Dagskrá

Föstudagur 22. febrúar

16.30 Mæting á Hótel Loftleiðir
17.00 Katrín Jakobsdóttir setur fundinn og kynnir drög að ályktunum auk þess að fara yfir stjórnmál líðandi stundar
17:50 Steingrímur J. Sigfússon fjallar um frumvarp til varnarmálalaga
18:15 Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, fjallar um nýgerða kjarasamninga

18.45 Matarhlé

19.45 Almennar stjórnmálaumræður
23.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 23. febrúar 2008

09.00 Fundi framhaldið
10.00 Afgreiðsla ályktana
10:30 Turid Leirvoll framkvæmdastýra SF í Danmörku segir frá kosningabaráttu danska systurflokks okkar í haust
12.00 Fundi slitið

Ályktanir fundarins

Ályktun um efnahags- og atvinnumál
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 22. og 23. febrúar 2008, lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu efnahags- og atvinnumála og gagnrýnir andvaraleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í þeim efnum.
Undanfarin þrjú ár hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð varað við afleiðingum gríðarlegrar þenslu, jafnvægisleysis í hagkerfinu og hagstjórnarmistaka undanfarinna ára. Vorið 2005 flutti þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

Þar var lagt til að
– slegið yrði á frest öllum frekari stóriðjuframkvæmdum, að minnsta kosti um langt árabil
– gert yrði vandað áhættumat í bankakerfinu
– hugað yrði að því að auka bindiskyldu hjá innlánsstofnunum á nýjan leik
– slegið yrði á frest eða, eftir atvikum, hætt við frekari skattalækkanir í ljósi mikillar þenslu
– efnt yrði til víðtæks samstarfs aðila vinnumarkaðar og hagsmunasamtaka í anda þjóðarsáttar

Þessu til viðbótar hefur Vinstrihreyfingin – grænt framboð lagt til margvíslegar ráðstafanir í atvinnumálum varðandi nýsköpun í atvinnulífi í stað þess að einblína á stóriðju og ítrekað lagt til að gjaldeyrisvaraforðinn yrði aukinn og staða Seðlabankans styrkt til að treysta undirstöðurnar í fjármálakerfinu.

Því miður gilti það sama um tillögur okkar Vinstri grænna og aðvaranir innlendra og erlendra greiningaraðila og sérfræðistofnana: Á þær var ekki hlustað. Hið ofþanda stóriðju- og útrásarhagkerfi var keyrt áfram með tilheyrandi verðbólgu, geigvænlegum viðskiptahalla og svimandi háum vöxtum. Afleiðingarnar blasa nú við og eru grafalvarlegar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar missti af gullnu tækifæri til að senda sterk skilaboð út í samfélagið eftir kosningarnar síðastliðið vor þess efnis að nú yrði tekið á málum. Þess í stað hefur ríkisstjórnin flotið sofandi áfram og er síðust allra til að vakna upp til veruleikans eins og hann ber nú að dyrum.

Til viðbótar þeirri alvarlegu stöðu sem við blasir í fjármálageiranum og á verðbréfaþingi, og óvissunni um þróun gjaldeyris- og verðlagsmála næstu mánuðina, bætast svo áföll sem dunið hafa yfir til dæmis í sjávarútvegi. Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar þorskveiða, sem seint og um síðir litu dagsins ljós sl. haust, eru ómarkvissar og koma varla til með að gagnast þeim sem fyrir mestu áfalli hafa orðið. Ef við bætist að loðnuvertíðin bregst nú að mestu eða öllu leyti er ástandið orðið svo alvarlegt að óumflýjanlegt er að grípa til víðtækra ráðstafana. Því miður berast langleiðina svipuð ótíðindi af málefnum landbúnaðarins, en þar stofnar allt að 80% hækkun áburðarverðs, ásamt gríðarlegri hækkun á olíuverði, innfluttu kjarnfóðri og fleiri aðföngum, afkomu bænda og stöðugleika í innlendri búvöruframleiðslu í verulega hættu.

Flokksráðsfundur VG skorar á ríkisstjórnina að bregðast ekki skyldu sinni við þessar alvarlegu aðstæður og efna til víðtæks, þverpólitísks og þverfagslegs samráðs um ráðstafanir til að sigla þjóðarskútunni í gegnum þá erfiðleika sem nú blasa við. Óumflýjanlegt er að grípa strax til ráðstafana í sjávarútvegsmálum og leggja jafnframt grunn að heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunar. Þá þarf að setja aukinn kraft í íslenska landbúnaðarframleiðslu með því að nýta sérstöðu hennar og möguleika til útflutnings og stórefla lífræna ræktun og landbúnað í sátt við umhverfið. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er reiðubúin til að leggja sitt af mörkum og vísar til annarra tillagna sinna bæði fyrr og nú. Brýnast er vegna fjármálakerfisins að styrkja Seðlabankann verulega og auka gjaldeyrisvaraforðann. Hins vegar að ráðstafa umtalsverðum fjármunum til sveitarfélaga sem verða nú fyrir áfalli vegna tekjubrests í sjávarútvegi og landbúnaði.

Ályktun um utanríkis- og varnarmál
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 22. og 23. febrúar, mótmælir harðlega þeirri hervæðingu og NATO-væðingu íslenskra öryggismála sem fólgin er í nýtilkomnum og stórfelldum útgjöldum til hermála.
Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er Ísland reyrt fastar en nokkru sinni fyrr á klafa hernaðarbandalagsins NATO, þess sama bandalags og staðið hefur fyrir stríðsrekstri í fjarlægum heimsálfum á undanförnum árum. Fundurinn vill halda því til haga að ef frumvarp utanríkisráðherra nær fram að ganga er í fyrsta skipti í sögu landsins búið að lögfesta veru herliðs hér á landi á friðartímum. Hugmyndir utanríkisráðherra um „varnarmálastofnun“ eru af sama tagi og varnarmálastofnanir í þeim löndum sem nota hernaðarmátt sinn til árása, með þeirri leynd og þeirri ólýðræðislegu ákvarðanatöku sem slíkum stofnunum fylgir ævinlega. Ekki þarf heldur að efast um að heræfingar við landið, á því og yfir munu aukast sem bein afleiðing þessa, með tilheyrandi óþægindum, kostnaði og hættu á umhverfisspjöllum.

Flokksráðsfundurinn bendir á að útgjöld til hermála, í fjárlögum og fjáraukalögum og í tengslum við auknar heræfinga og stofnun Varnarmálastofnunar, verða nú talin í milljörðum króna en ekki milljónum. Í stað þess að stofna til stórfelldra útgjalda til hernaðartengdra verkefna sem ekki hefur verið sýnt fram á að nokkur þörf sé fyrir, ætti að efla innlendar borgaralegar stofnanir á sviði löggæslu, landhelgisgæslu og almannavarna, auk þess að búa betur að ómetanlega starfi björgunarsveita.

Fundurinn mótmælir sérstaklega samkrulli borgaralegrar friðargæslu og aðgerða á hernaðarlegum forsendum á vegum NATO og styður framkomnar tillögur á Alþingi um að íslenskur liðsafli verði kallaður heim frá Afganistan. Loks varar fundurinn við öllum áformum um að framlögum Íslands og verkefnum á sviði þróunarsamvinnu verði blandað saman við aðra og óskylda þætti okkar utanríkisstefnu og pólitíska og viðskiptalega hagsmuni. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir því að mannúðar- og þróunaraðstoð Íslendinga verði stóraukin á sjálfstæðum, faglegum og alfarið borgaralegum forsendum.

Fundurinn ítrekar þá kröfu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að tækifærið sem felst í brottför bandaríska hersins eigi að nýta til að móta nýja og sjálfstæða stefnu í utanríkismálum þar sem áhersla yrði lögð á friðsamlega samvinnu þjóða og baráttu fyrir mannréttindum og alþjóðlegu félagslegu réttlæti.

Ályktun um kjaramál
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 22. – 23. febrúar fagnar þeirri tilraun sem gerð var í yfirstandandi kjarasamningum að semja á félagslegum grunni. Það var nauðsynlegt að hækka lægstu laun og réttlætanlegt að leggja áherslu á það fremur en hækkun allra launa. Eftir stendur að enn og aftur er samið um launataxta sem eru langt undir framfærslukostnaði og ekki hægt að ætla fólki að lifa á. Því til viðbótar hefur þensla síðustu ára sem rekja má til vafasamrar hagstjórnar komið hvað harðast niður á þeim sem lægstu launin hafa og aukið til muna bilið á milli ríkra og fátækra.

Því miður eru fingraför Sjálfstæðisflokksins allt of ráðandi þegar kemur að hlut ríkisstjrónarinnar. Ríflegasta framlagið í aðgerðum tengdum kjarasamningunum gengur ekki til þeirra sem ætlað er að lifa undir framfærslumörkum heldur til fyrirtækja í gegnum skattalækkanir. Persónufrádráttur verður hækkaður en því miður hafnaði ríkisstjórnin þeirri hugmynd að létta sérstaklega sköttum af lægri launum. Í reynd má segja að ríkisstjórnin sé að litlu leyti að efna loforð flokkanna frá því fyrir kosningar og fyrirheit í stjórnarsáttmála þó mjög skammt sé gengið í þeim efnum. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu áramót var ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd fyrir að hækka ekkert barnabætur sem í reynd verða skertar að raungildi að óbreyttu á yfirstandandi ári og gera ekki betur í vaxtabótum, hreyfa ekki við skattleysismörkum og fleira í þeim dúr.

Í hnotskurn má segja, að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins sýni viðleitni í átt til launajöfnunar með sinni nálgun við gerð almennra kjarasamninga en ríkisstjórnin er á allt öðru róli og hennar ráðstafanir eru í reynd ekki sérstakt framlag í þeim efnum og ganga mun skemur en ætla hefði mátt miðað við kosningaloforð og fyrirheit í stjórnarsáttmála.

Hin eiginlega prófraun ríkisstjórnarinnar verða samningar hennar við eigin viðsemjendur, þ.e. við opinbera starfsmenn. Það hlýtur að vera efst á dagskrá að hækka laun hinna hefðbundnu kvennastétta, þeirra sem vinna umönnunar- og menntastörf, og draga þannig úr launamuni kynjanna. Sveitarfélögin hafa fæst bolmagn til raunverulegra launahækkana nema ríkið komi til móts við þau með auknum framlögum og því er ábyrgð ríkisstjórnarinnar mikil í komandi kjarasamningum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir yfir stuðningi við baráttu launafólks sem gengur til kjarasamninga á þessu ári. Við bendum á að sérstaklega þarf að tryggja réttindi erlends launafólks hér á landi enda verður kjaramisrétti ekki útrýmt nema með samstöðu og baráttu fyrir stórbættri afkomu láglaunafólks óháð þjóðerni. Þá þarf að vinna markvisst að því að stytta vinnutíma og gera hann sveigjanlegri en um leið þarf að tryggja að laun fyrir styttri vinnutíma dugi til lífsviðurværis. Til að tryggja gegnsæi og vinna á kynbundnum launamuni þarf að afnema launaleynd.

Ályktun í tilefni stjóriðjuáforma
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs lýsir yfir undrun sinni á fyrirhuguðum álversbyggingum í Helguvík og á Bakka.

Fyrir kosningar boðaði Samfylkingin stóriðjuhlé en svo virðist sem það hafi verið orðin tóm. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar senda nú misvisandi skilaboð til þjóðarinnar um stefnu hennar varðandi uppbyggingu á stóriðju. Tilraunir ráðherranna til að hlaupast undan ábyrgð á byggingu fleiri álvera eru aumkunarverðar þegar horft er til þess að ríkisstjórnin er samningsbundinn þátttakandi í undirbúningi stóriðjuverkefnanna í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Ráherrarnir verða að átta sig á því að hér er um leyfisskylda starfsemi að ræða, að virkjanirnar eru í flestum tilfellum á þjóðlendum í umsjá ríkisins, að orkufyrirtækin eru nær alfarið í opinberri eigu — jafnvel með ríkisábyrgð á lánum vegna orkuöflunar fyrir álverksmiðjurnar og að stóriðjufyrirtækin eru háð losunarheimildum sem er í verkahring stjórnvalda að úthluta. Brýnt er að stöðva álversáformin í ljósi skuldbindinga Íslendinga í loftslagsmálum en ljóst er að núverandi stóriðjuáform rúmast ekki innan losunarheimilda Íslendinga og óljóst er um orkuöflun, bæði til álvers í Helguvík og á Bakka.

Nauðsynlegt er að verkefnisstjórn rammaáætlunar um vernd og nýtingu orkuauðlindanna fái frið til að ljúka sínu mikilvæga starfi og komið verði í veg fyrir frekari ásælni orkufyrirtækja í virkjanakosti sem stefna öllum hugmyndum um náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu auðlindanna í voða. Fleiri álver munu virka eins og fölsk innspýting í efnahagslífið sem því miður drífur ekki langt. Nú þarf að ná jafnvægi í efnahagsmálum og fylgja hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar við frekari auðlindanýtingu og atvinnuuppbyggingu. Frestun stóriðjuáforma er nauðsynleg forsenda fyrir sjálfbærri atvinnustefnu í sátt við náttúru og samfélag.