Dagskrá

Föstudagur 15. janúar

16.30 Mæting á KEA
17.00 Félagar í VG á Akureyri bjóða gesti velkomna
17:15 Kolbeinn Stefánsson flytur erindið „Alræði markaðarins – náttúrulögmál eða
hagsmunir auðvaldsins?“
18.00 Katrín Jakobsdóttir setur flokksráðsfund og kynnir drög að ályktunum
18.15 Steingrímur J. Sigfússon fer yfir málefni líðandi stundar
18.30 Matarhlé sem hefst með léttum veitingum í boði VG á Akureyri í nýjum húsakynnum við Brekkugötu
20.30 Almennar stjórnmálaumræður
22.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 16. janúar

9.00 Fundi framhaldið – Almennar stjórnmálaumræður
12.00 Hádegisverður
13.30 Afgreiðsla ályktana
15.00 Fundi slitið

Ályktanir fundarins

Grunngildi VG í ríkisstjórn
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Akureyri 15.-16. janúar
lýsir yfir fullum stuðningi við störf ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar og telur áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf flokkanna vera kjölfestu fyrir samfélagið í gegnum erfiða tíma.

Meginverkefni núverandi ríkisstjórnar er uppgjör vegna hrunsins og endurmótun íslensks efnahagskerfis með velferðarsamfélag í anda hinna norrænu velferðarsamfélaga að leiðarljósi. Tryggja verður að á næstu árum verði í stjórnarráði landsins stjórn sem kennir sig við velferð og að óheftri frjálshyggju síðustu 18 ára verði úthýst til frambúðar.

Hrun bankakerfisins haustið 2008 skildi eftir risavaxin og fordæmalaus úrlausnarefni fyrir íslenskt samfélag að takast á við. Í Alþingiskosningum sem fram fóru í apríl sl. veittu kjósendur minnihlutaríkisstjórn Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni fullt umboð til þess leiða áfram vinnu við úrlausn þeirra. Nú þegar hefur meirihluti þessara flokka náð miklum árangri á skömmum tíma við afar erfiðar aðstæður í þeim endurreisnarstörfum sem hún var kosin til. Má þar nefna hækkun vaxtabóta, heimild til útgreiðslu séreignasparnaðar, frestun allra nauðungaruppboða auk fjölbreyttra úrræða fyrir þá sem glíma við greiðsluerfiðleika. Þá hefur verið lögð áhersla á að efla og auka trúverðugleika eftirlitsstofnanna, t.d. með nýrri og faglegri yfirstjórn í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og vinnu við breytingu laga um fjármálafyrirtæki auk þess að stórefla embætti sérstaks saksóknara. Endurreisn bankakerfisins hefur verið lokið á mun hagstæðari hátt fyrir ríkissjóð en nokkurn hafði órað fyrir, með 250 milljörðum króna minni beinum fjárútlátum en áætlað hafði verið. Einnig hefur tekist að koma böndum á ríkisfjármálin þannig að afkoma ríkissjóðs er mun betri en á horfðist. Auk þessa hefur tekist að tryggja þau lán sem þurfti til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.

Mikilvægt er þó að hafa í huga að verkefnið er tímafrekt, að góðir hlutir gerast hægt, og að flokkurinn mun þurfa á öllu sínu þreki og samstöðu að halda í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi. Ekki má gleyma því að oft eru á því skiptar skoðanir hvernig best verði á málum haldið en mestu skiptir að sú lýðræðislega umræða verði til að styrkja hreyfinguna á erfiðum tímum og að ríkisstjórnin haldi ótrauð áfram með sín meginmarkmið að leiðarljósi.

Í tíð ríkisstjórnarinnar hafa ýmiss framfaramál náð fram að ganga sem ekki hefði orðið án þátttöku Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ríkisstjórn og því ber að að fagna. Skal þar fyrst nefnt afnám hinna alræmdu eftirlaunalaga sem og nýtt tekjuskattskerfi sem mun verja hina tekjulægstu fyrir skattahækkunum og dreifa byrðunum á réttlátari hátt en áður. Þá má einnig nefna jöfn hlutföll kynja í ríkisstjórn, hærri grunframfærslu námslána, skýra og metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, kaup á vændi hafa verið bönnuð, stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefur verið samþykkt, lög sem bæta stöðu sprotafyrirtækja hafa verið samþykkt, ákveðið hefur verið að leggja niður Varnarmálastofnun og svona mætti lengi telja.
Í því endurmótunarstarfi sem flokkurinn tekur þátt í eiga þau gildi sem flokkurinn leggur til grundvallar samfélaginu: félagslegt réttlæti, friðarstefnu, kvenfrelsi og umhverfisvernd í anda sjálfbærrar þróunar að liggja til grundvallar. Með þeim hætti verður hægt að reisa nýtt Ísland.

Flokksráðfundur lýsir yfir fullu trausti á að ráðherrar og aðrir kjörnir fulltrúar hreyfingarinnar haldi áfram að takast á við erfið verkefni af festu og með grunngildi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að leiðarljósi.

Fjölmiðlar
Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.-16. janúar 2010, lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu fjölmiðla á Íslandi. Mikill samdráttur á fjölmiðlamarkaði hefur leitt til þess að blaðamönnum er sniðinn óheyrilega þröngur stakkur. Álag á fjölmiðlum er mikið og þeir blaðamenn sem enn ekki hafa orðið niðurskurðarhnífnum að bráð búa við mikið atvinnuóöryggi, sem aftur leiðir til þess að þeir geta átt erfitt með að standa vörð um sjálfstæði sitt gagnvart yfirmönnum sínum og eigendum fjölmiðlanna, bæði varðandi efnistök og óraunhæfar kröfur um vinnutíma og afköst. Fjölmiðlum er nú grímulaust beitt sem áróðurstækjum eigenda sinna. Ráðning ritstjóra Morgunblaðsins og sviptingar í mannahaldi þar og á fleiri miðlum eru skólabókardæmi um slíkt. Rekstur og tilgangur 365 miðla er illskiljanlegur í ljósi hrunsins og framtíð allra miðla óviss.

Ljóst er að mikið bakslag hefur orðið í jafnréttismálum innan fjölmiðlanna. Hæfum og reyndum konum hefur verið sagt upp störfum á sama tíma og karlar með minni reynslu og menntun eru keyptir milli miðla. Skortur á konum í fjölmiðlastétt leiðir einnig til þess að konum fækkar í hópi viðmælenda fjölmiðla, sem er háalvarlegt á tímum sem þessum þegar endurmótun íslensks samfélags á sér stað. Konur verða að vera þátttakendur í henni til jafns á við karla.

Þá hefur bæði núverandi og fyrrverandi formanni Blaðamannafélags Íslands og varaformanni félagsins, sem allar eru konur, verið sagt upp störfum með stuttu millibili. Á sama tíma voru aðrir blaðamenn, allt karlar, ráðnir til starfa á viðkomandi fjölmiðlum. Þetta eru ekki góð skilaboð til stéttarinnar og stéttarbaráttu blaðamanna. Vinstri græn hvetja fag- og stéttarfélög blaðamanna til dáða í baráttu fyrir frjálsri fjölmiðlun á Íslandi, enda er hún hornsteinn lýðræðisins og tjáningarfrelsisins. Blaðamönnum verður að tryggja uppsagnarvernd með lögum, svo öflug, gagnrýnin blaðamennska hætti að vera ávísun á brottrekstur, eins og nú hefur verið raunin. Einnig þarf aukna lagavernd fyrir þá sem veljast til trúnaðarstarfa fyrir stéttina.

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs áréttar mikilvægi þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að búa svo um hnútana að hér geti frjálsir fjölmiðlar þrifist. Að sama skapi er mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og það hlutverk sem því er ætlað í íslensku samfélagi. Lagaumgjörð, stjórnun og rekstrarfyrirkomulag sem nú gildir um RÚV, hefur ekki tryggt hlutverk miðilsins, sem virðist undir sömu sök seldur og aðrir miðlar. Stjórnendur RÚV hafa heldur ekki borið gæfu til að skilja hlutverk stofnunarinnar. Áherslan er áfram á ungar, vellaunaðar sjónvarpsstjörnur, forstjóralaun og jeppa, og niðurskurðartillögur ganga helst út á tilraunir til að losna við láglaunaða, reynda útvarpsmenn, sem ætti að öðrum ólöstuðum helst að halda í.

Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hvetur ráðherra flokksins og þingmenn til áframhaldandi baráttu í þágu góðrar og frjálsrar fjölmiðlunar á Íslandi. Nú þarf að lyfta grettistaki. Nú þarf róttækni.

Grunnnet símans
Flokksráðstefna haldinn á Akureyri 15. og 16. janúar 2010, beinir því til ríkisstjórnarinnar að leitað verði leiða til þess að ríkið eignist Mílu, grunnnet Símanns.

Orkufyrirtæki í almenningseigu
Flokksráð ályktar að öll stærri orkufyrirtæki landsins skuli vera í almenningseigu og hvetur fulltrúa sína og flokksfélaga til að vinna að því.
Lagasetning um tryggt eignarhald á auðlindum

Flokksráð samþykkir að beina því til ríkisstjórnarinnar að hefja markvissan undirbúning að lagasetningu sem tryggi eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum til lands og sjávar. Þessu verki verði flýtt sem nokkur kostur er. Áform um endurmótun efnahagslífsins taki mið af því að ekki þurfi að koma til fórnir auðlinda og náttúruperlna til að bjarga þjóðinni út úr kreppunni.
Mótmælum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu

Flokksráð fordæmir alla tilburði í átt til einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu og undrast þá ákvörðun að bjóða eigi út rekstur á nýju hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut sem tekur við sameinaðri starfsemi á hjúkrunarheimilunum á Vífilsstöðum og Víðinesi sem á að loka. Þá ítrekar flokksráðið andstöðu sína við hugmyndir um einkarekin sjúkrahús eins og t.d. hafa komið fram í Mosfellsbæ. Einkarekstur heilbrigðisstofnanna er andstætt stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og það er því samkvæmt stefnu flokksins sem flokksráð fordæmir slíkar áætlanir. Flokksráð krefst því að fulltrúar flokksins í ríkisstjórn komi í veg fyrir útboð og rekstur af þessu tagi. Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs leggur áherslu á að heilbrigðisstofnanir landsins eigi að vera reknar af hinu opinbera.

Landbúnaður og sjálfbærni
Flokksráðsfundur VG haldinn á Akureyri 15.-16. janúar 2010 beinir því til ráðherra og þingmanna flokksins að beita sér af alefli fyrir þeim stefnumálum flokksins að tryggja sem best fæðuöryggi þjóðarinnar og eflingu lífræns landbúnaðar og stuðla jafnframt að því að ávallt sé sjálfbærni höfð að leiðarljósi við atvinnusköpun og orkunýtingu í landinu.

Farfuglasamningur
Flokksráðsfundur VG 15.-16. janúar 2010 haldinn á Akureyri skorar á umhverfisráðherra að vinna að því að Ísland gerist aðili að „African Eurasian waterbird agreement“ (AEWA). Markmið samningsins er vernd votlendisfugla og búsvæða þeirra. Aðild að samningnum gefur Íslandi tækifæri til þess að vernda íslenska fuglastofna á vetrarstöðvum þeirra í Evrópu og Afríku.

Endurheimt á votlendi
Flokksráðsfundur VG 15.-16. janúar 2010 lýsir yfir ánægju og stuðningi við áherslur umhverfisráðuneytisins um endurheimt votlendis í samningsgerð alþjóðlegs loftslagssáttmála. Fundurinn leggur til að settur verði aukinn kraftur í endurheimt votlendis á Íslandi.

Frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála
Flokksráðsfundur VG haldinn á Akureyri 15.-16. janúar 2010 leggur til að stutt verði betur við frjáls félagasamtök á vettvangi umhverfismála. Í þessum félagasamtökum eru þúsundir einstaklinga og gegna þau gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu með því að vinna að náttúruvernd, umhverfismálum og fræðslu um umhverfismál.

Endurskoðun stjórnarráðsins
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.-16. janúar 2010, skorar á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu stjórnarráðsins verði enduskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin.

Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára.
Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.

Aukið lýðræði, gagnsæi og bætt stjórnsýsla
Flokksráð VG beinir því til ráðherra og alþingismanna VG að flýta lýðræðisumbótum og auka gagnsæi í stjórnsýslunni. Efla þarf eftirlitsstofnanir og tryggja lýðræðisleg, opin og gagnsæ vinnubrögð.
Mikilvægt er að það stefnumál flokksins að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga. Einnig er mikilvægt að efla Alþingi sem löggjafarsamkomu þar sem lagasmíð fer fram og ákvarðanir eru teknar.
Þessi brýnu framfaramál eru nauðsynleg til að ryðja burt þeim ólýðræðislegu hefðum sem fyrri ríkisstjórnir hafa fest í sessi.

Sparisjóðir
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn á Akureyri, 15-16. janúar 2010 beinir því til þingflokks VG og fulltrúa flokksins í viðskiptanefnd Alþingis að hefja nú þegar endurskoðun laga um fjármálafyrirtæki með það meðal annars að markmiði að taka að nýju upp í lög ákvæði um 5% takmörkun á atkvæðarétt stofnfjáreigenda í sparisjóðum.

Öflug heilbrigðisþjónusta og heilsugæsla um land allt
Flokksráðfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs haldinn á Akureyri 15. og 16. janúar 2010, ítrekar mikilvægi öflugrar heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu um allt land.
Fundurinn lýsir áhyggjum sínum af þeim mikla niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðiskerfinu og má ekki verða til þess að skaða grunnbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfisins til frambúðar.
Fundurinn leggur sérstaka áherslu á að standa vörð um þjónustuna í hinum minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og að tryggja ljósmæðraþjónustu fyrir allar konur, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Kanna ber kosti þess að embætti héraðsljósmóður verði tekið upp að nýju
og ljósmæður skipaðar í héruð.

Fundurinn skorar á þingmenn flokksins og heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir beinni aðkomu heimamanna að ákvörðunum sem teknar eru um heilbrigðisþjónustu. Slík aðkoma er mjög mikilvæg nú þegar ljóst er að standa þarf fyrir sársaukafullum aðgerðum.
Hætt er við að illa ígrundaður niðurskurður skili ekki tilætluðum þjóðhagslegum sparnaði, heldur auki útgjöld sjúklinga, sveitarfélaga eða Atvinnuleysistryggingasjóðs og muni þess utan hafa veruleg áhrif á þá samfélagsgerð sem íslenskar fjölskyldur hafa búið við.

Ályktun um ESB
Flokksráðið ítrekar andstöðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að nú hafi verið sótt um aðild að sambandinu, er það eindreginn vilji flokksráðs að Ísland haldi áfram að vera sjálfstætt ríki utan Evrópusambandsins.
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur ráðherra, þingmenn og félagsmenn Vinstri grænna um allt land til að halda stefnu flokksins um andstöðu við aðild Íslands að ESB á lofti og berjast einarðlega fyrir henni.
Í ljósi afstöðu flokksins telur flokksráðið brýnt að til verði fastur farvegur skoðanaskipta um Evrópumál á vettvangi flokksins og hvetur til ítarlegrar umfjöllunar um þau, m.a. með málþingum og málefnastarfi. Flokksráðið felur stjórn flokksins að skipa sérstakan starfshóp til að fylgjast grannt með því ferli sem nú er í gangi og tryggja upplýsingaöflun innan flokksins og til að starfa með þingflokki og fulltrúum flokksins í utanríkismálanefnd að Evrópumálum. Flokksráðið leggur sérstaka áherslu á gegnsæi í umsóknarferlinu og hvetur til opinna umræðu- og fræðslufunda um ESB þar sem öll sjónarmið, kostir og gallar, eru dregin fram.

Ályktun um hernaðarmál
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir ánægju með áherslur ríkisstjórnarinnar um að Ísland skuli friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og að hafinn sé undirbúningur að niðurlagningu Varnarmálastofnunar. Þeim fjármunum sem er varið til þátttöku landsins í hernaðarmál væri betur varið í mikilvæg velferðarmál. Flokksráðið minnir á stefnu flokksins um að Ísland skuli standa utan Atlantshafsbandalagsins og annarra hernaðarbandalaga og Ísland eigi að vera málsvari friðar og afvopnunar í heiminum. Ísland er herlaus og friðsöm þjóð og á ekki að styðja styrjaldir ríkja þegar þau ráðast á aðrar þjóðir, heldur á Ísland að fordæma slíkt. Flokksráðið hvetur til að fram fari rannsókn á stuðningi Íslands við innrásina í Írak eins og þingmenn flokksins hafa lagt til.

Atvinnumál
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.-16. janúar 2010 ítrekar mikilvægi kynjasjónarmiða við forgangsröðun í atvinnumálum.
Nauðsynlegt er að huga að hagsmunum beggja kynja við atvinnusköpun á vegum hins opinbera, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Fyrst og fremst þarf að reyna að koma í veg fyrir frekari uppsagnir, en huga að fjölbreyttum atvinnuátaksverkefnum á sama tíma með framtíðarhagsmuni samfélagsins í heild að leiðarljósi. Reynsla frá öðrum löndum sýnir að á krepputímum eru konur líklegri en karlar til að glíma við langvarandi atvinnuleysi, sem aftur leiðir til bakslags í jafnréttismálum. Slíkt má ekki henda hér á landi.
Koma þarf í veg fyrir að niðurskurður á velferðarkerfinu komi niður á atvinnuþátttöku kvenna. Fjölbreytt og blómstrandi atvinnulíf byggist á þátttöku allra.

Ítrekaðar eru áherslur flokksins í atvinnumálum eins og þær birtast í stefnu og ályktunum flokksins á flokksráðsfundum og síðasta landsfundi.Fundurinn leggur áherslu á að við mótun og framkvæmd atvinnu og byggðastefnu á vegum stjórnvalda þ.m.t byggðaáætlunar og sóknaráætlunar verði kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi.