Þingmannamál VG á síðasta þingdegi

Loftslagsráð, bann við vígvélum, þjóðhagsáætlanir ofl.

 

Lokasprettur þingvetrarins var strembin, líkt og oft áður, en nokkur góð þingmannamál VG þingmanna voru samþykkt á síðasta þingdegi vetrarins. Því ber að fagna vel enda brýn og góð mál; stofnun loftslagsráðs, stuðningur við alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra vígvéla, undirbúningur að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma, áhættumat vegna ferðamennsku og uppbygging áningastaða við þjóðvegi.

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Katrínar um stofnun loftslagsráðs, sem hafi það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ráðið á að fylgjast  með þróun loftslagsmála og beina tilmælum og ráðleggingum um markmið og leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila, svo sem opinberra stofnana. Loftslagsráðið verði skipað fulltrúum ýmissa stofnana og samtaka sem láta sig loftslagsmál sérstaklega varða, hafi starfsskyldur á vettvangi loftslagsmála og búi yfir sérþekkingu og kunnáttu á málaflokknum og upplýsingum. Loftslagsráði er einnig ætlað að stuðla að vitundarvakningu um málaflokkinn. Meðflutningsmenn voru Steingrímur, Svandís og Bjarkey. Þess ber að geta að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð hefur tvisvar áður lagt fram þingsályktunartillögu um stofnun loftslagsráðs svo hér er um afar góðan áfanga að ræða fyrir hreyfinguna og náttúruvernd.

Bann við sjálfstýrðum vígvélum og þjóðhagsáætlanir

Katrín var líka flutningsmaður þingsályktunar um sjálfvirkar vígvélar sem var samþykkt. Hún fjallar um stuðning Íslands við að koma á alþjóðlegu banni við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla og að ríkisstjórn Íslands vinni að framgangi bannsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem það á við. Með Katrínu á tillögunni voru Bjarkey, Steinunn Þóra og Svandís. Hér má lesa tillöguna og greinargerðina með henni en þar segir m.a.;

“…í þessum efnum er einkar mikilvægt að viðbrögð við hinum tæknilegu viðfangsefnum einkennist fremur af gagnrýnni hugsun og markmiðum um mannúðlegri og öruggari heim…”

Samþykkt var þingsályktunartillaga Steingríms um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma en markmið hennar er að stuðla að öflun haldbærra gagna um forsendur þjóðhagsáætlana til langs tíma fyrir íslenskt samfélag, unnið að gerð slíkra áætlana og þeim beitt við stefnumótun í samfélagsmálum. Löngu orðið tímabært að festa þau vinnubrögð í sessi, enda geti vandaðar langtímaáætlanir haft mikilvæga þýðingu fyrir hagstjórn og aðra ákvarðanatöku.

Ferðamennska og uppbygging áningastaða

Þingsályktunartillaga um áhættumat vegna ferðamennsku var samþykkt í dag á þinginu en flutningsmaður tillögunnar er Lilja Rafney. Meðflutningsmenn voru Steingrímur og Bjarkey ásamt fleiri þingmönnum úr stjórnar-og stjórnarandstöðuflokkum.

Tillagan kveður á um að fela innanríkisráðherra að koma því til leiðar að ríkislögreglustjóri geri áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, eftir atvikum í samstarfi við Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og aðra aðila á vettvangi ferðamála, öryggis- og björgunarmála og náttúruverndar. Í framhaldi af því verði kannað og metið hvort ástæða þyki til að setja sérstakar reglur um ferðir á þeim svæðum sem falla í efsta áhættuflokkinn. Bráðnauðsynlegt mál á tímum ört fjölgandi ferðamanna.

VG þingmenn náðu einnig í þessari lotu að fá samþykkt annað tímabært mál er tengist ferðaþjónustunni. Það er þingsályktunartillaga um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi. Flutningsmaður tillögunnar er Svandís og með henni Lilja Rafney, Ögmundur og Bjarkey. Tillagan snýst um að skipa starfshóp um áningarstaði við þjóðvegi sem geri tillögu um uppbyggingu, hlutverk og þróun áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi landsins, m.a. með tilliti til salernisaðstöðu.