Þingfréttir 21.-25. september 2015

Þingfréttir – leikskólamálin, útgerðarrisar í mjólkuriðnaði, flóttamenn og…Jón

Nýliðin þingvika var fjörug og okkar fólk stóð sig vel á þingvaktinni nú sem endranær. Hér ef brot af því helsta:

  • Mikið fjaðrafok varð á þinginu á fimmtudag þegar Lilja Rafney óskaði eftir umræðu um vinnubrögð í umhverfis – og atvinnuveganefnd hvar Jón Gunnarsson ræður ríkjum. Lilja gagnrýndi ákvörðun Jóns að boða 10 aðila úr orkugeiranum á nefndarfund til að ræða vinnubrögð verkefnisstjórnar rammaáætlunar en engum fulltrúum náttúruverndarsamtaka, líkt og Lilja hafði óskað eftir. Sköpuðust heitar umræður um vinnubrögð Jóns og vantraust hans á umhverfisráðherra sem nýverið lýsti yfir ánægju með verkefnisstjórn rammaáætlunar.
  • Fyrri umræða um þingsályktunartillögu Svandísar um styrkingu leikskóla og fæðingarorlofs var á fimmtudag. Málefni leikskólanna hafa verið baráttumál VG frá stofnun enda mikið réttlætismál. Markmið tillögu Svandísar nú er að halda áfram vinnu við útfærslu til að tryggja börnum leikskóladvöl að loknu fæðingarorlofi og lagt til að skipaður verði starfshópur sem útfæri lengingu fæðingarorlofs í 18 mánuði og hvernig sveitarfélög geti tekið við öllum ársgömlum börnum í gjaldfrjálsan leikskóla. Lesa má greinargerð tillögunnar hér.
  • Katrín spurði forsætisráðherra hver staðan væri á byggingu Hús íslenska fræða eða Holu íslenskra fræða eins og sorglegur húsgrunnurinn við HÍ er því miður oft nefndur í daglegu tali. Tilefnið var forsíðufrétt á Fréttablaðinu þar sem fullyrt væri að fyrir lægi tillaga frá forsætisráðherra um að Hús íslenskra fræða eigi nú að vera byggt sem viðbygging við húsnæði Alþingis og á Þingvöllum.
  • Steingrímur mælti með frumvarpi þingflokks VG um byggingarsjóð Landspítalans. Hann verði stofnaður til að fjármagna nýbyggingar og endurnýjun húsakosts Landspítala. Til þess myndu tekjur af auðlegðarskatti sem endurvakin er í frumvarpinu renna til sjóðsins.
  • Sérstök umræða var um málefni flóttamanna var á mánudag. Katrín óskaði m.a. eftir sýn forsætisráðherra á Dyflinnarreglugerðina og kallaði eftir umræðum um hvað stjórnmálafólk getur gert til að bregðast við aukinni kynþáttahyggju sem hugsanlega sprettur nú upp í kjölfar gríðarmikilla þjóðflutninga.
  • Umræðum um forsendur fjárlagafrumvarpsins héldu áfram í vikunni. Bjarkey vakti m.a athygli á því hve vanfjármögnuð við erum inn í framtíðina samkvæmt frumvarpinu og hve innviðir samfélags okkar eru illa fjármagnaðir.
  • Lilja Rafney hóf sérstaka umræðu um samþjöppun í mjólkuframleiðslu hvar hún vakti athygli á tvöföldun mjólkurkvótans á milli ára þegar fjárfestum og útgerðarrisum er hleypt inn í mjólkurbúskap á kostnað nýliðunar og smærri og millistórra kúabúa. Er eðlilegt að niðurgreiða mjólkurframleiðslu til svo stórra rekstraraðila í greininni ? Spyr Lilja

Til viðbótar við þetta yfirlit – sem er ekki tæmandi – voru Ögmundur og Steinunn Þóra áberandi í fjölmiðlum í lok vikunnar. Innanríkisráðherra svaraði loks fyrirspurn Steinunnar Þóru og Andrésar Inga, varaþingmanns, um þjónustu presta og mismunun á grundvelli kynhneigðar. Í svari ráðherra segir að sem opinberir starfsmenn megi prestar ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar sinnar. Þar hefur ráðherra greinilega snúist hugur frá árinu 2009-2010. Steinunn var á forsíðu Fréttablaðsins vegna þessa og í viðtali. Þau Andrés Ingi og Steinunn skrifa grein um málið í Fréttablaðið í dag, laugardag.

Ögmundur var í Íslandi í dag á Stöð 2 á fimmtudag að ræða viðskiptaþvinganir á stjórnvöld Ísraelríki og sniðgöngu á ríki sem brjóta mannréttindi. Setti hann þau mál í sögulegt samhengi eins og sjá má hér í nokkrum klippum

Ögmundur var líka í viðtali við Ríkisútvarpið vegna kröfu Indefence um að innihald stöðuleikaskilyrða við afnám hafta verði uppi á borðum og gagnsæ og tók hann undir þá kröfu.

Einnig má vekja athygli á blaðagrein Katrínar um frumvarp VG um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem er útvíkkun á einu helsta baráttumáli VG í áratugi sem er stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Eins og kunnugt er mælti Katrín fyrir frumvarpinu í síðustu viku en til að rifja málið upp er hollt að renna í gegnum blaðagreinina sem birtist bæði í Fréttablaðinu og á vg.is.

Í flutningsræðu sinni vísaði hún m.a í skýra kröfu umhverfisverndarsinna á baráttufundi í vor og umsögn Landverndar. Ræðuna má lesa hér.

Nú halda þingmenn okkar út í kjördæmi sín í kjördæmaviku sem er framundan. Óskum þeim góðra fundahalda!

Kær kveðja, Rósa Björk, framkv.st. þingflokks. rosabjorg@althingi.is