Dagskrá

Föstudagur 26. ágúst

17:00 Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksráðs, setur fund, kynnir starf málefnahópa og tillögur að ályktunum

17:30 Hildur Traustadóttir, gjaldkeri VG, kynnir ársreikninga 2009 og 2010

17:45 Auður Lilja Erlingsdóttir, framkvæmdastýra VG, fer yfir helstu dagsetningar í aðdraganda landsfundar, skipulag landsfundar og kynnir tölfræði úr félagatali.

18:00 Salvör Nordal kynnir niðurstöður Stjórnlagaráðs

19:00 Matarhlé

20:00 Almennar stjórnmálaumræður

22:30 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 27. ágúst

10:00 Afgreiðsla ályktana

12:00 Fundi slitið

Ályktanir fundarins

Ályktun um stuðning við ríkisstjórnina
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Hótel Loftleiðum dagana 26. og 27. ágúst 2011 ítrekar stuðning við ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar.

Meirihlutastjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar hefur nú starfað í rúm tvö ár en á undan fór samstarf flokkanna í minnihlutastjórn frá 1. febrúar 2009 og fram á vor sama ár.

Þó að mest hafi farið fyrir björgunaraðgerðum eftir efnahagshrun hefur á þessum rúmu tveimur árum náðst ótvíræður árangur í fjölda mála sem eru í samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og hefur hann verið margítrekaður á þessum vettvangi, t.a.m í skattamálum, mannréttinda- og dómsmálum, umhverfismálum, menntamálum og málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Fundurinn fagnar sérstaklega þeim tímamótum sem hafa orðið með því að Ísland hefur nú með árangursríkum hætti lokið samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Öll megin markmið áætlunarinnar hafa náð fram að ganga. Sá ótvíræði árangur sem náðst hefur við efnahagslega endurreisn landsins er þannig staðfestur.

Mestu skiptir hins vegar að líta fram á veginn. Umtalsverður árangur hefur náðst í glímunni við atvinnuleysið. Fundurinn beinir því til kjörinna fulltrúa flokksins að leggja áherslu á fjölbreytta atvinnuuppbyggingu og gæta sérstaklega að byggða og kynjasjónarmiðum. Flokksráðsfundur hvetur ríkisstjórnina til að ljúka vinnu við grundvallarkerfisbreytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem óumdeild yfirráð íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum verði tryggð og meintur eignaréttur útgerða á nytjastofnum landsins heyri sögunni til. Um leið er mikilvægt að skapa sjávarútveginum stöðugt og hagstætt starfsumhverfi og tryggja hagsmuni landsbyggðarfólks og sjávarbyggða.

Fundurinn brýnir jafnframt ríkisstjórnina á sviði kvenfrelsismála. Nauðsynlegt er að tryggja sem jafnasta aðkomu beggja kynja alls staðar þar sem ráðum er ráðið, m.a. á vettvangi ríkisins. Ljúka þarf innleiðingu á kynjaðri hagstjórn og grípa til allra tiltækra aðgerða til að útrýma kynbundnu ofbeldi þ.m.t. aðgerðir gegn klámi, vændi og mansali.

Fundurinn leggur áherslu á að ríkisstjórnin standi vörð um eign þjóðarinnar á orkuverum og orkuauðlindum og kjörnir fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vinni að þeim markmiðum, meðal annars í þeirri vinnu sem framundan er við stjórnarskrá landsins.

Þá hvetur flokksráðsfundur til þess að lög um Ríkisútvarpið verði endurskoðuð til að efla þar lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag og tryggja að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu sem ein öflugasta menningarstofnun þjóðarinnar.

Ennfremur að Vinstrihreyfingin – grænt framboð standi áframhaldandi öflugan vörð um náttúru og umhverfi, ekki síst við afgreiðslu rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Fundurinn ítrekar stuðning við ríkisstjórnina og þátttöku Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í henni og mikilvægi þess að áfram verði unnið að vinstri-grænum málum á vettvangi landsmálanna.
Ályktun um náttúruvernd og Rammaáætlun

Drög að þingsályktunartillögu um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda eru nú í umsagnarferli og vinnslu hjá umhverfis- og iðnaðarráðherra.

Margt hefur áunnist í ferli Rammáætlunar, s.s. Þjórsárver, Torfajökull, Kerlingarfjöll, Gjástykki og fleiri svæði sem flokkuð hafa verið í verndarflokk en baráttunni er ekki lokið.

Drögin gera ráð fyrir því að þrjár virkjanir í byggð í neðri hluta Þjórsár fari í nýtingarflokk. Flokksráðsfundur VG haldinn í Reykjavík 26. – 27. ágúst telur að færa verði þessar virkjanahugmyndir í biðflokk vegna skorts á rannsóknum á mikilvægum sviðum.

Viðurkennt er að rannsóknir skortir á einstökum laxastofni Þjórsár, á lífríki flestra eyja árinnar, á uppfoki úr árfarveginum við minnkað rennsli árinnar, á grunnvatnstöðu á Skeiðum og í Flóa og á lífríki sjávar. Landslagsrannsóknir eru ófullnægjandi og af vanefnum gerðar.
Síðast en ekki síst hafa samfélagsleg áhrif virkjana í byggð ekki verið rannsökuð en þau eru þegar veruleg og neikvæð í byggðunum við ána. Áhrif á samfélag eru ein af grunnstoðum sjálfbærni, en ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að starfa í anda sjálfbærni. Flokksráðsfundur Vinstri grænna í ágúst 2011 telur mikilvægt að ekki verði farið í virkjanaframkvæmdir í byggð við Þjórsá án fullnægjandi rannsókna á öllum þessum þáttum.

Fundurinn hvetur jafnframt þingmenn og ráðherra til að standa vörð um Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót, Skaftá og Hólmsá sem nú eru á barmi nýtingar, sem og Stóru Sandvík á Reykjanesi sem nánast engin umræða hefur farið fram um. Þingmenn og ráðherrar eru brýndir til að halda á lofti því sem einkennir málstað Vinstri grænna í umhverfismálum í samstarfi við Samfylkinguna í ríkisstjórn.

Stjórnsýsla umhverfis- og auðlindamála
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 26.-27. ágúst 2011 hvetur þingmenn og ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs til að stíga mikilvæg skref til eflingar stjórnsýslu umhverfis- og auðlindamála.

Mestu skiptir að áform um að færa umsýslu auðlindamála til umhverfisráðuneytisins nái fram að ganga eins og fjallað er um í stefnu flokksins og samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Einnig er mikilvægt að starfsemi Umhverfisstofnunar verði tekin til skoðunar og hún efld með það markmiði að hún njóti trausts sem eftirlits- og umsýslustofnun á sviði umhverfismála.

Ályktun um loftárásir NATO á Líbíu
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn 26.-27. ágúst 2011 vísar til ályktunar frá fundi sínum 20.- 21. maí 2011 og ítrekar fordæmingu sína á loftárásum Atlantshafsbandalagsins á Líbíu. Fundurinn beinir því til Alþingis að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda þess að Ísland samþykkti þessar aðgerðir. Þessar árásir beindust meðal annars að borgaralegum skotmörkum og ollu miklu tjóni og dauða fjölda óbreyttra borgara. Hvort með þeim hafi verið komið í veg fyrir verra ástand er ómögulegt að segja en hins vegar er ljóst að heimsvaldahagsmunir vestrænna ríkja og ekki síst olíuhagsmunir réðu miklu þessar aðgerðir. Fundurinn lýsir yfir stuðningi við alþýðu Líbíu og fordæmir hvers kyns kúgun og arðrán þar sem annars staðar. Jafnframt fagnar fundurinn þingsályktunartillögu þingmanna VG um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu sem lögð var fram á Alþingi 30. maí síðastliðinn.

Kjörnir fulltrúar VG standi vörð um velferðarþjónustu
Flokksráðsfundur VG, haldinn 26. til 27. ágúst 2011 beinir því til þingflokksins og sveitarstjórnarfólks að við komandi fjárlaga-og fjárhagsáætlanagerð verði staðinn vörður um menntakerfið og velferðarþjónustuna. Einnig tryggi þeir að bóta- og lífeyrisþegar verði ekki fyrir frekari kjaraskerðingum en orðið er.

Flokksráðsfundurinn bendir á að velferðarþjónustan sé komin að þolmörkum og hækkun skatta sér farsælli leið til að tryggja velferðarkerfið en áframhaldandi niðurskurður. Þá hvetur fundurinn ríkisstjórn og sveitarstjórnir til að standa fast gegn frekari markaðsvæðingu í velferðarþjónustunni.

Þurfi að skera niður verði fyrst borið niður í stjórnsýslunni.

Ályktun um flóttamenn og hælisleitendur
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn að Hótel Loftleiðum 26.-27. ágúst 2011 fagnar því að innanríkisráðherra hafi sett á fót starfshóp um málefni útlendinga utan evrópska efnahagssvæðisins, en bendir á að æskilegt sé að fulltrúar félagasamtaka sem vinna með innflytjendum, hælisleitendum og flóttamönnum (s.s. Rauði kross Íslands) eigi beina aðkomu að hópnum sem er skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta. Fundurinn hvetur innanríkisráðherra til að bæta við fulltrúum slíkra félagasamtaka í starfshópinn.

Verkefni starfshópsins er að móta stefnu fyrir stjórnvöld í málefnum útlendinga utan EES sem leita hælis eða óska eftir dvöl á Íslandi. Við mótun slíkrar stefnu verður pólitísk stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um mannúð, réttlæti og félagslega alþjóðahyggju að vera í öndvegi. Flokksráðsfundur leggur áherslu á að hælisleitendum verði tryggð skjót og réttlát málsmeðferð. Fundurinn ályktar að innanríkisráðherra beiti sér fyrir því að úttekt verði gerð á vinnubrögðum Útlendingastofnunar í málefnum hælisleitenda, vegna mikillar gagnrýni sem stofnunin hefur sætt síðustu misseri. Mikilvægt er að traust ríki á stofnuninni, enda er hún ábyrg fyrir ákvörðunum sem eru lífsspursmál fyrir margt fólk.

Flokksráðsfundur telur brýnt að Ísland axli ábyrgð í alþjóðasamfélaginu þegar kemur að málefnum flóttamanna, og leggur til að mótaðar verði nýjar reglur sem gera ráð fyrir að tekið verði við ákveðnum lágmarksfjölda pólitískra flóttamanna á ári, t.d. 20 manns að lágmarki ár hvert (hælisleitendum þar á meðal).

Ályktun um dýralæknaþjónustu
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Hótel Loftleiðum 26. og 27. ágúst 2011, beinir því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann beiti sér fyrir frestun á gildistöku III. kafla laga nr. 143/2009 er varðar breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og taka á gildi 1. nóvember nk. Jafnframt beiti ráðherra sér fyrir því að áðurgreindum lagakafla verði breytt á þann veg að búfjár- og dýraeigendum á landinu öllu verði til frambúðar, af hálfu ríkisins, tryggð fullnægjandi dýralæknisþjónusta, sem sé hið minnsta af samsvarandi gæðum og sú þjónusta sem héraðsdýralæknar hafa veitt til þessa.

Greinargerð:
Þegar áðurgreind lög koma að fullu til framkvæmda mun dýralæknisþjónusta dragast stórlega saman. Embætti héraðsdýralækna verða þá lögð niður í núverandi mynd en héraðsdýralæknum gert eftir breytinguna að sinna aðeins eftirlitsstörfum en ekki lækningum. Við þessa breytingu mun víða um landið skapast mikil óvissa um aðgengi að dýralæknisþjónustu, en sjálfstæðum stofurekstri virðist ætlað að leysa núverandi fyrirkomulag af hólmi. Með því er heilbrigðisþjónusta við dýr, bæði búfé og gæludýr, í raun einkavædd og henni teflt í mikla tvísýnu, einkum í dreifðari byggðum. Fyrirséð er að fyrir marga sem þurfa á þjónustu dýralækna að halda, jafnt bændur sem gæludýraeigendur, verður um langan veg að fara eftir lyfjum og þjónustu. Afleiðing þessara breytinga mun m.a. koma fram í verra heilbrigði búfjár, sem síðan mun leiða til hærri framleiðslukostnaðar í búfjárrækt vegna aukinna affalla og meiri kostnaðar við lyf og þjónustu.

Hitaveita Suðurnesja í almannaeigu
Flokksráðfundur VG, haldinn á Hótel Loftleiðum 26. – 27. ágúst 2011 skorar á þingflokk og ráðherra VG að koma Hitaveitu Suðurnesja aftur í almenningseigu, enda er það í fullu samræmi við stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar um þjóðareign á auðlindum.