Þjóðarsátt um sjávarútveginn

Ljóst er að fyrir liggur við­var­andi og djúp­stætt ósætti í sam­fé­lag­inu um núver­andi fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfi. Auð­lind­in, sem er þjóð­ar­inn­ar, skilar ekki nægum verð­mætum í sam­eig­in­lega sjóði og örfáar fjöl­skyldur efn­ast gríð­ar­lega og hafa gert um langt skeið. Í raun má segja að eng­inn sé sáttur við kerfið nema þeir sem hagn­ast á því og svo þeir stjórn­mála­flokkar sem hafa gert sér far um að verja þau for­rétt­indi, sem eru núver­andi stjórn­ar­flokk­ar.

Það er stórt og aðkallandi verk­efni að skapa sam­fé­lags­sátt­mála um slíka lyk­il­grein. Í raun dugar ekk­ert minna en að stefna að þjóð­ar­sátt um stjórnun auð­lind­ar­innar og ráð­stöfun þess fjár sem nýt­ingin skil­ar.  Það er gömul saga og ný að fólk telji að unnt sé að breyta kerf­inu með einu penna­striki, með einu töfra­orði, núna er þetta orð upp­boðs­leið. Raunin er sú að upp­boðs­leið er eins og nafnið gefur til kynni aðferð en ekki mark­mið.

Í umræð­unni allri er mik­il­væg­ast að missa ekki sjónar á mark­mið­un­um. Hver ættu að vera mark­mið okkar með góðu fiskveði­stjórn­un­ar­kerfi? Þrjú mark­mið eru að mati okkar vinstri grænna mik­il­vægust, þau skipta öll máli og verða ekki greind í sund­ur.  Í fyrsta lagi þarf arð­ur­inn af auð­lind­inni að skila sér til þjóð­ar­inn­ar. Í öðru lagi þarf að tryggja sjálf­bæra nýt­ingu auð­lind­ar­inn­ar. Í þriðja lagi þarf að tryggja að byggða­sjón­ar­miðin sé ekki fyrir borð bor­inn. Engin ein aðferð tryggir að öllum þessum mark­miðum sé náð. Upp­boðs­leiðin ein og sér horfir til mark­miðs­ins um arð­inn en síður á aðra þætti. Blönduð leið, þar sem upp­boðs­leiðin er einn þáttur er að lík­indum far­sælasta leið­in. Í því við­fangs­efni sem framundan er verður að eiga sam­ráð við þjóð­ina, kalla fleiri að borð­inu. Þjóð­fundur um fyr­ir­komu­lag fisk­veið­stjórn­un­ar­kerf­is­ins gæti verið fyrsta skrefið í átt­ina að mik­il­vægri þjóð­ar­sátt í þessum efn­um. Þjóðin verður að eiga aðkomu að sam­tal­inu. Við­fangs­efni af þessu tagi verður ekki leyst nema með skýrri aðkomu almenn­ings.

Svandís Svavarsdóttir.