Traust á skattkerfinu er mikilvægt

Ein helsta undirstaða samfélagsins er að borgararnir geti treyst því að stofnanir þess séu réttlátar og allir standi jafnt gagnvart lögum og reglu. Þessi undirstaða þarf að vera traust, annars er hættan sú að grunnurinn gliðni undan fótum okkar og glundroði skapist. Þetta á við um skattkerfið eins og aðrar stofnanir samfélagsins. Þess vegna er mikilvægt að hið opinbera tryggi að þar séu engar glufur á löggjöf sem geri sumum kleift að komast hjá því að leggja sanngjarnan skerf til samfélagsins á meðan langflestir, bæði almenningur og fyrirtæki, greiða sín skatta og gjöld án undanskota.

Einn liður í því að tryggja þetta væri gerð upplýsingaskiptasamninga milli landa en fjölmargir slíkir hafa verið gerðir á undanförnum árum. Þá er umræðan um kaup á gögnum úr skattaskjólum angi af sama meiði en þar þarf að sjálfsögðu að meta mikilvægi gagnanna fyrir samfélagið. Séu þau metin mikilvæg hlýtur það að vera í þágu almannahagsmuna að fá slík gögn enda gætu þau verið vísbending um að einhverjir aðilar hafi komið sér hjá því að greiða skatt til samfélagsins.

Inn í þessa umræðu mætti draga fleiri þætti, til að mynda þegar alþjóðleg fyrirtæki taka lán hjá móðurfélögum og flytja svo skattskyldan hagnað úr landi í formi vaxtagreiðslna til móðurfélagsins ef það er staðsett í ríki þar sem finna má lægra skatthlutfall en hér. Þannig getur móðurfélagið tekið sér arð í formi þessara vaxtagreiðslna með því að lána dótturfélaginu háar fjárhæðir (í stað til dæmis að auka hlutafé þess). Þetta hefur verið kallað þunn eiginfjármögnun. Undirrituð lagði fram frumvarp ásamt fleiri þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um að tekið yrði á þunnri eiginfjármögnun og var markmið þess að tryggja að þær tekjur sem verða til hér á landi renni til samfélagsins og uppbyggingar þess.

Ljóst er að reglur um þunna eiginfjármögnun munu aðeins taka til fárra fyrirtækja á Íslandi. Þeim er einkum ætlað að taka til stórra alþjóðlegra félagasamstæðna og þó svo að fáar slíkar séu starfandi hér á landi finnast nokkrar slíkar og eru gríðarlega stórar og starfsemi þeirra hér á landi veltir miklum fjármunum og skilar töluverðum hagnaði. Er því um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska ríkið. Þunn eiginfjármögnun er líka töluvert til umræðu á alþjóðlegum vettvangi og má þar nefna skýrslur frá bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Skemmst er frá því að segja að frumvarpið var tekið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og var það niðurstaða nefndarinnar að meginefnið væri gott og ástæða væri til að breyta lögum í þessa veru. Frumvarpinu var vísað til ríkisstjórnar með þeim tilmælum að málið yrði unnið áfram og lagt fram á nýju á haustþingi 2014. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og nú liggur fyrir að slíkt frumvarp verður ekki tilbúið af hálfu ríkisstjórnarinnar á þessu þingi. Það hlýtur að vekja athygli hversu hægt þessari vinnu hefur miðað og virðist erfitt að draga aðra ályktun en að hér sé ekki um forgangsmál að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar.