Þróum lýðræðið, aukum áhrif almennings

Á undanförnum árum og áratugum hafa miklar hræringar átt sér stað – í stjórnmálum, meðal almennings, og innan fræðasamfélagsins – hvað varðar leiðir til að auka lýðræðislega þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum. Þessar hræringar birtust ekki síst hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 þegar mikil vakning varð meðal almennings um nauðsyn þess fyrir lýðræðið að almenningur tæki virkari þátt í allri ákvarðanatöku.

Lýðræði grundvallast á þeirri hugmynd að almenningur, „lýðurinn“, ráði. Stjórnkerfi lýðræðisríkis verður fyrst og síðast að taka mið af þörfum og afstöðu almennings og þátttökulýðræði miðar að því að auka þessi áhrif almennings. Þátttaka almennings getur verið af ýmsum toga, s.s. að forgangsraða, skilgreina markmið, leggja fram tillögur eða hlutast til um niðurstöðu.

Þátttökulýðræði er mismikið eftir samfélögum og er sjaldan í andstöðu við hefðbundið fulltrúalýðræði á borð við það þingræði sem við lýði er á Íslandi, þvert á það sem margir halda. Réttara er að líta á það sem viðbót eða framlengingu á fulltrúalýðræðinu. Í hefðbundnu fulltrúalýðræði er þátttaka vissulega takmörkuð að jafnaði við kosningar á fjögurra ára fresti, en í þátttökulýðræði bætist við að almenningur getur haft áhrif með ýmsu móti á opinberar ákvarðanir oftar og með virkari hætti.

Svokölluð þátttökuferli gefa fólki færi á að móta eigin afstöðu og koma henni á framfæri og í framkvæmd. Þau veita kjörnum fulltrúum aðhald og mikilvægar upplýsingar um viðhorf og áhuga kjósenda en rökin fyrir beitingu þátttökuferla eru meðal annars að þær upplýsingar sem fást í gegnum kjörklefann á fjögurra ára fresti gefa oft heldur óskýra mynd af valröðun kjósenda í einstökum málum.

Þá snýst þátttökulýðræði ekki einungis um atkvæðagreiðslur heldur einnig um að gera tilraunir með breytt vinnulag á ýmsum sviðum til að auka aðkomu almennings að stefnumótun. Í sumum tilvikum snúast þessar tilraunir um að kanna afstöðu almennings til tiltekinna mála eftir að hafa kynnt sér málið og rætt það til hlítar. Í öðrum tilvikum kemur fólk saman til að móta stefnuna beint, eins og í svokallaðri þátttökufjárhagsáætlanagerð. Þá hafa verið skapaðar leiðir þannig að almenningur geti sett mál á dagskrá þjóðþinga og þau þannig hlotið umræðu.

Einna frægust þessara tilrauna er þátttökuákvarðanaferlið sem komið var á fót í árlegri fjárhagsáætlanagerð brasilísku borgarinnar Porto Alegre árið 1989. 8% borgarbúa taka þátt í ferlinu árlega og hefur reynslan verið afar jákvæð þótt tekið hafi nokkur ár að þróa ferlið. Meðal þeirra breytinga sem áttu sér stað í kjölfar þessara lýðræðisumbóta er að spilling hvarf, enda um opið og gagnsætt ferli að ræða, fjármunir fluttust til fátækari svæða og grasrótarstarf efldist til muna. Tekið skal fram að í borginni býr um ein og hálf milljón, þ.e.a.s. fjórum til fimm sinnum fleiri en á Íslandi öllu, og hefur ferlið gengið vel þrátt fyrir þann mikla fjölda fólks sem kemur að ákvarðanatökunni.

Annað áhugavert dæmi um þátttökulýðræði í verki átti sér stað árin 2004-2005 í Bresku Kólumbíu í Kanada í kjölfar umræðna um breytingar á kosningakerfi fylkisins. Ákveðið var að skipa slembivalsþing þar sem 158 fulltrúar voru valdir af handahófi úr þjóðskrá, en þó þannig að kynjahlutföll voru jöfn, aldursdreifing endurspeglaði aldursdreifingu þjóðarinnar, og jafnmargir fulltrúar komu úr hverju kjördæmi fylkisins. Einnig voru skipaðir á þingið fulltrúar frumbyggja, sem eru minnihlutahópur í Kanada, auk forseta þingsins sem skipaður var sérstaklega. Eftir að hafa fengið ýtarlega fræðslu og tekið þátt í miklum umræðum sín á milli komst yfirgnæfandi meirihluti fulltrúanna að sameiginlegri niðurstöðu um tillögu að breytingum á kosningakerfinu. Tillagan var svo sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlaut 57,69% atkvæða en náði þó ekki fram að ganga vegna þess að gerð hafði verið krafa um aukinn meirihluta, eða 60% atkvæða, til að samþykkja breytingar á kosningakerfinu.

Það er knýjandi nauðsyn að reynsla síðustu ára verði nýtt með skipulegum hætti og þátttaka almennings í opinberri stefnumótun verði aukin. Því hef ég ákveðið að leggja til ásamt fleiri þingmönnum frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar verði að auka þátttöku og aðkomu almennings í opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði. Það er von mín að þessi tillaga megi hljóta brautargengi á Alþingi Íslendinga og Íslendingar verði í fararbroddi hvað varðar þróun þátttökulýðræðis og aukin áhrif almennings til framtíðar.