Tóbaksvarnarstefna til næstu ára

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fullvinna stefnu í tóbaksvörnum til næstu ára og stefnir að því að drög henni verði birt til umsagnar innan fárra vikna. Ráðherra segir ánægjulegt að geta kynnt þessa ákvörðun á alþjóðlega tóbaksvarnardeginum sem er í dag.

Stefnan verður unnin á grundvelli fyrirliggjandi vinnu starfshóps sem skipaður var af þáverandi heilbrigðisráðherra í janúar 2013. Hlutverk hópsins var að leggja fram tillögur að stefnu og meginmarkmiðum í tóbaksvörnum, meðal annars á grundvelli þingsályktunartillögu um velferðarstefnu – heilbrigðisáætlun til ársins 2020, Rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir, gildandi laga og stjórnvaldsfyrirmæla og nýjustu þekkingar. Drög að skýrslu starfshópsins um stefnumótun í tóbaksvörnum lágu fyrir í byrjun árs 2015 en vinnunni var ekki lokið til fulls og skýrslan því aldrei birt.

Í skýrsludrögunum eru birtar ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um tóbaksnotkun hérlendis og þróunina hvað það varðar ásamt samanburði við aðrar þjóðir, fjallað um skaðsemi reykinga, um meðferð við tóbaksfíkn og fleira sem er mikilvægur grunnur að stefnumótun á þessu sviði. Heilbrigðisráðherra hefur falið Embætti landlæknis að uppfæra tölfræði og annað efni skýrslunnar í samræmi við nýjustu gögn og þekkingu. Í því ljósi munu sérfræðingar velferðarráðuneytisins í samvinnu við Embætti landlæknis endurskoða tillögur starfshópsins um sýn og stefnu í málaflokknum.

Stefnt er að því að birta drög að stefnu í tóbaksvörnum í byrjun október á þessu ári.

Alþjóðlegur tóbaksvarnardagur 31. maí

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stendur að vanda fyrir alþjóðlegum tóbaksvarnardegi í dag, 31. maí. Að þessu sinni beinir stofnunin sjónum að skaðlegum áhrifum tóbaks á heilsu fólks um allan heim. Sérstaklega er bent á tóbaksreykingar sem áhættuþátt hjarta- og æðasjúkdóma.

Áætlað er að á heimsvísu dragi tóbaksreykingar meira en sjö milljónir manna til dauða á hverju ári, þar af um 900.000 manns sem ekki reykja heldur látast af völdum óbeinna reykinga.