Þingsályktunartillaga um Landsiðaráð lögð fram

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur ásamt samflokksfólki og þingmönnum annarra stjórnarandstöðuflokka lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stofnun Landsiðaráðs.

Ástæða þess að tillagan var mótuð og lögð fram eru ábendingar um að þörf sé fyrir sjálfstæðan og óháðan vettvang í íslensku samfélagi sem fjallar um siðfræði á breiðum grundvelli, veitir stjórnvöldum og almenningi leiðbeiningar í þeim efnum og stuðlar að umræðu um siðfræði. Bent er á siðaráð í Þýskalandi og Danmörku sem dæmi um slíkan vettvang sem gegnir mikilvægu hlutverki í þessum samfélögum.

Full ástæða er til að ætla að þörf sé fyrir Landsiðaráð á Íslandi, m.a. voru ábendingar um það í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008 að siðferði hefði víða verið ábótavant í aðdraganda bankahrunsins og mætti rekja ófarirnar til þess að einhverjum hluta. Lögð er áhersla á það í þingsályktunartillögunni að Landsiðaráð verði fjölskipaður og óháður faglegur siðfræðivettvangur sem geti að eigin frumkvæði tekið siðfræðileg álitamál til umfjöllunar og gefið um þau álit sitt.