Dagskrá

Föstudagur 29. ágúst

16.30 Mæting í Reykholt
17.00 Heimamenn bjóða félaga velkomna
Þorvaldur Jónsson syngur
Jón Bjarnason býður gesti velkomna
Systurnar Ásta og Unnur leika á fiðlu

17.20 Katrín Jakobsdóttir kynnir drög að ályktunum og stöðu málefnavinnu
17.30 Drífa Snædal kynnir flokksstarf vetrarins
17:40 Efnahagsvandinn – leiðir til lausnar, Steingrímur J. Sigfússon
18:00 Sveitastjórnarpólitíkin – Karl Tómasson og Svandís Svavarsdóttir

18.20 Létt stund fyrir mat

19.30 Matarhlé

20.15 Almennar stjórnmálaumræður
23.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 30. ágúst

09.00 Vinnuhópar:

 • Evrópu- og efnahagsmál – Katrín Jakobsdóttir leiðir umræður
 • Velferðarmál – Ögmundur Jónasson leiðir umræður
 • Sveitastjórnarmál – Svandís Svavarsdóttir leiðir umræður
 • 11.00 Umræður og afgreiðsla ályktana
  12.00 Fundi slitið – hádegisverður

  Ályktanir fundarins

  Tryggjum rekstrargrundvöll sveitarfélaga
  Sveitarfélög eru misvel í stakk búin til að veita sjálfsagða og nauðsynlega grunnþjónustu. Á næstu tveimur árum er meðal annars nauðsynlegt að auka framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna um 5 milljarða árlega. Á sama tíma verður gagnger endurskoðun að eiga sér stað á tekjuskiptingu vegna núverandi verkefna og tekjustofnum sveitarfélaga í heild sinni. Sveitarfélögin í landinu þola enga bið.

  Ríkið taki þátt í kostnaði vegna almenningssamgangna
  Almenningssamgöngur eru ekki einkamál sveitarfélaga. Þau varða umhverfi og efnahag allra landsmanna. Ríkið verður að axla ábyrgð og taka þátt í kostnaði vegna þeirra. Lagasetning í þá veru á að vera forgangsmál á komandi vetri.
  Frítt í strætó óháð lögheimili

  Flokksráð Vinstri grænna beinir því til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að gæta jafnræðis og veita öllum námsmönnum frítt í strætó óháð lögheimili.

  Samvinna á forsendum sveitarfélaganna sjálfra
  Flokksráð Vinstri grænna hafnar hugmyndum um lögbindingu lágmarksstærðar sveitarfélaga. Íbúar eiga að hafa svigrúm og sjálfræði til að meta kosti og galla sameiningar við önnur sveitarfélög og ákveða með hvaða hætti samstarfi þeirra á milli skuli háttað. Flokksráðið telur brýnt að úttekt verði framkvæmd á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum þeirra sameininga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum.

  Forgangsröðum í þágu barna
  Á tímum efnahagsþrenginga er sérstaklega mikilvægt að létta byrðar barnafjölskyldna. Menntun barna og þátttaka þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi má ekki vera háð efnahag foreldra eða tímabundnum þrengingum í samfélaginu. Flokksráð Vinstri grænna hvetur því sveitarfélögin í landinu til að forgangsraða í þágu barnafjölskyldna.

  Staða og aðgerðir í efnahagsmálum
  Flokksráðsfundurinn lýsir yfir stuðningi við ítarlegar tillögur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs sem lagðar voru fram, bæði í frumvarpi sl. vor og nú síðast tillögur sem samþykktar voru nýlega á þingflokksfundi. Þær endurspegla þá kröfu okkar að þjóðarsátt verður aldrei hægt að byggja á viðvarandi kynjamisrétti, á því að þeir lægst launuðu borgi brúsann eða að náttúrunni verði fórnað. Þjóðarsátt verður að snúast um að snúa af leið misskiptingar, auka launajöfnuð, efla velferðarkerfið, deila skattbyrðinni á réttlátari hátt þannig að hátekjufólk og fjármagnseigendur taki þátt í samneyslunni, efla fjölbreytt atvinnulíf og byggjast á því að við sitjum öll við sama borð.

  Stjórnvöld hafa loks viðurkennt ástandið í efnahagsmálum sem margir hafa þó spáð fyrir um, þeirra á meðal Vinstrihreyfingin–grænt framboð: Verðbólga, himinháir vextir, minnkandi möguleikar á lánum, þverrandi kaupmáttur og fjöldauppsagnir eru staðreyndir sem blasa við okkur. Á síðustu dögum má einnig heyra að ráðamenn eru farnir að tala um þjóðarsátt um aðgerðir, rétt eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt til allt frá útmánuðum 2005. Við Vinstri græn fögnum því að menn neita nú ekki vandanum lengur, enda ekki hægt. Við fögnum því einnig að samstaða er nú um að efla gjaldeyrisvaraforðann. Við fögnum því líka ef stjórnvöld vilja raunverulega efna til þverpólitísks og þverfaglegs samstarf í anda þjóðarsáttar. En sú þjóðarsátt þarf að byggjast á félagslegum forsendum.

  Við Vinstri græn bjóðum fram krafta okkar og hugsjónir og erum opin fyrir hverju því samstarfsformi stjórnmálaflokkanna og allra þeirra aðila sem nú þurfa að taka höndum saman. Við útilokum ekkert í þeim efnum, hvorki þjóðstjórn, það að gerast formlegir þátttakendur í samráði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins né annað. En við gerum þá kröfu fyrir hönd þjóðarinnar að menn komi sér að verki hið fyrsta.

  Samningaviðræður við ESB verði teknar upp að nýju til að koma í veg fyrir óheftan innflutning á hráu kjöti
  Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn 29.-30. ágúst, ályktar að hafna skuli frumvarpi um óheftan innflutning á hráu kjöti, sem nú liggur fyrir Alþingi, og að samningaviðræður við Evrópusambandið verði teknar upp að nýju.

  Fjölmargir ólíkir aðilar hafa eindregið varað við frumvarpinu, enda stefnir það matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu. Með hækkandi heimsmarkaðsverði á matvælum verður æ ljósar hversu mikilvægt er að ríki geti framleitt sína eigin matvöru en séu ekki um of háð öðrum um þá framleiðslu. Sumar þjóðir hafa gengið svo langt að setja útflutningstolla á ýmis matvæli til að tryggja markmið um fæðuöryggi.

  Einnig er vert að benda á að á Íslandi hafa matvælaframleiðendur náð einstökum árangri á sviði matvælaöryggis. Hér hefur tekist að halda salmonellu- og kamfýlóbaktersmitum í lágmarki og er tíðni matvælasýkinga hér mun lægri en í löndum ESB. Þessum árangri höfum við náð með þrotlausri vinnu og fjárfestingum undanfarin ár og byggt er á eftirlitskerfum og heilbrigðisstöðlum, sem eru með því allra besta sem þekkist í heiminum. Þessi árangur er ekki auðfenginn og ábyrgðarlaust að hætta á að glutra honum niður.

  Loks sætir furðu að nefndarmenn í sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd þingsins hafa enn ekki fengið gögn sem skýra af hverju íslensk stjórnvöld féllu frá undanþágu á innflutningi á hráu kjöti í viðræðum sínum við Evrópusambandið. Þetta pukur á sér stað þrátt fyrir fjölmargar ítrekanir og bréfaskriftir til formanns nefndarinnar, viðkomandi ráðherra og ráðuneytisstjóra og forseta þingsins um að nefndarmenn fái gögn málsins tafarlaust.

  Fjármálaumhverfi
  Flokksráðsfundur Vinstri grænna vill að nú þegar verði ráðist í lagabreytingar til að treysta lagaumhverfi fjármálastofnana, bæta siðferði í íslensku viðskiptalífi og tryggja réttindi almennings í landinu gagnvart yfirgangi fámenns hóps stóreignamanna. Þá þarf að skerpa á og fara ofan í vinnubrögð og aðgerðaleysi þeirra stofnana sem sinna eiga eftirlitshlutverki á fjármálamarkaði. Hagsmunir almennings eiga ávallt að vera í forgrunni.

  Á undanförnum mánuðum og misserum höfum við horft upp á gríðarlegar eignatilfærslur þar sem fámennur hópur auðmanna hefur í krafti veiks lagaumhverfis og aðgerðaleysis eftirlitsstofnana gengið á hag og eignir almennings. Í því ástandi sem myndast hefur á fjármálamarkaði eru almenningur og smærri fjárfestar stundum nauðbeygðir til að leggja eigur sínar undir ef þeir vilja verja rétt sinn fyrir dómstólum og koma jafnvel að orðnum hlut þó þeir hafi sigur vegna þess tíma sem það tekur að fá fram niðurstöðu. Skýrt dæmi um það er sú staða sem eigendur sparisjóðanna í landinu sem verið hafa í félagslegri eigu almennings hafa staðið frammi fyrir.

  Hlutverk sparisjóðanna hefur verið að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs í viðkomandi byggðalögum en ekki að hámarka arð einstakra stofnfjáreigenda. Sérstaklega hafa sparisjóðirnir sinnt því mikilvæga hlutverki að veita almenningi og ekki síst minni fyrirtækjum þjónustu. Því er brýnt að settur sé lagarammi um viðskipti með stofnbréf sparisjóðanna, sem kemur í veg fyrir að örfáir einstaklingar geti sópað til sín stofnbréfum og samfélagseignum þeirra. Viðskipti þar sem lagaumhverfi er óljóst og fjársterkir aðilar geta í krafti eigna sinna gert nánast hvað sem er, er óásættanlegt.

  Stuðningur við kjarabaráttu ljósmæðra
  Flokksráðsfundur Vinstri grænna haldinn í Reykholti dagana 29. – 30. ágúst 2008 ítrekar kröfu stjórnar flokksins um að ríkisstjórnin gangi strax til samninga við ljósmæður.

  Neyðarástand skapast á fæðingadeildum landsins innan fárra daga þar sem fjöldi ljósmæðra hefur sagt upp störfum vegna óánægju með kjör sín. Það er ótrúlegt að enn þurfa kvennastéttir að beita hörku til að fá störf sín metin til launa. Orð stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að jafna kjör kynjanna eru innantóm þegar stétt sem telur einungis konur mætir fálátum viðbrögðum við kröfum um að fá svipuð laun og karlastéttir með sambærilega menntun.

  Sú staða sem komin er upp í samningaviðræðum við ljósmæður er ólíðandi, bæði gagnvart ljósmæðrum en ekki síður fæðandi konum sem nú eru í óvissu um hvort þær fái nauðsynlega og sjálfsagða þjónustu í mæðraeftirliti og fæðingu. Ríkisstjórnin vanmetur því ekki eingöngu störf ljósmæðra, heldur eru þarfir kvenna einnig virtar að vettugi.

  Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs krefst þess að ríkisstjórnin semji nú þegar við ljósmæður og komi í veg fyrir það að flótti verði úr stéttinni. Enn fremur lýsir flokksráðið yfir stuðningi við ljósmæður og baráttuna fyrir jöfnum launum kynjanna.

  Nauðsyn á lagabreytingu varðandi nektardansstaði
  Flokksráð Vinstri grænna, fagnar þverpólitískri ályktun borgarráðs Reykjavíkur, þar sem Alþingi Íslendinga er hvatt til að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir rekstur nektardansstaða.

  Nú þegar liggur lagafrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir þinginu, þar sem lagt er til að undanþáguákvæði sem heimilar að gert sé út á nekt í atvinnuskyni verði fellt út. Flokksráðsfundurinn bindur vonir við að frumvarpið fáist samþykkt á haustþingi, enda liggur fyrir stuðningur við það frá kjörnum fulltrúum allra flokka.

  Sú reynsla og þekking sem skapast hefur samhliða rekstri nektardansstaða undanfarin ár sýnir að í skjóli nektardansstaða þrífst gjarnan vændi, auk þess sem erfitt er að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem þar starfi séu til þess neyddar eður ei. Lagaumhverfið verður að taka mið af þessum upplýsingum og vernda almannaheill þar sem því verður við komið. Heimild veitingahúsa til að gera út á nekt í atvinnuskyni er því ekki verjandi. Jafnrétti kynjanna næst aldrei ef annað kynið er til sýnis og sölu fyrir hitt.

  Breytum lögum um nálgunarbann og heimilisofbeldi
  Flokksráð Vinstri grænna ítrekar nauðsyn þess að Alþingi veiti lögreglunni heimild til að leggja á heimsóknar- og nálgunarbann og fjarlægja ofbeldismenn af heimilum. Það er tími til kominn að öryggi og hagsmunir fórnarlamba ofbeldis séu teknir fram yfir rétt ofbeldismanna til að halda áfram að áreita og ofsækja. Þannig vinnum við á kynbundnu ofbeldi og tryggjum sjálfsögð mannréttindi fórnarlamba ofbeldis sem eru fólgin í því að fá að dvelja óáreitt og örugg á heimum sínum.

  Í fimm ár hafa Vinstri græn, undir forystu Kolbrúnar Halldórsdóttur, lagt til að lagaákvæðum um nálgunarbann verði breytt þannig að menn sem beita heimilisofbeldi sæti brottvísun af heimili og heimsóknarbanni í tiltekinn tíma. Tillagan er byggð á austurrískri fyrirmynd og var upphaflega komið á til að tryggja mannréttindi þeirra sem sættu ofbeldi á heimilum sínum. Mikil fjölgun kvennaathvarfa í Austurríki vakti fólk til vitundar um nauðsyn þess að bregðast við á annan hátt en gert hafði verið. Hér á landi ríkir svipað ástand og fyrir lagasetningu þar í landi. Þeim fjölgar stöðugt sem leita í Kvennaathvarfið og umfang starfsemi Stígamóta og Neyðarmóttöku vegna nauðgana gefa ekki til kynna að kynbundið ofbeldi fari minnkandi, þvert á móti.

  Núgildandi lagaákvæði um nálgunarbann eru því miður til lítils gagns. Eins og nýleg dæmi sanna þá eru dómarar tregir til að beita ákvæðunum þrátt fyrir eindregnar óskir lögreglu þar um. Því er nauðsynlegt að breyta ferlinu og veita lögreglunni nauðsynlegar heimildir til að beita tímabundnu heimsóknar- og nálgunarbanni. Til að tryggja öryggi þeirra sem verða fyrir ofsóknum og hafa mátt þola ofbeldi er nauðsynlegt að breyta lögum í anda þess sem best gerist. Mörg nágrannalönd okkar hafa tekið Austurríki sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar og er sorglegt hvað Ísland er langt á eftir við að innleiða lagaumhverfi sem tekur af alvöru á kynbundnu ofbeldi.

  Nú liggur fyrir Alþingi að breyta lögum um nálgunarbann og þó sú breyting sé einungis tæknilegs eðlis þá gefur hún möguleika á því að breyta inntaki lagaákvæðanna. Kolbrún Halldórsdóttir hefur af því tilefni lagt fram breytingatillögu við frumvarpið þar sem lagt er til að austurríska leiðin verði farin.

  Allir landsmenn njóti póstþjónustu á jafnræðisgrunni
  Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykholti dagana 29.-30. ágúst 2008 krefst þess að rekin sé póstþjónusta með almannahagsmuni í huga og án þess að íbúum á einstökum landssvæðum sé mismunað. Fundurinn mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði og skorar á samgönguráðherra og ríkisstjórnina alla að hverfa frá markaðs- og einkavæðingu póstsins.

  Flokksráðsfundurinn leggur áherslu á mikilvægi póstþjónustunnar fyrir allt landið. Pósturinn er hluti af almannaþjónustu og einn grunnþáttur samfélagsins sem allir íbúar á landinu eiga jafnan rétt á.

  Í bígerð er að skerða þessa þjónustu enn frekar en orðið er og nú þegar hefur verið ákveðið að fækka póstútburðardögum á ákveðnum svæðum og leggja niður póstafgreiðslu víða um landið. Með þessu er þjónusta við atvinnurekendur og almenning á fámennari svæðum skert og jafnræðisreglan brotin.

  Forsætisráðherra hefur þegar lýst því yfir að hann vilji selja póstþjónustu landsins til einkaaðila og ljóst er að með niðurskurði í póstþjónustunni er verið að sníða hana að markaðslögmálum og setja hana í söluvænlegar umbúðir. Horfið er frá því að reka póstinn sem grunnþjónustu og arðsemissjónarmið eru tekin við.

  Stöndum vörð um Íbúðalánasjóð
  Flokksráð Vinstri grænna mótmælir harðlega hótunum ríkisstjórnar um að þrengja að Íbúðalánasjóði og banna honum að veita ríkisábyrgð á almenn íbúðalán.

  Slíkt hefði í för með sér lakari lánskjör fyrir húsnæðiskaupendur og er því tilræði við kjör almennings í landinu.
  Fyrirhugaðar breytingar ganga þvert á fyrirheit Samfylkingarinnar sem margoft hefur lofað því að hvergi verði þrengt að Íbúðalánasjóði. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að staðinn verði vörður um samfélagslegan Íbúðalánasjóð sem þjóni öllum landsmönnum óháð búsetu.

  Þörf á gagnrýninni umræðu um einkavæðingu
  Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs varar eindregið við markaðsvæðingu velferðarþjónustunnar sem nú er unnið leynt og ljóst að.

  Frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkratrygginga- og innkaupastofnun í heilbrigðiskerfinu er liður í þessum áformum og verður að skoðast í því ljósi. Fráleitt er að samþykkja grundvallarbreytingar á velferðarkerfi landsmanna án þess að afleiðingarnar fái áður lýðræðislega umræðu. Þess vegna átelur flokksráðsfundurinn ríkisstjórnina fyrir að reyna að þröngva þessum lagabreytingum í gegnum þingið með offorsi.

  Einkavæðing velferðarþjónustunnar kemur notendum hennar illa, leiðir til mismununar og er íþyngjandi fyrir ríki og sveitarfélög sem eiga að greiða fyrir þjónustuna. Augljóst er að því meira fjármagn sem fer í arðgreiðslur til fjárfesta á þessu sviði, þeim mun minna verður til þess að bæta þjónustuna eins og þörf krefur. Fráleitt er að líta á þarfir þeirra sem þurfa að sækja til velferðarþjónustunnar, hvort sem það eru sjúklingar, aldraðir eða fatlaðir, sem hverja aðra vöru á markaði.

  Flokksráðsfundurinn hafnar með öllu áframhaldandi einkavæðingu á grunnþjónustu samfélagsins og krefst lýðræðislegrar umræðu um afleiðingar þess áður en ráðist er í frekari breytingar. Rannsaka þarf reynsluna af markaðs- og einkavæðingu þar sem ráðist hefur verið í slíkar breytingar og meta samfélagsáhrif hennar. Þá hvetur Vinstrihreyfingin–grænt framboð fjölmiðla til að grannskoða ábendingar sem fram hafa komið um óeðlileg hagsmunatengsl á milli þeirra sem eru í pólitískri aðstöðu til að stýra velferðarkerfinu inná braut markaðsvæðingar annars vegar og fyrirtækja á markaði hins vegar.

  Tryggjum öfluga velferðarþjónustu fyrir alla
  Gott samfélag byggist á traustu og öflugu velferðarkerfi, góðum samgöngum og fjarskiptum, öflugum skólum og heilbrigðisstofnunum, nýsköpun, rannsóknum og menntun. Þessi grunnþjónusta samfélagsins sem fyrst og fremst er verkefni hins opinbera, er forsenda framfara og velmegunar. Nú þegar verr horfir í efnahagsmálum er því brýnna en nokkru sinni að taka þessi mál föstum tökum. Ríki og sveitarfélög verða að forgangsraða í þágu velferðarkerfisins.

  Aðgerðir verða að taka mið af stöðu kynjanna í samfélaginu, þar sem ábyrgð á uppeldi og umönnun hvílir fyrst og fremst á herðum kvenna, jafnt inni á heimilum sem þjónustustofnunum. Því er nauðsynlegt að tryggja börnum daggæslu og skólavist, góða umönnun fyrir aldraða, efla þjónustu við fatlaða og svo framvegis. Til að svo megi vera, verður að stórbæta kjör kvennastétta í velferðarþjónustu.