Þingfréttir 16.-20. nóvember

Spurningar og svör, bág fjárhagsstaða sveitarfélaga og fjarvera Gunnars Braga

Gleðilegan föstudag !

Þingvikan hófst hjá okkar fólki með því að fimm skriflegum fyrirspurnum þingmanna VG til ráðherra þar sem beðið var um munnlegt svar var svarað.

Katrín spurði fyrst forsætisráðherra um stöðu stjórnarskrármálsins. Tilefnið var að á undanförnum fundum stjórnarskrárnefndar hefur verið lagt upp með að um lokafund væri að ræða. Síðan hefur það breyst eftir hvern fund og hvergi bólar á sýn forsætisráðherrans hvenær eða hvernig beri að ljúka málinu og í hvaða farveg eigi svo að setja það.  Hvet ykkur til að lesa svör Sigmundar við spurningum Katrínar. 

Innanríkisráðherra svaraði svo fyrirspurn Katrínar til munnlegs svars um framkvæmd fyrirhugaðrar íbúakosningar um kísilver í Reykjanesbæ. Til upprifjunar hefur meirihlutinn bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sagt að hann muni ekki endilega hlíta niðurstöðum íbúakosningarinnar, þrátt fyrir að til hennar sé boðað að frumkvæði íbúa í samræmi við ákvæði tiltölulega nýrra sveitarstjórnarlaga.

Innaríkisráðherra svaraði líka skriflegri fyrirspurn Bjarkeyjar til munnlegs svars um hver staðan væri á  löggæsluáætlun fyrir Íslands sem var samþykkt  með þingsályktunartillögu þann 19. júní 2012 að yrði framkvæmd.

Þá svaraði sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra skriflegri fyrirspurn Steingríms um undirbúning við gerð búvörusamninga og tollavernd í landbúnaði.

Loks svaraði Illugi Gunnarsson 6 vikna gamalli fyrirspurn Bjarkeyjar um fjárhagsleg tengsl hans við Orku Energy. Þess má geta að ráðherrar hafa 2 vikur til að svara fyrirspurnum þingmanna. Vildi Bjarkey fá á hreint hvenær ráðherrann hefði fengið seinast laun frá Orku Energy, boðsferðir á borð við laxveiðiferðir eða aðrar fyrirgreiðslur eða lán frá fyrirtækinu. Skemmst er að segja að Illugi játaði að hafa unnið fyrir fyrirtækið eftir að hann settist aftur á þing 2012 en gat ekki skýrt út af hverju hann fékk launagreiðslu í lok ársins nema þá að ekki hafi verið um fyrirframgreiðslu að ræða… Lítil sem engin fjölmiðlaumfjöllun hefur verið um þessa játningu ráðherrans.

Voðaverkanna í París minnst, bág fjárhagsstaða sveitarfélaga  og leitin að Gunnari Braga

Við upphaf þingfundar á miðvikudag var sérstök umræða um voðaverkin í París fyrir viku síðan. Tóku meðal annarra til máls þær Steinunn Þóra og Svandís.

Lárus tók til máls í störfum þingsins sama dag og og vakti athygli á bágri fjárhagsstöðu um 70 % sveitarfélaga í landinu sem standa í mjög erfiðum rekstri þrátt fyrir að hafa unnið velflest í endurskipulagningu á rekstri og á fjármálum sínum undanfarin ár. Vill Lárus endurskoða skiptinguna á tekjum á milli sveitarfélaga og ríkis. Undir þetta tók Steingrímur í sinni ræðu.

Lárus tók svo málið aftur upp við fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á fimmtudag.

Loks er ekki hægt að minnast á þingstörf vikunnar en að segja frá leitinni að Gunnari Braga. Stjórnarandstöðuþingmenn mótmæltu því hástöfum að ráðherra lét ekki sjá sig bæði á miðvikudag.

Þegar önnur umræða fór fram um frumvarp utanríkisráðherrans um Alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, sem innifelur í sér niðurlagningu  Þróunarsamvinnustofnunar Íslands ( ÞSSÍ ) og minni framlög íslenska ríkisins til þróunarmála, uppsagnir starfsfólks og óskýra stefnu og sýn á þróunarmál og framlög Íslands í þann málaflokk .

Ræddu þingmenn einnig fjarveru ráðherrans um málefni ÞSSÍ á fimmtudag og voru þingmenn sammála um að fjarvera hans í umræðunni um málefni ÞSSÍ kæmi í veg fyrir að skoðanaskipti um málið gæti átt sér stað og væri niðurlægjandi fyrir þingið.

Kröfðust þingmenn VG  þess í lok dags á fimmtudag að hætta ætti umræðunni um frumvarpið þar sem ráðherran ætlaði sér greinilega ekki að vera viðstaddur umræðuna um sitt eigið frumvarp. Lagði Ögmundur m.a til að forseti þings myndi taka frumvarpið af dagskrá, halda dagskránni áfram og ræða næstu mál á borð við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í lok fimmtudags mótmæltu svo þingmenn því að þeir þyrftu að lesa um það í fjölmiðlum að 2. umræða fjárlaga muni ekki geta átt sér stað í næstu viku eins og áætlað var. Tilefnið var orð formanns fjárlaganefndar í Fréttablaðinu um að umræða fjárlaga verði ekki í næstu viku. Játti forseti þingsins að hafa frétt af því eins og aðrir í fjölmiðlum.

Með þessu framhaldi er alveg ljóst að það stefnir hraðbyri í að núverandi ríkisstjórn verði sú verklausasta sem setið hefur, enda hafa aðeins um 20 – 30 stjórnarþingmál litið dagsins ljós af þeim rúmlega 120 stjórnarþingmálum sem ríkisstjórnin ætlaði sér að leggja fram á þingi fyrir jól. Kannski er það vel.

Góða helgi !

Rósa Björk