Dagskrá

Föstudagur 19. janúar

17.00 Setning, Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG
17.20 Fjárhagsáætlun kynnt og borin upp til samþykktar
17.30 Afrakstur málefnastarfs frá síðasta landsfundi:

 • Innflytjendamál, Toshiki Toma
 • Fjölskyldumál, Ögmundur Jónasson
 • Heilbrigðismál, Guðmundur Magnússon
 • Umhverfismál, Katrín Jakobsdóttir
 • Kvenfrelsismál, Drífa Snædal
 • Landbúnaðarmál, Steinþór Heiðarsson
 • Málefni tónlistarskólanna, Kolbrún Halldórsdóttir

18.20 Kosningabaráttan framundan, yfirbragð og áherslur, Steingrímur J. Sigfússon
18.45 Matarhlé
19.45 Almennar stjórnmálaumræður og vangaveltur um kosningabaráttuna
23.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 20. janúar

9.00 Hópastarf um málefni;

 • Innflytjendamál, Toshiki Toma
 • Fjölskyldumál, Guðný Hildur Magnúsdóttir
 • Heilbrigðismál, Ólafur Þór Gunnarsson
 • Umhverfismál, Andrea Ólafsdóttir
 • Kvenfrelsismál, Gestur Svavarsson
 • Landbúnaðarmál, Steinþór Heiðarsson
 • Lagabreytingar, Kristín Halldórsdóttir
 • Undirbúningur landsfundar, Svandís Svavarsdóttir

11.00 Starfshópar skila niðurstöðum. Umræða og afgreiðsla mála
12.00 Fundi slitið

Eftir flokksráðsfundinn, kl. 12:30 til 15:00, laugardaginn 20. janúar, verður haldin kynning fyrir formenn og gjaldkera svæðisfélaga og ungliðahreyfinga innan VG, um nýtt fjármálaumhverfi stjórnmálaflokkanna. Boðið verður upp á léttan hádegisverð fyrir þá sem sækja kynninguna.

Ályktanir fundarins

Hvatt til samfélagslegrar ábyrgðar og fagmennsku
Vinstri græn lýsa furðu sinni á því andvaraleysi sem ríkt hefur af hálfu hins opinbera undanfarin ár um hag stórs hóps vímuefnaneytenda og geðsjúkra og minnir á samfélagslega ábyrgð í því efni. Um leið og skorin er niður fagleg þjónusta hafa þrjú ráðuneyti, öll undir stjórn Framsóknarflokksins, án gagnrýni og viðhlítandi eftirlits, látið opinbert fé renna til meðferðastarfs trúfélaga eða félaga tengdum þeim. Svipaða sögu er að segja um samsvarandi þjónustu í Reykjavík.

Það vekur athygli hversu seint og illa félagsmálaráðherra brást við þegar ljóst var að í óefni stefndi hjá Byrginu og hversu miklu virðingarleysi vistmenn þar hafa mætt. Vikum saman voru málin látin reka á reiðanum þar til allt var komið í óefni og þá fyrst gripið í taumana. Nær hefði verið að tilnefna strax utanaðkomandi fagaðila til tilsjónar með rekstri Byrgisins og kappkosta að sinna vistmönnum sem til staðar voru. Þannig hefði vistmönnum verið forðað frá því að lenda á vergangi og tími unnist til að fara yfir málið af yfirvegun og leita samstarfsaðila á faglegum forsendum.

Flokksráð Vinstri grænna telur einboðið að Landlæknisembættið rannsaki með hvaða hætti meðferðar- og umönnunarstarf hefur verið framkvæmt á meðferðarstofnunum undanfarin ár og verði sú rannsókn ekki einskorðuð við Byrgið eitt.
Brýnt er að stjórnvöld, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, endurmeti þær kröfur sem gerðar eru til meðferðarstofnana og annarra úrræða fyrir geðsjúka og vímuefnaneytendur. Gera þarf ríkar faglegar kröfur, eftirlit með nýtingu fjármuna þarf að vera gott og síðast en ekki síst má það aldrei gerast að afsláttur sé veittur á mannréttindum þeirra sem þjónustunnar njóta. Þá er það grundvallaratriði að þeir aðilar sem veita sjúku fólki meðferð á vegum hins opinbera séu óvilhallir í bæði stjórnmálalegu og trúarlegu tilliti.

Ályktun um framboð til KSÍ
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn 19.-20. janúar 2007 fagnar því að kona hafi í fyrsta skipti boðið sig fram til formennsku í Knattspyrnusambandi Íslands.

Knattspyrna hefur fram til þessa verið eitt helsta vígi karlmennskunnar og innan knatt-spyrnusambandsins hefur ríkt óviðunandi misrétti milli karla og kvenna. Framboðið er til marks um að konur gera tilkall til þess að þeirra íþróttaiðkun sé jafnmikils metin og karla. Til þess þurfa konur að koma að ákvarðanatöku og stefnumótun innan íþróttahreyfingar-innar.
Þessum tímamótum í frelsisbaráttu kvenna fagnar flokksráðsfundur Vinstri grænna.

Ályktun um rannsókn á málefnum Byrgisins
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 19.-20. janúar 2007 telur óviðunandi að Ríkissaksóknari og Sýslumannsembættið á Selfossi hafi ekki brugðist þegar í stað við þeim ásökunum sem komu fram í sjónvarpsþætti í nóvember 2006, gegn fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins um meint kynferðis-samband hans við skjólstæðinga þess. Viðbrögðin vekja furðu, ekki síst í ljósi þess að stjórnvöld brugðust tafarlaust við ásökunum um fjármálamisferli. Það sýnir enn á ný skilningsleysi yfirvalda á alvarlegum afleiðingum kynferðisofbeldis og eðli þessara brota að öðru leyti.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs krefst þess að kærur á hendur fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins verði teknar alvarlega og rannsókn hraðað. Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs minnir Ríkissaksóknara og Sýslumannsembættið á Selfossi á að ákæruefnin eru mjög alvarleg. Kærurnar lúti að því að umsjónarmaður vistheimilisins hafi misnotað freklega aðstöðu sína og brotið í starfi gegn trúnaðarsambandi við skjólstæðinga sína. Sýslumaður verði að hafa í huga að kærurnar varða mannréttindi, friðhelgi einkalífs umræddra kvenna og kynfrelsi þeirra. Meint fjármálamisferli forstöðumanns Byrgisins er léttvægt í samanburði við framkomnar kærur um kynferðislegt ofbeldi.

Greinagerð:
Friðhelgi einkalífs og þar með rétturinn til að ráða yfir eigin líkama og sálarlífi eru mikilvægustu réttindi hvers einstaklings. Hún felur í sér friðhelgi gagnvart hinu opinbera og milli einstaklinga innbyrðis. Einnig ber yfirvöldum skylda til að vernda einkalíf borgaranna. Þetta felur í sér að ríkið og stofnanir þess verða að vernda borgaranna og tryggja að mannréttindi séu virk. Þannig ber ríkinu að rannsaka mál sem tengjast brotum gegn friðhelgi einkalífsins. Lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn vegna vitneskju eða gruns um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hafi borist kæra eða ekki.
Kynfrelsi tengist réttindum til frelsis, mannhelgi, og réttindum til að ráða yfir eigin líkama. Kynferðislegt ofbeldi er hægt að skilgreina sem brot þar sem sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins er ekki virtur og réttur til sjálfsstjórnar er brotinn á bak aftur. Aðeins manndráp er alvarlegra brot.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir áhyggjum af því hversu sjaldan er ákært í nauðgunarmálum hérlendis ef tekið er mið af kærum. Árið 2003 var aðeins sakfellt fyrir dómi í 5 af 103 kærumálum til lögreglu vegna nauðgana. Á sama tíma var ákært og sakfellt í langflestum kærðum líkamsárásarmálum. Sérfræðingur Mannréttinda-nefndar Sameinuðu þjóðanna hefur spurt íslensk stjórnvöld þeirrar spurningar hvort þau telji að allar konur sem kæra nauðgun séu að ljúga eða hvort það sé í raun þannig að yfirvöldum standi á sama um kynferðisbrot. Stjórnvöld hafa sýnt í verki að þeim stendur á sama.
Áföll í kjölfar nauðgunar má líkja við áföll sem einstaklingar verða fyrir í kjölfar stórfelldra náttúruhamfara, stríðsátaka og stórslyss. Þessum áföllum fylgja oft sterk viðbrögð sem kallast áfallastreituröskun. Tímabundnar eða varanlegar andlegar afleiðingar nauðgana eru augljósar og þekktar og mun alvarlegri og síður læknanlegar en líkamlegir áverkar eftir meiriháttar líkamsárásir. Þessar afleiðingar hafa til þess verið lítt eða ekkert rannsakaðar. Komi þær fram eru löglíkur fyrir því að nauðgun hafi verið framin.

Ályktun vegna fyrirhugaðra stóriðju- og virkjanaframkvæmda í þágu stóriðju
Í ljósi þeirra víðtæku afleiðinga sem stóriðjustefna undanfarinna ára hefur haft fyrir landið allt og íbúa þess, er ljóst að afdrifaríkar ákvarðanir á þessu sviði geta ekki verið einkamál einstakra sveitarfélaga. Stóriðjustefnan og virkjanaframkvæmdir í þágu stjóriðju eru á kjörseðlum landsmanna 12. maí.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur engan veginn nægjanlegt að láta aðeins kjósa um afmarkaða skipulagsþætti s.s. deiliskipulag lands í einstaka sveitar-félögum eins og nú stendur til í Hafnarfirði vegna álbræðslunnar í Straumsvík.
Flokksráðsfundurinn leggst gegn fyrirhugaðri stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, áformum um byggingu álbræðslu í Helguvík og við Húsavík, virkjana í neðrihluta Þjórsár, Jökulsánna í Skagafirði, jarðvarmavirkjana á Reykjanesskaga, Hengilsvæðinu og Þingeyjarsýslum.
Ákvörðanir um byggingu og stækkun álbræðslu og virkjanaframkvæmdir í þágu stóriðju munu hafa veruleg áhrif á náttúru Íslands, umhverfi og efnahag um landið allt. Það er ekki einkamál sveitarfélagsins Hafnarfjarðar, Norðurþings, Reykjanesbæjar eða annarra að taka einhliða ákvörðun um virkjanakosti eða um nýtingu auðlinda fjarri sinni heimabyggð. Ákvarðanir sem binda hendur þjóðarinnar á öðrum sviðum, ógna stöðugleika efnahagslífsins og breyta náttúru, ásýnd og ímynd lands.

Greinargerð:
Það er verkefni sveitarstjórna að framfylgja stefnu sinni með deiliskipulagstillögum. Eðlilegt og skylt er að spyrja almenning um afstöðu til grundvallarmála og um meiriháttarmál með almennum íbúakosningum. Á þeim forsendum má síðan móta tillögur og stefnu í anda niðurstöðunnar.
Afstaða fólks mótast ekki aðeins af því hvort lóðamörk séu á þennan eða hinn háttinn, hvort byggingar séu fallegar, allar málaðar í felulitum eða hljóðmön aðlaðandi.
Afstaða fólks til stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík, byggingar álbræðslu í Helguvík, byggingar álbræðslu við Húsavík, uppbyggingar álgarðs í Þorlákshöfn eða enn fleiri virkjana fyrir stóriðju í Neðri-Þjórsá, Jökulsánum í Skagafirði, vatnsfalla í Þingeyjasýslu og jarð-varmavirkjana um allan Reykjanesskaga og á Hengilsvæðinu byggist á mörgum mismunandi þáttum. Að stórum hluta mótast hún fyrst og fremst á afstöðu til umhverfisins, líklegri mengun að lokinni stækkun og byggingar álbræðslna vítt og breytt um landið, virkjana vegna fyrirhugaðrar stækkunar og nýbygginga og mengunar af völdum raflína frá virkjunarstöðum til stóriðjuverksmiðja þvert á verðmætt byggingarland sveitarfélaga og annarra áhrifa sem slíkar framkvæmdir hafa, til tuga ára og lengur.