Um ferðamálaráðuneyti og fleira skylt.

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar á Alþingi 26. janúar.

 

Herra forseti. Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu á að fjölga ráðuneytum úr átta í níu. Ég ætla ekki að ræða þá skipan eða endanlegan fjölda heldur nýtt ráðuneyti ferðamála sem hefði átt hér heima í plagginu. Ég hef talað fyrir því lengi og það má fullyrða að aðilar í ferðaþjónusta óska eftir því. Ég hef fylgst með þróun ferðamála í 30, 40 ár og horft upp á þessar undirmönnuðu stofnanir, sérstaklega innan Stjórnarráðsins, sem hafa verið alla tíð. Það hefur verið mjög lítil áhersla í raun og veru lögð á ferðamál, enda má kannski segja að lengst af hafi þau ekki verið mjög stór þáttur af hagkerfi okkar en eru nú orðin það.

Það er til Ferðamálastofa. Það er til Stjórnstöð ferðamála. Það er til Vegvísir í ferðaþjónustu. Það eru til lög um Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegra minja. Þetta eru allt framfarir að vissu marki en það þarf að gera mun betur.

Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur, en henni er ekki ætlað að taka yfir ábyrgð og skyldur stjórnkerfisins eða hagsmunasamtaka eins og segir í kynningu á henni. Henni er stjórnað af fjórum ráðherrum. Ég hef lítið séð til þessarar stjórnstöðvar og hún hefur væntanlega unnið sín störf ágætlega, þar eru í gangi ýmiss konar verkefni en mér finnst þessi skipan of veik. Stjórnstöðin mun starfa til 2020. Þá spyr maður sig: Hvað tekur þá við?

Þegar hefði átt að hefja vandaðan undirbúning að stofnun ráðuneytis og reyna að klára þá vinnu fyrir árið 2020, jafnvel á einu til tveimur árum. Ástandið í ferðaþjónustunni heilt yfir er ámælisvert að mati mjög margra aðila, hvort sem er í ferðaþjónustunni eða utan. Um þetta hafa margir fjölyrt og fjölmiðlar flytja daglega fregnir af alls konar óboðlegu ástandi sem hægt er jafnvel að hneykslast á.

Ef maður dregur þetta saman þá getur maður sagt að við höfum ekki haft tök á viðbrögðum við fjölgun ferðamanna. Sjálfbærnin sem við höfum sett sem markmið er meira í orði en á borði og það vill oft gleymast að sjálfbærni snýst ekki bara um náttúruna, hún snýst líka um félagslega þætti og hún snýst um hagræna þætti.

Innviðauppbyggingin er í ólagi, ekki alls staðar, en mjög víða og heldur alls ekki í við þróunina. Öryggi ferðamanna er ekki nægilega tryggt og fjármögnun er of lítil til greinarinnar, bæði í einkageiranum og opinbera geiranum. Það eru líka undantekningar á því.

Það er vissulega svo að ferðaþjónusta er mjög fjölbreytt, en það er rangt hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni að þetta snúist eiginlega helst um samgöngur og landkynningu. Þetta er svo miklu, miklu víðara og einmitt vegna þess hversu ferðaþjónustan er fjölbreytt og fjölþætt er nauðsynlegt að henni sé fundinn staður í Stjórnarráðinu.

Herra forseti. Næstu árin mun ferðamönnum fjölga mjög fljótlega í 2 milljónir, síðan í 4, 6, við höfum jafnvel séð hærri tölur fyrir 2040. Það er alveg augljóst að þessar nytjar sem að baki ferðaþjónustu liggja hafa þolmörk eins og allar aðrar náttúru- og menningarnytjar eða félagslegar nytjar. Við getum líka fullyrt að það er mjög mikið misræmi í álagi á land og fólk.

Stærsti flókni atvinnuvegurinn þarf augljósa stýringu hvað varðar skipulag, náttúrunýtingu og auðlindir hvers konar, enda eru til sérlög um ferðaþjónustu á Íslandi. Það er verið að endurskoða þau.

Annað verkefni til vandaðrar umræðu sem ég hef rætt um er endurskipulagning ríkisstofnana sem koma að náttúruauðlindum. Það hefur jafnvel verið kölluð auðlindastofnun. Ég ætla að leyfa mér hér, herra forseti, að vísa í álit fyrrum landgræðslustjóra, Sveins Runólfssonar, sem hann sendi umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir um tveimur árum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að sett verði á laggirnar auðlindastofnun er fari með verndun og endurheimt auðlinda landsins, gróðurs, jarðvegs, ferskvatns, náttúru, ásamt umsýslu mikilvægra svæða í eigu ríkisins. Hún verði þekkingar-, framkvæmda- og þjónustustofnun á þessu sviði. Undir hana færist öll landgræðslumálefni frá Landgræðslu ríkisins sem má þjappa saman sem vernd og endurreisn á virkni vistkerfa, skógrækt og þjóðskógar frá Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefni í skógrækt, Hekluskógar, málefni Veiðimálastofnunar, náttúruverndarþátturinn sem nú er fóstraður í Umhverfisstofnun og sviði gróðurverndar, landslagsverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og fleira. Undir hana myndi einnig heyra rekstur þjóðgarða, þar með talið Vatnajökulsþjóðgarðar. Síðast ekki síst er brýnt að í hinni nýju stofnun yrðu sem allra flest málefni er varða verndun ferðamannastaða, ferðaleiða og svæða gegn ágangi og álagi af völdum ferðamanna og utanumhald vinnu við að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið. Brýnt er að á einum stað verði til þekking og reynsla varðandi allar framkvæmdir er lúta að verndun náttúru, gróðurs og jarðvegs vegna sívaxandi ferðamennsku.“

Hugmyndin um nýja auðlindastofnun er ekki nýtt fyrirbæri og hentar í sjálfu sér til vandaðrar umræðu. Þetta er sett hér fram þess vegna og í von um að menn átti sig á þörfinni þótt breytingar sem þessar kunni að kosta mikla vinnu og töluvert fé, en það er alveg ljóst, jafnvel þegar menn horfa aðeins á málefni þjóðgarða, að það er auðvelt að nefna sjö, átta, níu stofnanir og nefndir sem véla um þessa mikilvægu þætti í ferðaþjónustu og allri menningu landsmanna.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. Ég ætla að vona að við berum gæfu til þess að fleyta þessu máli lengra í þinginu og að hv. ríkisstjórn taki tillit til þess að það er löngu kominn tími til að það verði til ferðamálaráðuneyti á Íslandi.