Þorum að velja frið

Á síðustu tveimur mánuðum hafa hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, Daesh, lýst ábyrgð á nokkrum stórum hryðjuverkaárásum. Þetta eru sprengjutilræði í Ankara, Beirút, fjöldamorð í Túnis, tortíming rússneskrar farþegaþota og nú síðast fjöldamorð í París. Eru þá ótalin öll ódæðisverk þeirra í Sýrlandi og Írak. Þótt tala fallinna í árásunum sé skelfileg er hún dropi í haf mannfallsins í styrjöldum sem geisað hafa í Miðausturlöndum  og hafa með beinum og óbeinum hætti leitt til þessara hryðjuverkaárása.

Innrásin í Írak 2003 er einhver stærstu mistök í sögu vestrænnar utanríkisstefnu. Upplausnin sem af því leiddi gat af sér þessi illræmdu hryðjuverkasamtök og ýtti undir borgarastríðið í Sýrlandi. Út úr því öngstræti átaka ólíkra vígahópa verður ekki komist nema með pólitískum leiðum. Öll stórveldi á svæðinu verða tafarlaust að hætta að hugsa fyrst og fremst um að ná fram eigin markmiðum og láta af því að vígbúa stríðandi fylkingar.

Hryðjuverkaárásirnar í París mega ekki verða til þess að stríðshrjáð og landflótta fólk verði fyrir aðkasti í Evrópu eða að stjórnvöld noti þau sem átyllu til að skjóta sér undan sammannlegri ábyrgð sinni á að hjálpa fólki í neyð. Samfélög Vestur-Evrópu verða jafnframt að vera meðvituð um þá hættu sem það hefur í för með sér ef einstakir þjóðfélagshópar eru jaðarsettir og eiga minni möguleika en aðrir, t.d. til menntunnar og atvinnu, vegna fordóma og bágrar félagslegrar stöðu.

Raddir þeirra sem nota hryðjuverk og ótta til að réttlæta aðskilnað og sundurgreiningu hópa sem búa saman í samfélagi mega ekki verða ofan á. Með því að taka undir slíkan málflutning er  í raun verið að fallast á sjónarmið ofstækismanna, hvaða nöfnum sem þeir nefnast.  Sigurinn í baráttu gegn hryðjuverkum vinnst ekki með hernaði. Hann vinnst ekki heldur með vígvæðingu lögreglunnar, víðtækum njósnum um borgarana eða hertu landamæraeftirliti. Hann vinnst með því að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum  þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Steinunn Þóra Árnadóttir

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu