Tvær þingsályktunartillögur um eflingu lýðræðis

Svandís Svavarsdóttir

Þingmenn Vinstri grænna munu er þinghald hefst að nýju leggja fram tvö þingmál um eflingu lýðræðis á Íslandi. Katrín Jakobsdóttir leggur ásamt fleiri þingmönnum fram þingsályktunartillögu um þátttökulýðræði og Svandís Svavarsdóttir leggur ásamt fleirum fram þingsályktunartillögu um atvinnulýðræði.

Í þingsályktunartillögu Katrínar Jakobsdóttur og fleiri, sem er fyrsta þingmál sinnar tegundar á Íslandi, er kveðið á um að skipa skuli nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar  verði að auka þátttöku og aðkomu almennings í opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði. Með orðinu „þátttökulýðræði“ er vísað til tegundar lýðræðis þar sem aukin áhersla er lögð á þátttöku almennings í opinberum ákvörðunum.

Slíkar hugmyndir hafa verið áberandi bæði í opinberri og fræðilegri umræðu á undanförnum árum og áratugum og hafa orðið talsverðar hræringar í þeim efnum hér á landi, ekki síst í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Samkvæmt þessum hugmyndum á að auka aðkomu almennings að opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku, en aðkoma almennings getur verið af ýmsum toga, svo sem að forgangsraða, skilgreina markmið, leggja fram tillögur eða hlutast til um niðurstöðu. Með tillögunni er lagt til að áfram verði unnið að lýðræðisumbótum í þessa veru með samvinnu stjórnmálamanna, embættismanna og háskólasamfélagsins.

Í þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur um atvinnulýðræði er lagt til að hefja vinnu við að þróa aðferðir og leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja og í skólum landsins. Í víðasta skilningi vísar hugtakið „atvinnulýðræði“ til allra ráðstafana sem gerðar eru til að auka áhrif starfsmanns á ákvarðanir ákvarðana sem tengjast daglegum störfum viðkomandi starfsmanns. Í tillögunni er lagt til að sérstaklega skipuð nefnd geri í samráði við aðila vinnumarkaðarins tillögur að eflingu atvinnulýðræðis í þessum skilningi. Meðal þeirra leiða sem nefndar eru í greinargerð tillögunnar er að starfsfólk hafi rétt á að skipa fulltrúa í stjórn fyrirtækja og stofnana eins og tíðkast víða í Vestur-Evrópu.