Þingsályktunartillaga um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands

Þrír þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þau Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir, hafa lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um flokkun, vernd og skráningu ræktunarlands.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gert árið 2015 að alþjóðlegu ári jarðvegs og mun nota það tilefni til að vekja athygli á því hversu mikilvæg auðlind jarðvegur er fyrir mannkynið. Mannkynið hefur stærstan hluta viðurværis síns, beint eða óbeint, frá þeim jarðargróða sem sprettur upp úr jarðvegi. Jarðvegur er því einkar mikilvægur fyrir hagsæld þjóðanna og er hvarvetna takmörkuð auðlind sem miklu skiptir að vernda og nýta á sjálfbæran hátt.

Tillaga þremenninganna miðar að því að ræktunarland hérlendis verði flokkað, skilgreint og skráð þannig að upplýsingar um það verði aðgengilegar almenningi og stjórnvöldum og að mótuð verði stefna um varðveislu ræktunarlands þannig að komist verði hjá því að ræktunarlandi verði varið óskynsamlega eða því spillt. Þingsályktunartillagan á þannig góða samleið með markmiðum Sameinuðu þjóðanna um jarðvegsvernd.