Þingfréttir 2.-6. nóvember

“Veisluborðið hlaðið að nýju”

Óvenjuleg þögn hefur ríkt alla vikuna í fjölmiðlum og samfélaginu um samkomulag um stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna sem ríkisstjórnin tilkynnti að náðst hefði fyrir rúmri viku síðan. Lítið hefur borið á gagnrýnni umræðu um væntanlegt framlag sem hefur tekið miklum breytingum frá því í júní síðastliðnum þegar glærusýning stjórnvalda fór fram með pompi og prakt í Hörpu. Þá var lofað 871 milljörðum sem nú eru orðnir að 360 milljörðum sem er að langmestu leyti faldir í eignum og kröfum

( verðmat Íslandsbanka er t.d um helmingur af því).

Þingmenn VG hafa þó haldið uppi málefnalegri gagnrýni á samkomulagið. Hún snýst um talnaloftfimleika ríkisstjórnarinnar, ógagnsæi og samráðsleysi við efnahags-og viðskiptanefnd þingsins í haftalosunarferlinu og svo þær fjölmörgu  spurningar sem kvikna þegar ljóst er að 360 milljarðarnir eru að mestu leyti fjármunir sem hvort eð er hefðu runnið í ríkissjóð ( ss. skattur og eignasala á ESÍ) eða eru bundnir í eignum sem hætta er á að ríkið losi sig við í of miklum flýti og í óljósu verðmætamati á bönkum.

Eða eins og fjármálaráðherra sagði sjálfur á þinginu í upphafi vikunnar í svari við óundirbúinni fyrirspurn Björns Vals um væntanlegt samkomulag;“Svo leiðir tíminn það í ljós nákvæmlega hvers virði þær (eignirnar) verða hver fyrir sig.

Áframhald á umræðu um samkomulagið væntanlega var svo daginn eftir í 2. umræðu um frumvarp um breytingar á tekjuskattslögum til að auðvelda slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja gerð nauðasamninga. Í umræðunni flutti Katrín 1. minnihlutaálit efnahags-og viðskiptanefndar í málinu en sá minnihluti gagnrýnir m.a samráð-og upplýsingaleysi við nefndina í ferlinu öllu og að vísað sé í liðnar aðgerðir líkt og viðskiptin milli nýja og gamla Landsbankans.

Vonum það besta, en munum líka hvernig sala á ríkisbönkunum fór síðast í tíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokks.

Sellóleikaraskýrslan, réttindi flóttafólks og vernd fatlaðra kvenna

Annað hitamál vikunnar sem rætt var á þinginu sem vakti meiri viðbrögð fjölmiðla, var skýrsla RÚV sem kynnt var af hálfu menntamálaráðherra og félaga hans.

Þingmenn VG tóku til varna fyrir almannaútvarpið og talaði Lilja Rafney vestfirsku í störfum þingins á miðvikudag og sagði hreinlega að menn eigi að skammast sín í aðförinni að RÚV.

Einnig birti Katrín grein um Ríkisútvarpið í Kjarnanum

Og okkar fólk vakti líka athygli á öðrum brýnum mannréttindamálum undir sama dagskrárlið þennan dag.

Bjarkey vakti athygli á stöðu sýrlenskrar fjölskyldu sem hefur óskað hér eftir hæli en býr sig undir að vera send aftur til Grikklands, þrátt fyrir óviðundandi aðstæður þar enda Grikkir að kikna undan þeim gríðarlega fjölda flóttamanna sem ber að ströndum landsins. Hvatti Bjarkey stjórnvöld til að afgreiða mál fjölskyldunnar með farsælum hætti.

Og Steinunn Þóra tók upp skelfilegt mál tveggja kvenna með þroskahömlun sem beittar voru kynferðislegu ofbeldi og Kastljós hefur sagt frá undanfarið. Steinunn brýndi bæði menntamálaráðherra, lögregluyfirvöld og allsherjar-og menntamálanefnd um aukna kynfræðslu, bætingu á löggjöf sem auðveldi fötluðum konum þáttöku í málarekstri og að tryggja þurfi að löggjöf gegn mismunun taki í meira mæli á því að tryggja rétt fatlaðra kvenna.

Skriflegar fyrirspurnir vikunnar

Loks er vert að vekja athygli ykkar á góðum skriflegum fyrirspurnum sem þingmenn VG lögðu fram nú í vikunni til ráðherra. Þær fjalla um samkomulagið milli stjórnvalda og slitabúa fallina fjármálafyrirtækja, um skýrslu um starfssemi og rekstur RÚV, um túlkun fjármála- og efnahagsráðherra um ákvæði í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og hvort þeirri túlkun hafi verið beitt í kjarasamningum við ljósmæður, um afsökunarbeiðni forsætisráðherra vegna stuðnings Íslands við Íraksstríðið og um ráðstöfun fjár til löggæslumála.

Góða helgi ! Rósa Björk, framkvæmdastýra þingflokks.