Þingflokkur Vinstri grænna óskar eftir fundi í utanríkismálanefnd

Svandís Svavarsdóttir

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, óskaði rétt í þessu eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis til að ræða málefni Palestínu og Ísraels. Eftirfarandi bréf var sent á Birgi Ármannsson formann utanríkismálanefndar þessu til rökstuðnings:

Til: Birgis Ármanssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis

Þingflokkur Vinstri grænna óskar eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis eins fljótt og auðið er til að ræða málefni Palestínu og Ísraels. Samkvæmt nýjustu tölum hafa á þriðja hundrað Palestínumanna látið lífið í átökum síðustu níu daga og yfirgnæfandi meirihluti þeirra eru óbreyttir borgarar. Ástandið kallar á hörð viðbrögð og þrýsting á Bandaríkjamenn ekki síður en deiluaðila fyrir botni Miðjarðarhafs.

Minnt er á að samkvæmt þingsköpum getur utanríkismálanefnd fundað hvenær sem er, þótt annars sé sumarleyfi þingnefnda.