Tilkynning vegna flokksráðsfundar

Frestur til að skila inn ályktunum fyrir flokksráðsfundinn 4. mars rennur út á miðnætti á miðvikudagskvöldið 1. mars og skulu berast í tölvupósti á vg@vg.is. Í lögum er kveðið á um „vikufrest, verði því við komið“. Ekki var minnst á ályktanaskil í boðsbréfi á flokksráðsfund, enda er þessi fundur er starfsfundur, en ekki ályktanafundur, svo tími til afgreiðslu ályktana er takmarkaður í dagskrá.

Til að bregðast við framkomnum óskum, er frestur auglýstur, sem áður segir, á miðnætti 1. mars  Tillögurnar verða sendar fulltrúum í flokksráði, til kynningar, í tölvupósti á fimmtudag.   Samþykktar ályktanir verða birtar á heimasíðu VG að loknum flokksráðsfundi.

Úr lögum um flokksráð:

VIII. Flokksráð

29. grein

Flokksráð mynda aðalmenn í stjórn, þingflokkur og sveitarstjórnarfulltrúar hreyfingarinnar, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga og fulltrúi ungliðahreyfingar flokksins. Í forföllum taka varamenn í viðkomandi trúnaðarstörfum sæti.

Auk þess eru 40 flokksráðsfulltrúar og 10 til vara kjörnir sérstaklega á landsfundi. Varamenn í flokksráði taka sæti í forföllum aðalmanna í þeirri röð sem þeir eru kjörnir. Varaformaður hreyfingarinnar er jafnframt formaður flokksráðs.

Tillögur sem leggja skal fyrir flokksráð skal skila til stjórnar  hreyfingarinnar viku fyrir fund, verði því við komið. Fundir flokksráðs skulu vera opnir öllum félögum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Almennir félagar skulu hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

30. grein

Flokksráð hefur æðsta vald í öllum málefnum Vinstri grænna á milli landsfunda.

31. grein

Fundir stjórnar hreyfingarinnar og flokksráðs eru lögmætir þegar meirihluti fulltrúa er viðstaddur. Flokksráðsfundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Flokksráð setur sér fundarsköp og skal fundum þess stjórnað samkvæmt þeim.

Óski 25 flokksráðsfulltrúar eftir fundi skal hann boðaður svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan þriggja vikna frá því að skrifleg beiðni þar um er send formanni flokksráðs.

32. grein

Á síðasta fundi flokksráðs fyrir landsfund gerir stjórn hreyfingarinnar grein fyrir afdrifum ályktana síðasta landsfundar.