Þingflokkur VG lýsir ánægju með ákvörðun pólska þingsins

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lýsir ánægju sinni yfir því að pólska þingið felldi með miklum mun umdeilt frumvarp um fóstureyðingar sem mótmælt hefur verið um gjörvalla Evrópu. Pólland er nú þegar með eina ströngustu löggjöf í Evrópu um fóstureyðingar.

Það er því ánægjuefni að pólskir þingmenn og þingnefndir hafi hlustað og tekið tillit til þeirrar almennu gagnrýni sem upp kom hjá pólskum almenningi og mannréttindahreyfinginum víða um heim gegn því að löggjöfin yrði þrengd enn frekar.

Þingflokkur VG vill árétta stuðning sinn og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við kvenréttindabaráttu af hvers kyns toga hvarvetna í heiminum og hvetur íslensk stjórnvöld til að tala fyrir kvenfrelsi og kvenréttindabaráttu hvar sem færi gefst.