Þingmenn fjögurra flokka vilja aðskilja bankastarfsemi

Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður nýrrar þingsályktunartillögu um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi. Flutningsmenn málsins eru tíu og koma úr þingflokkum Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata.

Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útbúa lagafrumvarp sem tryggi aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættu þjóðarbúsins vegna bankareksturs og minnka líkur á tjóni almennings af völdum áfalla í bankastarfsemi.” Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fyrir á næsta vetri, 145. löggjafarþingi.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að sambærilegt frumvarp var fyrst lagt fram af Ögmundi Jónassyni og fleirum á 130. löggjafarþingi. Síðan þá hafa mörg efnislega sambærileg þingmál verið lögð fram á Alþingi, en tillagan er einnig í samræmi við ýmsar tillögum sem settar hafa verið fram á undanförnum árum, m.a. í Bandaríkjunum  og Bretlandi, til að koma í veg fyrir áhættu þjóða vegna fjárfestingabankastarfsemi.

Þá segir í greinargerðinni að tillögunni sé líka ætlað að koma í veg fyrir áhættustarfsemi með sparifé almennings:

“Flutningsmenn tillögunnar líta svo á að ekki megi dragast lengur að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi þannig að hefðbundin viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin til fulls. Mikilvægt sé að þegar verið er að móta leikreglur á fjármálamarkaði til framtíðar verði um leið tryggt að ekki verði aftur unnt að misnota innstæður sparifjáreigenda í viðskiptabönkum í áhættusamar fjárfestingar sömu banka. Að mati flutningsmanna er reynslan ólygnust að þessu leyti og nauðsynlegt fyrir skattgreiðendur, ríkissjóð og sparifjáreigendur að tryggt verði með lögum að framvegis verði ekki tekin fráleit áhætta með fé af innlánsreikningum og að innstæður venjulegra viðskiptamanna bankanna verði tryggðar og forgangskröfur í þrotabú þeirra ef þeir verða gjaldþrota.”