Dagskrá

Föstudagur 31. ágúst

16.30 Mæting á Hótel Flúðir
17.00 Katrín Jakobsdóttir setur fundinn og kynnir drög að ályktunum
17:15 Drífa Snædal, Katrín Jakobsdóttir og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir fara yfir uppgjör kosningabaráttunnar og landsfundarins og kynna starfsáætlun haustsins og endurskoðaða fjárhagsáætlun
17:30 Steingrímur J. Sigfússon: Hlutverk Vinstri grænna í breyttu landslagi íslenskra stjórnmála
17:50 Ögmundur Jónasson: Hlutverk og rekstur almannaþjónustu
18:15 Umræður

18.45 Matarhlé

19.45 Almennar stjórnmálaumræður
23.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 1.september

09.00 Fundi framhaldið
10.00 Afgreiðsla ályktana
10:30 Sigþrúður Jónsdóttir, náttúrufræðingur og einn af stofnendum áhugahóps um verndun Þjórsárvera, segir frá baráttu náttúruverndarsamtaka um Þjórsá og Þjórsárver
11.00 Fundi slitið

12.00 Sumarferð Vinstri grænna hefst, allir velkomnir!

Ályktanir fundarins

Heræfingar og fjárútlát í heimildarleysi
Með þeim ánægjulegu tímamótum sem urðu er erlendur her hvarf af landinu skapaðist gullið tækifæri til að endurskilgreina stöðu Íslands og móta nýjar áherslur sem til þess væru fallnar að skapa breiða samstöðu með þjóðinni. Það verður best gert með því að leggja grunn að sjálfstæðri og óháðri utanríkis- og friðarstefnu sem heldur í heiðri og virðir vopnleysis- og friðararfleifð íslensku þjóðarinnar. Því miður hefur hvorki núverandi né fyrrverandi ríkisstjórn notað tímann vel né lagt grunn að slíku með framgöngu sinni, heldur þvert á móti.

Enn bólar ekkert á efndum loforða um að skapa nýjan samskiptavettvang stjórnmálaflokkanna í landinu á sviði öryggismála til umræðna og stefnumótunar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsti sig strax reiðubúna til þátttöku í slíku starfi. Nú er senn ár liðið frá því að fyrrverandi ríkisstjórn gaf loforð um að slíkum vettvangi yrði komið á laggirnar í tengslum við tíðindin af brottför Bandaríkjahers. Sama er áréttað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar án þess að orðið hafi vart neinna tilburða til efnda enn sem komið er.

Fundur flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Flúðum dagana 31. ágúst og 1. september 2007, mótmælir nýafstöðnum heræfingum á Íslandi og þeim kostnaði sem ríkisstjórnin í heimildarleysi ákvað að leggja út fyrir vegna þeirra. Fundurinn mótmælir því einnig harðlega að gerðir séu samningar við önnur lönd, ákvarðanir teknar á vettvangi NATO og fyrirheit gefin á fleiri vegu um veruleg fjárútlát af Íslands hálfu til heræfinga og hernaðartengdrar starfsemi á næstu árum. Þetta er gert án þess að nokkrar heimildir fyrirfinnist í fjárlögum til slíks, án þess að nokkur opinber umræða og stefnumótun hafi átt sér stað heimafyrir og án þess að haft sé lögboðið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis fyrirfram.

Staða Íslands í NATO
Fundurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að staða Íslands innan hernaðarbandalagsins NATO verði tekin til umræðu. Að frumkvæði Bandaríkjamanna hefur verksvið NATO verið útvíkkað eins og best sést á því hlutverki sem NATO gegnir nú í Afganistan. Þar sökkva NATO-ríkin æ dýpra í fúafen vonlausrar baráttu með ærnum fórnarkostnaði og bera ábyrgð á stórfelldu mannfalli óbreyttra borgara. Það þjónar á engan hátt hagsmunum Íslands né er það í samræmi við friðar- og vopnleysisarfleifð okkar að taka þátt í verkefnum í fjarlægum heimsálfum undir hatti hernaðarbandalagsins NATO. Liður í heildarendurskoðun þessara mála á að vera að kalla allt íslenskt lið tafarlaust heim frá Afganistan. Minna má á í þessu sambandi nýsett lög um íslensku friðargæsluna en þar er tekið af skarið um að þátttaka Íslands í slíku starfi skuli alfarið vera á borgaralegum forsendum.

Ísland af lista vígfúsra þjóða
Fundurinn felur stjórn og þingflokki flokksins að berjast áfram fyrir því að hinn hörmulegi og misráðni stuðningur fyrrverandi ríkisstjórnar við Íraksstríðið verði formlega afturkallaður og nafn Íslands tekið af lista hinna vígfúsu þjóða.
Palestína

Fundurinn harmar það ástand sem nú ríkir í Palestínu og fordæmir framgöngu bandarískra og ísraelskra stjórnvalda og annarra er þeim fylgja að málum sem leynt og ljóst vinna að því að kljúfa palestínsku þjóðina, reka þar aðskilnaðarstefnu og ýta undir innbyrðis deilur og átök. Þá var sérstaklega ámælisvert þegar Evrópusambandið ákvað að hætta stuðningi á Gaza sem jók enn á þjáningar óbreyttra borgara á svæðinu, m.a. með því að hætta að standa straum af kostnaði við raforkuframleiðslu.

Erindi Íslands í öryggisráðið?
Að lokum lýsir fundur Flokksráðs vonbrigðum með að engrar stefnubreytingar hefur orðið vart í utanríkismálum í tíð nýrrar ríkisstjórnar. Haldi svo fram sem horfir með óbreyttri stjórnarstefnu er ljóst að Ísland á ekkert erindi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og þeim fjármunum, sem áframhaldandi kosningabarátta í því skyni mun kalla á, væri betur varið til annarra hluta, svo sem aukinnar neyðaraðstoðar, þróunarsamvinnu og annarra verkefna, þar á meðal á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Almannaþjónusta

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill rannsókn á afleiðingum markaðs- og einkavæðingar og krefst kjarabóta fyrir launafólk
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur til víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu um framtíð almannaþjónustu á Íslandi. Það er óviðunandi að stjórnmálaflokkar komist til valda á grundvelli fagurgala og loforðaflaums um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis, raforkukerfis, vatnsréttinda og annarra grunnþátta en ráðist síðan í breytingar sem hafa afgerandi neikvæðar afleiðingar um ókomna tíð.

Víða i heiminum hefur markaðsöflunum tekist að knýja fram umfangsmiklar breytingar á almannaþjónustu. Stofnanir sem sinna grunnþjónustu á borð við orkuveitur og vatnsveitur hafa verið einkavæddar og seldar, skólum og heilbrigðisstofnunum hefur verið þröngvað til að starfa á markaðsvísu. Íslensk stjórnvöld hljóta að þurfa að horfa til reynslunnar af þessum breytingum.

Spyrja þarf hvernig breytingarnar hafa reynst almenningi. Hefur þjónustan batnað eða hefur hún orðið verri? Hefur aukin mismunun fylgt einkarekstri og markaðsvæðingu eða hefur jafn aðgangur haldist?

Spyrja þarf hvernig breytingarnar hafa reynst þeim sem greiða fyrir þjónustuna. Hefur þjónustan orðið dýrari eða ódýrari? Fæst betri þjónusta fyrir minna fjármagn eða er þessu öfugt farið?

Spyrja þarf hvernig breytingarnar hafa reynst þeim sem veita þjónustuna. Hefur markaðs- og einkavæðing almennt bætt eða rýrt kjör starfsfólks, hvaða áhrif hafa breytingarnar haft á atvinnuöryggi fólks og hvernig hefur einstökum hópum farnast?

Flokksráð VG fagnar ákvörðun þingflokks VG um að flytja í upphafi þings tillögu um að ráðist verði í markvissa könnun á afleiðingum markaðs- og einkavæðingar á undirstöðustofnunum almannaþjónustunnar. Flokksráð VG krefst þess að á meðan verði fallið frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur. Við framtíðarstefnumótun í samfélagslegum efnum verði tekið mið af niðurstöðum þessarar rannsóknar og efnt verði til víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu um framtíð velferðarkerfisins og almannaþjónustunnar.
Samhliða þessari rannsókn og stefnumótun verður tafarlaust að ráðast í aðgerðir til að styrkja stöðu og bæta rekstrarumhverfi almannaþjónustunnar. Þegar er erfitt að manna ýmsar stofnanir velferðarkerfisins. Tími er kominn til að stjórnvöld horfist í augu við ábyrgð sína hvað varðar kjaramál starfsfólksins sem velferðarþjónustan hvílir á. Kjör starfsfólks og sú þjónusta sem það veitir eru óaðskiljanlegir þættir.

Orkuveitan áfram í almannaeigu
Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur 30. ágúst sl. var lögð fram tillaga meirihluta stjórnar um að breyta fyrirtækinu úr sameignarfyrirtæki í hlutafélag. Um málið hefur ekki verið fjallað af eigendum eða kjörnum fulltrúum þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur, hjá Akranesbæ eða Borgarbyggð. Það var heldur ekki rætt á eigendafundi í vor sem leið. Meirihlutaflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þögðu þunnu hljóði um slík áform í aðdraganda kosninga en koma nú aftan að kjósendum sínum með þessari tillögu.
Í tillögunni eru lagðar til breytingar á grundvelli fyrirtækisins, rekstrarformi þess og þróunarmöguleikum. Slíkar ákvarðanir á að taka á grundvelli umræðu þeirra sem eru til þess kjörnir. Með þessari framgöngu er lýðræðið að engu haft enda þjónar það augljóslega ekki markmiðum meirihlutans.

Þegar eigur samfélagsins eru seldar er dregið úr lýðræðislegu aðhaldi, möguleikar almennings til að hafa áhrif rýrna og hagsmunir peninga og markaðar eru settir ofar hagsmunum samfélagsins í heild. Tilburðir meirihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur með borgarstjórann í Reykjavík í broddi fylkingar eru slíkur leiðangur. Ljóst er að viðnám og málafylgja Vinstri grænna er eina skýra röddin gegn áróðri og ásetningi einkavæðingaraflanna í þessu máli sem öðrum.

Það er ávallt hagkvæmara fyrir samfélagið sjálft að eiga og ráðstafa þeim arði sem kann að verða til í slíkum fyrirtækjum beint til samfélagslegra verkefna heldur en að svokallaðir fjárfestar fái að taka arðinn jafnharðan út úr fyrirtækinu í eigin þágu.
Lengi hefur legið fyrir sá einbeitti vilji frjálshyggjumanna og annarra sterkra afla innan Sjálfstæðisflokksins að einkavæða allt sem hægt er, og færa samfélagslegar eigur í hendur auðmanna og peningavaldsins. Þess er skemmst að minnast að landsfundur Sjálfstæðisflokksins dróst á langinn í því skyni að gera harða einkavæðingarstefnu flokksins söluvænni í aðdraganda kosninga. Tillagan um hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar verður án undanbragða skoðuð í því samhengi, – hér er um að ræða fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar fyrirtækisins. Það er afdráttarlaus afstaða Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að samfélagsþjónustan, þar með talin Orkuveita Reykjavíkur, eigi að vera í eigu almennings. Af því verður ekki gefinn afsláttur undir nokkrum kringumstæðum.

Lýðræði og umhverfi
Fundur flokksráðs VG haldinn að Flúðum 31. ágúst til 1. september krefst þess að grundvallar stefnumótun á borð við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sé unnin áður en lengra er haldið. Heildstæð áætlun um auðlindanotkun, landnýtingu og landsskipulag byggir á því að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð og íbúum sveitarfélaga sé gefið það svigrúm sem nauðsynlegt er til að ná farsælum niðurstöðum í umdeildum skipulagsmálum.

Stöðugt gætir aukinnar ásælni raforkufyrirtækja í að virkja straumvötn og jarðhita til stóriðju og hafa þau notið til þess stuðnings og velvilja ríkisstjórnarinnar. Nærtækt dæmi er leynisamkomulag fjármálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis frá maí sl. um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindum ríkisins í neðri hluta Þjórsár.

Á sama tíma er þrengt að sveitarfélögum, og þau beitt þrýstingi við skipulagsgerð. Það er gert í krafti þess að stjórnvöld hafa ekki markað heildarstefnu um landnýtingu, náttúruvernd eða uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Almennar leikreglur eru óskýrar og takmarkaðar og mikið skortir á að lýðræðisleg vinnubrögð hafi verið stunduð við stefnumótun eða lagasetningu. Orkufyritækin eru notuð sem keyri og neytt er aflsmuna gegn náttúruverndarsamtökum, einstaklingum og fámennum sveitarfélögum til að knýja fram niðurstöðu sem er stóriðjusinnum þóknanleg.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað varað við því að haldið sé áfram á þessari braut. Þingflokkur Vinstri grænna hefur fordæmt samkomulagið um yfirtöku vatnsréttinda Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár og telur gerð samkomulagsins, sem leynt var fyrir Alþingi, íbúum og sveitarstjórnum, vera siðleysi og afar ólíklegt að það fái staðist í lagalegu tilliti. Hefur þingflokkurinn óskað álits Ríkisendurskoðunar á þeim gjörningi.