Þak yfir höfuðið

Öruggt húsnæði er ein af frumþörfum hvers manns. Í dag er þessar þörf ekki fullnægt í Reykjavík. Húsnæðisverð er svimandi hátt og leiguverð á almennum markaði mikið hærra en flestir geta borgað með góðu móti. Margir kjósa að reyna að eignast eigið húsnæði þó þeim fari fjölgandi sem velja að leigja. Til þess að mæta þörfum þessara hópa viljum við Vinstri-græn grípa til eftirfarandi ráðstafana:

  1. Endurreisa verkamannbústaðakerfið eða öllu heldur almenningsbústaðakerfi í samstarfi verkalýðsfélaga, ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög leggja til ódýrar lóðir, ríki og sveitarfélög leggi til stofnframlög og ríkið láni vaxtalaust. Byggingarkostnaði verði haldið í lágmarki með magninnkaupum, stöðluðum einingum og öðrum skynsamlegum ráðstöfunum svo kaupverð slíkra íbúða verði mun lægri en á almennum markaði og viðráðanlegt jafnvel fyrir þá sem lægst hafa laun. Svipuð leið hefur verið farin áður og reynst prýðilega.
  2. Sveitarfélög stuðli að eða stofni sjálf leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Dæmi um slík félög sem eru að hefja byggingu leiguíbúða er félagið Bjarg sem stofnað var til að frumkvæði ASÍ. Það er ágætis framtak en það þarf miklu meira til, mun fleiri íbúðir. Þessi félög fái stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum ásamt ódýrum lóðum og lán á lægst mögulegum vöxtum. Húsaleiga hjá slíkum félögum getur orðið mun lægri en á almennum markaði. Til viðbótar njóta leigjendur öryggis, bæði samningsbundinnar langtímaleigu og vernd gegn ósanngjarnri hækkun húsaleigu.

 

Steinar Harðarson