Þarft þú lyf, bækur eða mat?

Ef svarið er já er mikilvægt að þú skoðir nýjasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Fjárlög eru mikilvægasta mál hverrar ríkisstjórnar enda birtist þar forgangsröðun í því hvernig fjármunum er varið og hvernig tekjur eru innheimtar til að standa undir þeim útgjöldum. Meðal þess sem er boðað í nýju fjárlagafrumvarpi er aukin greiðsluþátttaka sjúklinga í svokölluðum S-merktum lyfjum, en það eru oftast mjög dýr og sérhæfð lyf.. Með því að fara að rukka sjúklinga fyrir þessi lyf ætlar ríkissjóður að ná sér í 305 milljónir. Þessi nýi tekjustofn kemur meðal annars í staðinn fyrir auðlegðarskattinn sem lagðist á þá sem eiga meira en 75 milljónir í hreina eign (150 milljónir í tilfelli hjóna). Vissulega hefði þurft að endurskoða fyrirkomulag þess skattstofns og taka tillit til þeirra sem þrátt fyrir miklar eignir hafa litlar tekjur – en staðreyndin er sú að meirihluti þeirra sem greiddi auðlegðarskattinn var vel aflögufær.

Veiðigjöldin eru líka lækkuð enn meira í frumvarpinu. Eftir myndarlega lækkun á fjárlögum ársins í ár er áætlað að halda áfram og lækka þau enn meira enda er það forgangsverkefni ríkisstjórnarnnar að tryggja meiri arð stórútgerðarmanna. Jafnvel þó að það þurfi þá að rukka sjúklinga aðeins meir til að styrkja tekjustofnana á móti. Þessi sama ríkisstjórn reyndi í fyrra að leggja gjöld á þá sem þurfa að leggjast inn á spítala. Því var raunar afstýrt af stjórnarandstöðunni og vonandi tekst okkur að afstýra þessari nýju gjaldtöku líka.

Hærri matarskattur leggst harðast á þá fátækustu

Í fjárlagafrumvarpinu er lögð til hækkun á matarskatti eins og kunnugt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fljótur að rjúka upp til handa og fóta gegn hækkun á þessum skatti sem aldrei komst þó á frumvarpsstig árið 2011 en hefur nú skipt um skoðun – það er ástæða til að heita hverjum þeim sérstökum verðlaunum sem getur þýtt skýringar hans á þessum skoðanaskiptum á skiljanlega íslensku. En annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur raunar sagst gera almennan fyrirvara við frumvarpið í heild sinni vegna hækkunar matarskatts sem vekur spurningar um hvort fjárlagafrumvarpið sé í raun lagt fram af ríkisstjórninni allri eða aðeins hluta hennar.

Mótvægisaðgerðum hefur verið heitið fyrir þá sem verða fyrir kjaraskerðingu með hærri matarskatti. Slíkar mótvægisaðgerðir þurfa að sjálfsögðu að vera mun öflugri og víðtækari en það sem ríkisstjórnin hefur boðað í hærri barnabótum, enda verða fleiri fyrir verulegri kjaraskerðingu en þeir sem eiga börn. Hér skiptir líka máli að matvæli eru nauðsynjavara sem ekkert okkar getur verið án og það er því grundvallaratriði að allir hafi aðgang að hollum og ódýrum mat..

Vegur bókaskattur að tungumálinu?

Þá hyggst ríkisstjórnin hækka virðisaukaskatt á bækur og tónlist. Þar sem virðisaukaskattur á bækur hefur verið hækkaður dregst bóksala iðulega saman. Skýrasta dæmið er frá Lettlandi þar sem virðisaukaskattur á bækur fór úr 5% í 21% árið 2009, en í kjölfarið fækkaði nýútgefnum bókum um 50% milli ára. Þar sem virðisaukaskattur hefur verið lækkaður hafa afleiðingarnar verið öfugar: Í Svíþjóð var skatturinn lækkaður úr 25% í 6% árið 2001 og í beinu framhaldi jókst bóksala um 20%.

Í Evrópu hefur skattur á bækur almennt verið á niðurleið og einungis fjórar þjóðir eru þar með virðisaukaskatt yfir 12% — allar aðrar þjóðir eru með lægri skatt. Víða annars staðar í heiminum er ýmist enginn virðisaukaskattur eða mjög lág álagning; þar má nefna Kanada, Suður-Kóreu og fleiri Asíuríki. Það er umhugsunarefni að ríkisstjórn sem leggur áherslu á þjóðmenningu og eflingu læsis ætli sér að veikja undirstöður þjóðtungunnar með hærra bókaverði. Það er engu líkara en ríkisstjórnin viti ekki að tungumál sem aðeins rúmir 300 þúsund tala þarf sérstakan stuðning. Aðferðir hennar nú taka ekkert tillit til þess veruleika.

Katrín Jakobsdóttir

Greinin birtist fyrst í DV mánudaginn 15. september 2014