins um að lægstu taxtar fari ekki undir 300 þúsund krónur að umtalsefni á Alþingi í dag en margir virðast súpa hveljur yfir þeirri kröfu. Hún benti á að miðað við opinber neysluviðmið velferðarráðuneytisins séu dæmigerð útgjöld fimm manna fjölskyldu, tveggja fullorðinna og þriggja barna, án húsnæðiskostnaðar (sem venjulega vegur þungt) um 610 þúsund krónur á mánuði.

Katrín sagði meðal annars að „Við hljótum að gera þá kröfu að fólk geti lifað af launum sínum því þó að mikilvægt sé að varðveita stöðugleika, snýst stöðugleiki ekki aðeins um hagstærðir, hann snýst líka um að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum.“ Hún benti ennfremur á að öll gögn sýndu að það væru mikil verðmæti til í þessu samfélagi, þeim væri hins vegar ekki skipt jafnt.