Dagskrá

Föstudagur 28. ágúst

16.30 Mæting á Hótel Hvolsvöll
17.00 Arndís Soffía Sigurðardóttir formaður svæðisfélagsins býður félaga velkomna
17.15 Katrín Jakobsdóttir setur fund og kynnir drög að ályktunum
17.30 Steingrímur J. Sigfússon: Staða Íslands og leiðir út úr vandanum
17.45 Sóley Tómasdóttir: Verkefni vetrarins – sveitastjórnarkosningar 2010
18.00 Guðfríður Lilja Grétarsdóttir: Til endurreisnar – erindi VG
18.15 Almennar stjórnmálaumræður

19.00 Matarhlé

20.30 Almennar stjórnmálaumræður
22.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 29. ágúst

9.00 Fundi framhaldið – almennar stjórnmálaumræður
11.30 Afgreiðsla ályktana
12.00 Fundi slitið – hádegisverður

13.30 Sumarferð – lagt af stað í Þórsmörk

Ályktanir fundarins

…um markmið fjárlaga
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur þingflokkinn til að hafa eftirfarandi hluti sem markmið þegar kemur að samningu fjárlaga:

• Að leita aðstoðar grasrótar og sérfræðinga frá byrjun ferilsins, til dæmis með stofnun bakhóps sem gæti aðstoðað fulltrúa VG í fjárlaganefnd.
• Að samningaferli fjarlaga verði eins opið og kostur er, t.d. að haldnir verði opnir kynningarfundir, nauðsynleg gögn liggi frammi frá upphafi og opinni umræðu um þær málamiðlanir sem reynast nauðsynlegar til að ná meirihluta á bak við fjárlögin.
• Að auknar álögur verði fyrst og fremst lagðar á þann hluta samfélagsins sem stendur undir frekari álögum, t.d. með stighækkandi hátekjuskatti, þrepaskiptum stóreignar- og erfðarskatti og skattlagningu fjármagnstekna til jafns við launatekjur.
• Að leggja höfuðáherslu á að verja grunnstoðir velferðarkerfisins.
• Að niðurskurður auki ekki atvinnuleysi.
• Að kynjaðri hagstjórn verði beitt svo kvennastörfum í velferðarkerfinu verði ekki fórnað til að skapa karlastörf með verklegum framkvæmdum.
• Að sala á ríkisfyrirtækjum verði ekki notuð til að hylja halla á ríkissjóði eins og gert var í tíð fyrri ríkisstjórna.
• Að fyrir liggi og kynnt almenningi hvaða fyrirmæli eða rammi liggur fyrir frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hvaða afstöðu þingflokkurinn hefur til þeirra skilyrða.

Að tekið verði tillit til byggðalaga sem á góðæristímanum bjuggu við neikvæðan hagvöxt og mikla fólks fækkun við óhjákvæmilegan niðurskurð ríkisútgjalda.

…um kynjajafnrétti
Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Hvolsvelli dagana 28.-29. ágúst 2009, ítrekar mikilvægi þess að kynjasjónarmið séu höfð að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Endurmótun íslensks samfélags getur ekki farið fram öðruvísi en með
aðkomu beggja kynja.

Fundurinn lýsir yfir áhyggjum sínum af þróun atvinnuleysis þar sem konur í mikilvægum störfum innan velferðar- og menntakerfisins bætast sífellt í hóp atvinnulausra. Í ljósi sögunnar kemur þessi þróun ekki á óvart en langvarandi kreppur leiða oft til þess að konur missa vinnu á meðan karlar halda sínum störfum eða þá að ráðist er í átak með það að markmiði að búa til störf fyrir þá.

Viðbrögð stjórnvalda verða því að byggja á kynjasjónarmiðum og atvinnuskapandi verkefni verða að vera fjölbreytt og taka mið af ólíku starfsvali og starfsmöguleikum kynjanna. Ella er hætta á miklu bakslagi í jafnréttismálum.
Vinnuframlag kvenna er stærsta stoð mennta- og velferðarkerfisins og án þeirra starfskrafta er ekki unnt að reka velferðarsamfélag. Velferðin er forsenda kvenfrelsis, enda ljóst að sú þjónusta sem nú er fyrir hendi af hálfu hins opinbera er þjónusta sem konur veittu áður inni á heimilunum. Á meðan verkaskipting á heimilum er eins ójöfn og raun ber vitni er ljóst að niðurskurður velferðarþjónustu bitnar á frelsi og möguleikum kvenna í meiri mæli en karla.

Kynjamisrétti á sér enn ljótari birtingarmyndir og rannsóknir benda til þess að kynbundið ofbeldi, klám og vændi aukist þegar kreppir að. Stjórnvöld verða því á öllum stigum að vera meðvituð um kynbundið ofbeldi sem afleiðingu kynjamisréttis, efla forvarnir og úrræði eins og framast er unnt.

Þá áréttar fundurinn mikilvægi þess að skoða veika efnahagslega stöðu ólíkra hópa í samfélaginu með kynjasjónarmið að leiðarljósi, enda ljóst að staða kvenna og karla innan afmarkaðra hópa er alls ekki jöfn. Efnahagsleg staða kvenna á eftirlaunaaldri endurspeglar t.d. þá staðreynd að launamisrétti kynjanna fylgir konum til æviloka. Um þetta bera kyngreindar tölur um lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar órækt vitni. Þær sýna að konur eru með mun lakari lífeyrissjóðsréttindi en karlar og þar af leiðandi í miklu ríkari mæli háðar bótagreiðslum Tryggingarstofnunar. Aldraðar konur eru því mun líklegri en aldraðir karlar til að vera fangar í fátæktargildru opinberrar framfærslu. Að sama skapi er brýnt að hlutar kvenna á landsbyggðinni sé gætt. Kannanir sýna að kynbundinn launamunur er umalsvert meiri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Á tímum samdráttar er enn mikilvægara en áður að launum landsbyggðarkvenna sé ekki haldið niðri og ójöfnuði vegna búsetu þannig viðhaldið.

Fundurinn ítrekar mikilvægi þess að lýðræði verði aðeins tryggt með þátttöku beggja kynja. Framkomið frumvarp um persónukjör sem nú liggur fyrir verður að skoða með kvenfrelsi í huga. Persónukjör má undir engum kringumstæðum leiða til þess að hlutur kvenna í áhrifastöðum minnki.
Ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um grundvallaratriði í kvenfrelsismálum og hafa báðir í ræðu og riti lagt ríka áherslu á jafna stöðu kynjanna. Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvetur því ríkisstjórnina til að flétta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku í því verkefni sem hún var mynduð utan um; að verja velferðina.

…um orkumál og umhverfis- og auðlindavernd
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn 28.–29. ágúst 2009, minnir á þann grundvallarvanda sem blasir við jarðarbúum í umhverfis- og auðlindamálum. Hlýnun lofthjúpsins af mannavöldum og óheillavænlegar breytingar á vistkerfum jarðar kalla á róttæk umskipti í orkunotkun og nýtingu takmarkaðra auðlinda. Olíulindir fara þverrandi á næstu áratugum sem óhjákvæmilega mun valda stighækkandi heimsmarkaðsverði á orku. Vinna þarf því á markvissan hátt gegn orkusóun og leggja áherslu á vistvæna og endurnýjanlega orkugjafa.

Umgangast verður af framsýni og með ríku tilliti til verndunar umhverfis og náttúru þær auðlindir sem Íslendingar eiga í vatnsafli og jarðvarma. Með Ríó-yfirlýsingunni undirgengumst við ásamt öðrum þjóðum að gæta varúðar við hagnýtingu þessara auðlinda.
Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna frá í maí 2009 er kveðið á um, að „við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða“ svo og að í heildstæðri orkustefnu sem nýskipuðum stýrihópi er ætlað að vinna að „verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.“ Í því sambandi ber að hafa í huga að raforkuframleiðsla með jarðvarma nýtir einungis um 12% varmans og að árangur af niðurdælingu er enn sem komið er mikilli óvissu háður. Við slíkar aðstæður samrýmist stórtæk raforkuframleiðsla á háhitasvæðum ekki markmiðinu um sjálfbæra þróun. Flokksráðsfundurinn leggur áherslu á að orkufyrirtækjum verði gert skylt að tryggja sjálfbæran rekstur þeirra svæða sem þegar hefur verið raskað áður en sótt verði inn á ný og ósnortin jarðhitasvæði.

Samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna gerir ráð fyrir að Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði lögð fyrir Alþingi á komandi vetri og fái síðan lögformlega stöðu í stjórnkerfinu. Flokksráðsfundurinn áréttar að vanda verði til þessa verks og nægur tími þurfi að gefast til að ljúka því sómasamlega. Því beinir fundurinn því til ríkisstjórnarinnar að fyrirhuguð skil af hálfu verkefnisstjórnar Rammaáætlunar verði framlengd um a.m.k. eitt ár og aukið svigrúm nýtt til að afla gagna um þá þætti þar sem upplýsingar einkum vantar. Rammaáætlunina ber m.a. að fella að boðaðri stefnu um landslagsskipulag og hún þarf að verða hluti af víðtækri náttúruverndaráætlun og taka mið af væntanlegum vatnalögum.
Enn fremur ítrekar fundurinn mikilvægi þess að ný náttúruverndaráætlun verði samþykkt sem fyrst og að ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs og Samfylkingarinnar leggi fram hugmyndir um framtíðarsýn í náttúruvernd og auðlindanýtingu. Þar verði áhersla lögð á almannaeign auðlinda, lykilhlutverk nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis, umhverfisvæna nýtingu og forgangsröðun í þágu náttúrunnar.
Flokksráð VG minnir á að stjórnarsáttmálinn gerir ekki ráð fyrir að teknar verði neinar frekari ákvarðanir tengdar virkjun neðrihluta Þjórsár áður en rammaáætlun hefur fengið lögformlega afgreiðslu. Í samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs lýsir flokksráðsfundurinn sig andvígan fyrirliggjandi virkjunaráformum á þessu svæði og felur þingflokki og ráðherrum VG að sjá til þess að ekki verði í þær ráðist.

Flokksráðið fagnar því að á vegum umhverfisráðuneytis er vinna hafin að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Telur flokksráðið rétt að Þjórsárver verði í framtíðinni hluti af enn stærra friðlýstu svæði er taki til alls Hofsjökuls með umhverfi hans, að meðtöldu m.a. friðlandinu í Guðlaugstungum, upptakasvæðum jökulsánna í Skagafirði svo og Kerlingarfjöllum sem lengi hafa verið á náttúruminjaskrá.
Flokksráðið tekur eindregið undir tillögur náttúruverndarsamtaka um friðlýsingu Gjástykkis í Þingeyjasýslu og stofnun eldfjallafræðagarðs.
Fundurinn beinir því til ríkis og sveitarfélaga að standa vörð um friðlýst svæði í náttúru Íslands og tryggja að þeim verði ekki raskað í þágu orkuvinnslu og að sameign þjóðarinnar á orkuauðlindum innan íslenskrar efnahagslögsögu verði tryggð. Yfirumsjón með vernd og viðgangi náttúruauðlindanna og umsýslu með Rammaáætlun þarf sem fyrst að fela nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti eins og kveðið er á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

…um sameiginlega eign auðlinda
Flokksráðsfundur VG, haldinn á Hvolsvelli dagana 28.-29. ágúst 2009, leggst eindregið gegn því að lausafjárvandi samfélagsins verði leystur með sölu eða langtímaframsali á auðlindum og orkufyrirtækjum.

Í þeirri vá sem nú vofir yfir þar sem Magma Energy og GGE eru nálægt því að eignast þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og auðlindir á Reykjanesi er það brýnna en nokkru sinni fyrr að Vinstri græn stöðvi þessi áform. Flokksráðið beinir því til ráðherra sinna, þingmanna og sveitarstjórnarmanna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að halda HS orku í samfélagslegri eigu. Aðeins þannig er hægt að tryggja að Hitaveita Suðurnesja var stofnuð um, árið 1974. Ljóst er að ekki er seinna vænna að breyta lögum og reglugerðum þannig að almannahagsmunir séu varðir og að samfélagslegt eignarhald orkufyrirtækja og orkuauðlinda sé tryggt.

…um endurskoðun raforkulaga
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Hvolsvelli 28.-29. Ágúst 2009 skorar á Alþingi og ríkisstjórn að endurskoða raforkulög þar sem horfið verði frá núverandi hugmyndafræði sem eingöngu hefur skilað óhagræðingu, slakari þjónustu og hærra verði til neytenda. Jafnframt verði hætt við markaðsvæðingu orku- og dreifikerfanna og tryggt að þau verði í almannaeign um alla framtíð

… um velferð og menntun
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn á Hvolsvelli dagana 28.–29. ágúst leggur áherslu á mikilvægi þess að ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs og Samfylkingarinnar forgangsraði í þágu velferðar og menntunar í þeim erfiðu efnahagsaðgerðum sem framundan eru.

Ljóst má vera að staða ríkisfjármála verður erfið á næstu árum og draga verður úr ríkisútgjöldum á sama tíma og álag verður mikið á heilbrigðisþjónustu, félagslegt kerfi og skóla landsins. Á slíkum tímum er mikilvægt að þessum undirstöðum samfélagsins verði hlíft eftir fremsta megni og niðurskurður bitni sem minnst á þessari starfsemi.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs áréttar stuðning sinn við ríkisstjórnina og telur að núverandi stjórnarflokkum sé best treystandi til að halda utan um samfélagið við erfiðar og fordæmislausar aðstæður.

…um grunnnet fjarskipta
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Hvolsvelli 28.-29. Ágúst 2009 skorar á Alþingi og ríkisstjórn að beita sér fyrir því að grunnnet fjarskipta verði að nýju í eigu þjóðarinnar.