Tryggjum sjálfbærni og félagslega fjölbreytni

Gisli_GardarssonGísli Garðarsson, fulltrúi Vinstri grænna í umhverfis-og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, skrifar:

Skipulagsmál Reykjavíkur verða sífellt fyrirferðarmeiri í umræðunni. Það er fagnaðarefni enda er skipulag sveitarfélags rammi þess samfélags sem innan þess þrífst.  Skipulagsmálin varða nefnilega samfélagið allt í víðum skilningi – og því er hollt og gott að allt samfélagið láti sig skipulagsmálin varða. Nú þegar kjörtímabil borgarstjórnar er hálfnað er rétt að líta yfir farinn veg í málaflokknum en jafnframt að beina sjónum að komandi misserum.

Stóraukin uppbygging í borginni

Í ársskýrslu byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 2015 kemur fram að á árinu hafi 235.000 fermetrar byggingarmagns verið samþykktir í borginni. Er það 73% aukning frá 2014 og margföld aukning frá árunum þar á undan. Segja má að búið sé að rétta úr kútnum eftir hrun án þess þó að framkvæmdir séu jafnmiklar og voru á góðærisárunum svokölluðu, en meðaltal samþykktra fermetra 2000 – 2008 var 265.000 fermetrar. Hlutur íbúðarhúsnæðis í uppbyggingu síðasta árs var jafnframt drjúgur, um 64%, en aðrir stærstu nýtingarflokkar voru annars vegar verslun og skrifstofur og hins vegar iðnaður, um 10% hvort, og síðan hótel og veitingahús, um 6%. Samþykkt var að hefja byggingu á 969 íbúðum á síðasta ári. Að auki voru 388 íbúðir fullgerðar og 213 íbúðir skráðar fokheldar. Það er um helmingi meira en ársmeðaltal samþykktra íbúða frá 1972, sem er 609 íbúðir. Þetta er mjög jákvæð þróun enda sárvantar íbúðir til að mæta þeim húsnæðisvanda sem hrunið skóp samfélaginu. Miðað við að áætluð íbúðaþörf til 2030 er um 710 íbúðir á ári er ljóst að við erum loksins byrjuð að vinna bug á uppsöfnuðum húsnæðisskorti. Þetta gerum við samhliða þéttingu byggðar með sjálfbærni og félagslega fjölbreytni að leiðarljósi í stað úreltra hugmynda um stóruppbyggingu sérbýlis í úthverfum. Af áðurnefndum 969 íbúðum eru 926 í fjölbýlishúsum, 30 í raðhúsum, 6 í tvíbýlum og 7 í sérbýlum.  Þá eiga 96% uppbyggingar sér stað innan núverandi byggðar, umfram markmið aðalskipulags.

Áskoranir framundan

Með öðrum orðum voru samþykktar íbúðir í Reykjavík árið 2015 136% af áætlaðri þörf, þar af 96% innan þéttbýlismarka og 95.5% þeirra í fjölbýli. Hafin er stórsókn í uppbyggingu fjölbreytts íbúðarhúsnæðis í borginni innan núverandi byggðar. Við höfum stigið stór skref en áframhaldandi þétting byggðar er forsenda umhverfisvænni samgönguhátta, sjálfbærara borgarsamfélags og aukinnar félagslegrar fjölbreytni. Með þessi markmið að leiðarljósi eigum við að mæta þeim áskorunum sem við okkur blasa. Þó við séum byrjuð að vinna á húsnæðisskorti borgarbúa er enn langur vegur framundan.

Ásættanlegt húsnæði fyrir okkur öll

Á þeirri vegferð verðum við áfram að samtvinna þéttingu byggðar við fjölbreyttan húsakost og gæta þess að tapa ekki félagslegri fjölbreytni eða gæðum byggðar. Tillögur um að rýmka byggingarreglugerð svo hægt sé að byggja ódýrari og smærri íbúðir í stórum stíl eru skammtímalausn sem væri arðbærari fyrir framkvæmdaaðila en myndi skapa önnur og stærri vandamál til framtíðar. Vel er hægt að byggja litlar íbúðir nú. Að slaka á kröfum til þeirra þýðir að gera lakari íbúðir fyrir fátækustu hópa samfélagsins. Gerum þá kröfu að húsnæði sem við byggjum árið 2016 innihaldi fjölbreyttar íbúðastærðir og að í þeim geti allir samfélagshópar búið. Það er forsenda félagslegrar blöndunar. Sú leið þýðir vissulega að það tekur lengri tíma að vinna upp húsnæðisskortinn. En hún þýðir líka að þegar því lýkur séu fleiri íbúðir útbúnar með fjölbreytni samfélagsins í huga. Það er ábyrg stefna til framtíðar.

Skynsamleg þétting byggðar: nýir lifnaðarhættir í mótun

En svo hún nái fram að ganga verðum við að byggja áfram íbúðir umfram íbúafjölgun. Því gerir aðalskipulag ráð fyrir 14.500 nýjum íbúðum á uppbyggingarreitum til 2030. Þær íbúðir eiga að rúma 32.500 íbúa en áætluð fjölgun Reykvíkinga er um 25.000 á tímabilinu. Er þá ótalin öll fjölgun íbúða utan uppbyggingarreita aðalskipulags. Ef allt heldur sem horfir munum við slá allverulega á húsnæðisskortinn næstu árin. Nú þegar eru fleiri þúsundir íbúða í viðbót í bígerð á mismunandi skipulagsstigum, þ.á.m. 1300 íbúðir í nýju Vogabyggðarhverfi, a.m.k. 750 íbúðir á háskólasvæðunum tveimur með stúdenta í huga og 500 íbúðir í endurskipulagðri Skeifu, svo fáein verkefni séu nefnd. Með þeim og fleirum tökum við næstu skref í þéttingu byggðar og eflum það borgarsamfélag sem fyrir er. Þannig tryggjum við sjálfbæran vöxt til félagslegra fjölbreyttrar framtíðar.