Þingfréttir 9.-13. nóvember

– Ný náttúruverndarlög, fjáraukinn og sérstök umræða um RÚV-

Merkustu tíðindi vikunnar á þinginu er án efa lagasetning nýrra náttúruverndarlaga á fimmtudaginn. Til upprifjunar eru núgildandi lög um náttúruvernd frá 1999 en um sumarið 2009 hófst vinna við Hvítbók um náttúruvernd á Íslandi en afrakstur þeirra vinnu varð að stjórnarfrumvarpi um ný lög um náttúruvernd sem lagt var fram í nóvember 2012,  rætt í þingsal og vísað til umhverfis-og samgöngunefndar í janúar 2013 og samþykkt á þingi í mars sama ár. Eftir stjórnarskiptin 2013 var lengi vel raunhæft að lögin yrðu einfaldlega felld úr gildi og afturkölluð en með miklu samráði við stjórnarandstöðu var því afstýrt en farið í nýja lagasmíð sem byggði á fyrri vinnu  við náttúruverndarlögin frá 2013.  Afrakstur þeirrar vinnu varð svo að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013,
með síðari breytingum (varúðarregla, almannaréttur,
sérstök vernd, framandi teg­undir o.fl.) og lagt fram á þingi nú í lok september.

Það er óhætt að fullyrða að Svandís Svavarsdóttir hafi borið hitann og þungann í vinnu samhents minnihluta  umhverfisnefndar við meðferð frumvarpsins nú. Þar kom reynsla og staðfesta Svandísar sér vel. Hún sagði meðal annars við atkvæðagreiðslu laganna ;

Hér erum við að horfa á gríðarlega mikilvæga niðurstöðu. Við erum að horfa á betri náttúruverndarlög en samkvæmt núgildandi rétti. Við erum að horfa á verulega réttarbót fyrir íslenska náttúru. “ sagði Svandís en notaði líka tækifærið að minna á næsta stóra verkefni í náttúruvernd sem væri vilji þjóðarinnar til að stofna miðhálendisþjóðgarð. Sömuleiðis áréttaði Svandís að hér væri ekki um sátt um náttúruvernd að ræða, heldur um sögulega málamiðlun.

Svaraleysi, fjáraukinn, makrílveiðar og aðgerðir gegn ofbeldi á fötluðum konum

Annars hófst vikan á því að mennta – og menningarmálaráðherra bað um frest til að svara heilum 11 skriflegum fyrirspurnum sem honum hafa borist. Þar af er um að ræða 4 fyrirspurnir frá þingmönnum VG.

Fyrsta umræða fjáraukalaga fór fram á mánudaginn. Bjarkey sagði í ræðu sinni að frumvarpið þjóni ekki tilgangi sínum og gagnrýndi m.a. að áhrifa nýgerðra kjarasamninga hafi ekki verið metinn inn í frumvarpið nema að hluta til.

Aðrir þingmenn VG sem tóku til máls í fjáraukalagaumræðunni voru Ögmundur, sem reifaði ágreining stjórnarþingmanna um samfélagsbanka og tillögu ríkisstjórnarinnar um sölu á 30% hlut ríkisins í Landsbankanum. Lárus Ástmar og Steingrímur tóku líka til máls en sá síðastnefndi gagnrýndi niðurskurð í fjárfestingum hins opinbera í innviðum samfélagsins á borð við framkvæmdir í vegamálum, í fjarskiptum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu sem og lækkun veiðigjalda síðustu 2 ára um heila 8,7 milljarða.

Steingrímur birti svo grein í Fréttablaðinu á föstudag um þessa heildarlækkun veiðigjalda sem nú er komin fram.

Í óundirbúnum fyrirspurnum á þriðjudag spurði Lárus Ástmar sjávarútvegsráðherra um breytingar á fyrirkomulagi makrílveiða smábáta og hvort ráðherra ætlaði sér að breyta því þar sem hún þýddi að margir smábátasjómenn fengu litla sem enga úthlutun og stóðu veiðar ekki undir tilkostnaði.

Steinunn Þóra, spurði Eygló Harðardóttur líka í óundirbúnum um hvernig hún hyggist beita sér fyrir aukinni fræðslu starfsfólk til að þekkja og koma auga á ofbeldi gegn fötluðu fólki þar sem fatlað fólk dvelur eða kemur saman og hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir fjármögnun fræðslu um ofbeldi gegn fötluðum.

 

Landbúnaðarháskólar og sérstök umræða um RÚV

Í óundirbúnum fyrirspurnum á fimmtudaginn spurði Lárus Ástmar menntamálaráðherra um framtíðarrekstur landbúnaðarháskólanna að Hólum í Hjaltadal og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Sagði Lárus hljóðið í íbúum þessa svæða vera afar þungt.

Sérstök umræða var svo um RÚV-skýrslu seinasta þingdag vikunnar að beiðni Svandísar. Í ræðu sinni minntist hún á þá sögulegu staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil haft horn í síðu Ríkisútvarpsins og viljað hlut almannaútvarps sem minnstan. Vildi Svandís eiga orðastað við mennta-og menningamálaráðherra um stöðu í nánustu framtíð.

Ráðherra svaraði því meðal annars til að RÚV skýrslan væri  ágætur grunnur ásamt öðrum upplýsingum sem hafa komið fram um rekstur Ríkisútvarpsins. Ekki útlistaði hann nánar stefnu sína í málefnum RÚV frekar heldur ræða ætti hana í framtíðinni.