Þingsályktunartillaga um eflingu velferðar-og menntastofnana

Katrín Jakobsdóttir mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu um eflingu velferðar- og menntastofnana út frá batnandi stöðu ríkissjóðs. Allur þingflokkur Vinstri grænna flytur málið og setur þannig fram trúverðugan valkost við þær frjálshyggjuáherslur sem birtast í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Samkvæmt tillögunni yrði skipaður starfshópur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sem fengi það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um eflingu velferðar- og menntastofnana sem yrði svo höfð til hliðsjónar við fjárlagavinnu á komandi árum.

Í greinargerðinni með tillögunni er bent á að nokkurt svigrúm komi til með að myndast í ríkisfjármálunum á næstu árum ef tekjumöguleikar ríkisins eru ekki skertir frá því sem nú er:

„Ekki er óvarlegt að áætla að þetta svigrúm geti numið samtals um 50–60 milljörðum kr. á næstu þremur árum sé rétt á málum haldið í ríkisfjármálunum og það þótt gert sé ráð fyrir allverulegri lækkun ríkisskulda á sama tímabili. Tillagan sem hér er lögð fram um að hefja sókn í velferðar- og menntamálum þjóðarinnar er því varfærin og ábyrg.“

Meðal þeirra forgangsverkefna sem tiltekin eru í tillögunni eru:
• Bætt kjör kennara, en bent er á að íslenskir kennarar séu fremur aftarlega á merinni miðað við starfssystkin þeirra í öðrum OECD-löndum.
• Stórefling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu.
• Bætt kjör heilbrigðistétta, en í því sambandi er bent á að síðasta ríkisstjórn setti af stað sérstakt jafnlaunaátak, m.a. til að bæta kjör kvennastétta innan heilbrigðisþjónustunnar.
• Húsnæðismál, en í tillögunni segir að ljóst sé að „uppsafnaðan vanda Íbúðalánasjóðs þarf að leysa samhliða því að fyrirkomulag húsnæðismála verði endurskoðað í því skyni að það verði sem auðveldast fyrir almenning í landinu að tryggja sér þak yfir höfuðið.“