Dagskrá

Föstudagur 20. maí

16:00 Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksráðs, setur fund og kynnir umræður af málefnaþingum
16:30 Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ræðir stjórnmálaástandið
17:00 Starfshópar:

• Umhverfismál með áherslu auðlindamál og orkumál
• Félagslegt réttlæti með áherslu á nýja húsnæðisstefnu
• Kvenfrelsismál með áherslu á kynjaða hagstjórn
• Utanríkismál með áherslu á málefni Norðurslóða

18:30 Matarhlé
19:30 Kynning ályktana
20:00 Almennar stjórnmálaumræður
22:30 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 21. maí

10:00 Afgreiðsla ályktana
12:00 Fundi slitið

Ályktanir fundarins

Ályktun um stuðning við ríkisstjórnina
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn á Grand Hóteli dagana 20. til 21. maí 2011 lýsir yfir eindregnum stuðningi við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og hvetur þingmenn flokksins til áframhaldandi góðra verka í þágu lands og þjóðar.

Meirihlutastjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar hefur nú starfað í rúm tvö ár og kjörtímabilið er hálfnað. Á undan fór samstarf flokkanna í minnihlutastjórn frá 1. febrúar 2009 og fram á vor. Þessi tími hefur að sjálfsögðu markast mjög af þeim erfiðu og fordæmalausu aðstæðum sem uppi voru þegar efnt var til stjórnarsamstarfsins og glímunni við margvíslegar afleiðingar efnahagshrunsins. Má þar helst nefna erfiða stöðu ríkissjóðs, endurreisn bankanna og efnahagsmál almennt, stóraukið atvinnuleysi, skuldavanda heimila og fyrirtækja, Icesave-málið og fleira. Ekkert þessara mála hefur þó reynst flokknum eða ríkisstjórninni ofviða og þvert á allar hrakspár verður endurreisnarstarfinu haldið markvisst áfram. Horfur fara nú batnandi og staða Íslands er orðin allt önnur og betri en þegar hér var allt eins búist við þjóðargjaldþroti fyrir tveimur árum.

Á þessum rúmu tveimur árum hefur einnig náðst ótvíræður árangur í fjölda mála sem eru í samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Má þar meðal annars nefna róttækar breytingar á skattakerfinu sem miða að því að verja kjör þeirra sem minnstar tekjur hafa og dreifa skattbyrðinni á réttlátan hátt. Aukinna tekna hefur verið aflað með hækkun skatta á fjármagnstekjur, hagnað fyrirtækja og stóreignafólk, kolefnisskattur og breytt skattlagning umferðar hafa gert skattkerfið grænna, hlúð er að nýsköpun með skattaívilnunum og auðlindagjöld hafa verið og verða áfram aukin.

Þá hafa verið gerðar ýmsar breytingar í mannréttinda- og dómsmálum sem varða skipan dómara, ein hjúskaparlög, sænsku leiðina í vændiskaupum, aðgerðaáætlun í mansali og umbætur í málefnum útlendinga. Frumvarp um austurrísku leiðina hefur verið lagt fram. Átak hefur verið boðað í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum auk ýmissa samgönguframkvæmda um land allt.
Í menntamálum hafa verið unnar nýjar aðalnámskrár þar sem inn koma nýir grunnþættir í menntastefnu landsins, þ.á m. lýðræðismenntun, menntun til sjálfbærni og jafnréttismenntun. Ráðist hefur verið í átak til að opna framhaldsskólana og grunnframfærsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið hækkuð um þriðjung á þessum tveimur árum auk þess sem hin óréttláta krafa um ábyrgðarmenn á námslánum sem vann gegn jafnrétti til náms hefur verið afnumin. Þá hefur náðst samkomulag við sveitarfélögin um að ríkið taki við framhaldsstigi í tónlistarnámi og efli það sem hefur lengi verið á stefnuskrá Vinstri-grænna.

Í umhverfismálum hefur grettistaki verið lyft, m.a. með því að veita fjármagni til úrbóta á friðlýstum svæðum, friðlýsingu Langasjávar og staðfestingu verndaráætlana Vatnajökulsþjóðgarðs, Mývatns og Laxár. Þá hefur verið mælt fyrir frumvarpi um fullgildingu Árósasamningsins.

Flokksráðsfundurinn fagnar nýgerðum kjarasamningum og sérstaklega bættum kjörum lágtekjuhópa. Mikill árangur í ríkisfjármálum á fyrri hluta kjörtímabilsins og það hvernig tekist hefur að draga úr hallarekstri ríkissjóðs gerir nú kleift að skila sambærilegum hækkunum til tekjulægstu hópa samfélagsins og um samdist í almennum kjarasamningum. Stóraukin framlög til vaxtabóta upp á 36 milljarða króna samtals árin 2011 og 2012 handa skuldsettum heimilum ásamt auknum kaupmætti vegna kjarasamninga eru mikilvægar vörður á leið landsins frá efnahagshruninu 2008.

Nú skiptir miklu að ljúka samningum við opinbera starfsmenn og tryggja að vinna undanfarinna tveggja ára skili sér í áframhaldandi árangri á síðari hluta kjörtímabilsins.

Fundurinn fagnar enn fremur nýjum frumvörpum um grundvallarkerfisbreytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem m.a. óumdeild yfirráð íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum eru tryggð, meint eignaréttarlegt samband útgerða á nytjastofnum landsins er rofið og strandveiðar og byggðatenging aflaheimilda aukin. Ríkisstjórnin er hvött til að hvika ekki frá áformum um að koma þeim breytingum í heila höfn.

Fundurinn ítrekar stuðning við ríkisstjórnina og þátttöku Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í henni og mikilvægi þess að áfram verði unnið að vinstri-grænum málum á vettvangi landsmálanna.

Ályktun vegna hernaðaraðgerða NATO í Libýu

Flokksráð VG fordæmir loftárásir NATO í Libýu og skorar á þingmenn VG að bera fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar að lútandi. Árásir á borgaraleg skotmörk, morðárásir á heimili manna og dráp ungra barna eru óverjandi. Þessar hernaðaraðgerðir hafa farið langt út fyrir ramma ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973 frá 17. mars. Jafnframt ítrekar flokksráðið andstöðu VG við aðild Íslands að NATO. NATO er heimsvaldasinnað hernaðarbandalag sem hefur orðið æ árásargjarnara í seinni tíð og þetta eðli þess setur ævinlega mark sitt á hernaðaraðgerðir þess þótt þær séu undir yfirskini friðargæslu eða verndun almennra borgara.

Skipun nefndar sem endurskoði lög og skipulag VG

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík dagana 20. -21. maí 2011 felur stjórn flokksins að skipa fimm manna nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða lög og skipulag flokksins með það að markmiði að styrkja og efla í hvívetna tengsl og áhrif grunneininga hans t.d. svæðisfélaga og flokksráðs.

Áskorun VG til stjórnlagaráðs
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík dagana 20. – 21. maí 2011 skorar á stjórnlagaráð að taka til endurskoðunar þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggja alþingis- og sveitarstjórnarmönnum setu á Alþingi og í sveitarstjórnum án tillits til þess hvort þeir fylgi stefnu þeirra framboða sem standa á bak við þá.

Greinargerð:
Stjórnmálaþátttaka á Íslandi hefur um áratuga skeið verið grundvölluð á tilveru stjórnmálaflokka. Það heyrir til undantekninga hafi menn boðið fram einir sér með það að markmiði að fylkja kjósendum um persónu sína. Samtímis því sem flokksframboð eru einkennismerki íslenskra stjórnmála ber svo við að, samkvæmt stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, þá eru alþingis- og sveitarstjórnarmenn lausir allra mála hvað varðar flokksframboð þau sem staðið hafa á bak við þá í kosningum, samtímis því sem kjörstjórn úrskurðar um réttmæta setu þeirra á Alþingi eða í sveitarstjórnum viðkomandi kjörtímabil. Alþingis- og sveitarstjórnarmenn geta þannig að eigin vilja, í samræmi við eigin sannfæringu hverju sinni, fært sig milli flokka á Alþingi eða í sveitarstjórnum ellegar starfað þar sem utanflokka.

Kjörnir fulltrúar þessir, ef fulltrúa skyldi kalla, nema ef til vill fulltrúa eigin sannfæringar, geta einnig að eigin vilja snúist gegn þeim flokksframboðum sem borið hafa þá á höndum sér í sæti alþingis- eða sveitarstjórnarmanns. Þar geta þeir starfað af hinum mesta fítonskrafti gegn þeim stjórnmálaflokkum sem þeir þannig áður kölluðu sína og gert þeim allt til bölvunar eftir því sem í þeirra valdi stendur hverju sinni sem einn 63, 15, 11, 9, 7, eða jafnvel 5 alþingis- eða sveitarstjórnarmana.

Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru nær undantekningalaust lýðræðislegar opnar hreyfingar kjósenda og jafnframt tæki þeirra, mynduð í því augnamiði að ná fram markmiðum þeim sem greint er frá í lögum og stefnuyfirlýsingum flokkanna, á lýðræðislegan hátt, í lýðræðislegu starfi og á lýðræðislegum forsendum. Með því að kjörnir alþingis- og sveitarstjórnarmenn, í sannfæringarnauð sinni, snúi þetta verkfæri úr höndum flokkanna í beinni andstöðu við vilja þeirra og beiti því gegn þeim, beina þeir spjótum sínum gegn grundvallarmannréttindum lýðræðisþjóðfélags. Grundvallarmannréttindi þessi felast í skýlausum rétti alþýðu að mynda stjórnmálasamtök, taka þátt í kosningum og tryggja þar með markmiðum stjórnmálasamtakanna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þegar alþingis- eða sveitarstjórnarmenn snúast gegn flokksframboðum sínum vega þeir með afgerandi hætti gegn grundvallarmannréttindum, lýðræði og rétti kjósenda. Slík framkoma leiðir til þjóðfélagslegrar upplausnar og vantrúar á möguleika lýðræðis og afturhvarfs til andlýðræðislegra stjórnarhátta. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar slíkri öfugþróun og snýst gegn henni af fullum krafti. Vegur lýðræðis er eini færi vegurinn til farsællar framtíðar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð bindur vonir við að stjórnlagaráð sé sama sinnis.

Vegur lýðræðis er eini færi vegurinn til farsællar framtíðar.
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík dagana 20. -21. maí 2011 lítur svo á að Alþingis- og sveitarstjórnarmenn, þeir er kjörnir voru til setu á Alþingi 2009 og í sveitarstjórnum 2010, af framboðslistum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, séu fulltrúar og skuli vera fulltrúar VG og stefnu þess á kjörtímabilinu. Alþingis- og sveitarstjórnarmenn þessir skulu því lúta lýðræðislegum leikreglum flokksins í öllu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er lýðræðislegt stjórnmálaafl, sem starfar eingöngu með lýðræðislegum hætti, þar sem allir flokksmenn eru jafnir í óskeikulli baráttu fyrir markmiðum flokksins. Markmið VG eru: jafnrétti, jöfnuður, réttlæti, kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd, lýðræði, sjálfstæði þjóðarinnar og friðsamleg sambúð þjóða.

Greinargerð:
Markmiðunum sínum hyggst flokkurinn berjast fyrir og ná með lýðræðislegum hætti. Helsta leið VG að markmiðum þessum er framboð hreyfingarinnar og þátttaka í Alþingis- og sveitarstjórnarnkosningum. Starf og framtíð flokksins eru undir því komin fyrst og fremst að þeir einstaklingar sem valdir eru til setu á Alþingi og í sveitarstjórnum sitji þar sem fulltrúar VG allt það kjörtímabil sem kjör þeirra varðar, án undantekninga. Þeir einstaklingar sem í framboði hafa verið á vegum VG og eiga því setu á Alþingi og í sveitarstjórnum skulu fylgja lýðræðislegum leikreglum hreyfingarinnar í einu og öllu, eigi þeir að teljast fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þar á meðal skulu þeir fylgja ákvörðunum stofnanna flokksins án undantekninga. Telji fulltrúar VG, þeir sem kjörnir hafa verið til setu á Alþingi eða í sveitarstjórnum, að persónuleg sannfæring þeirra leyfi þeim ekki að fylgja ákvörðunum stofnanna flokksins, skulu þeir víkja fyrir varamönnum tímabundið eða að fullu og öllu af Alþingi eða úr sveitarstjórn.

VG er lýðræðisleg opin hreyfing kjósenda og jafnframt tæki þeirra, mynduð í því augnamiði að ná fram markmiðum þeim sem að framan getur á lýðræðislegan hátt, í lýðræðislegu starfi og á lýðræðislegum forsendum. Með því að kjörnir fulltrúar VG, í sannfæringarnauð sinni, snúi þetta verkfæri úr höndum hreyfingarinnar í beinni andstöðu við vilja hennar og beiti því gegn henni, beina þeir spjótum sínum gegn grundvallarmannréttindum lýðræðisþjóðfélags. Grundvallarmannréttindi þessi felast í skýlausum rétti alþýðu að mynda stjórnmálasamtök, taka þátt í kosningum og tryggja þar með markmiðum stjórnmálasamtakanna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þrír fulltrúar VG á Alþingi hafa nú með afgerandi hætti vegið að þessum grundvallarmannréttindum, lýðræði og rétti kjósenda. Slík framkoma leiðir til þjóðfélagslegrar upplausnar og vantrúar á möguleika lýðræðis og afturhvarfs til andlýðræðislegra stjórnarhátta. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar slíkri öfugþróun og snýst gegn henni af fullum krafti. Vegur lýðræðis er eini færi vegurinn til farsællar framtíðar.

VG harmar hegðun þremenninganna
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík dagana 20. – 21. maí 2011 harmar þá ákvörðun þriggja alþingismanna, er kjörnir voru til setu á Alþingi sem fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs árið 2009, að brjóta í berhögg við ákvarðanir stofnanna flokksins um stuðning við ríkisstjórn vinstriflokkanna, og greiða atkvæði með vantrausttillögu gegn henni. Sú ríkisstjórn sem nú situr er ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar – Græns framboðs og Samfylkingarinnar. Ein meginforsenda þess að ríkisstjórn þessi var mynduð var lýðræðisleg ákvörðun stofnanna VG, svo ætti einnig að vera um framhald hennar.

Greinargerð:
Þrír flokksfélagar VG hafa nú misnotað það traust er til þeirra var borið af öðrum flokksfélögum í Alþingiskosningum 2009 og þá aðstöðu sem þeir komust í með setu sinn á Alþingi vegna niðurstöðu kosninganna. Þeir hafa þverbrotið gegn lýðræðislegum vilja og mikilvægustu ákvörðun stofnanna VG á þessu kjörtímabili. Í aðdraganda kosninganna 2009 lagði fjöldi flokksmanna VG um allt land nótt við nýtan dag með það að markmiði að tryggja flokknum sem flesta fulltrúa á Alþingi Íslendinga sem þar ynnu að markmiðum flokksins. Markmiðum grundvölluðum á lýðræðislegri ákvörðunartöku stofnanna flokksins hverju sinni. Sá hörmulegi atburður hefur nú átt sér stað að þrír flokksfélagar hafa með hegðun sinni á Alþingi ákveðið að gefa flokkssystkinum sínum, óeigingjörnum stuðningi þeirra og fölskvalausum trúnaði langt nef, í trausti þess að þeir sitji sem fastast á Alþingi burtséð frá hegðun þeirra sjálfra eða lýðræðislega teknum ákvörðunum félaga þeirra.

Það er einlæg sannfæring fulltrúa á flokksráðsfundi VG að allir félagar VG séu jafnréttháir og allir skuli þeir njóta sömu möguleika hvað það varðar að hafa áhrif á stefnu flokksins og mótun hennar og lúti í því , sem ávallt annars, lýðræðislegum leikreglum. Það er einnig einlæg sannfæring okkar að þeir sem gengið hafa til liðs við flokkinn hafi m. a. gert það á þessum forsendum. Við berum því þá einlægu von í brjósti að flokksfélagar okkar þrír sem sæti eiga á Alþingi og brugðist hafa svo herfilega lýðræðislegum leikreglum flokksins sýni auðmýkt, snúi af villu síns vegar, og fylki sér í raðir lýðræðissinna. Lýðræðissinna sem ávallt hljóta að hlíta lýðræðislega teknum ákvörðunum stofnanna flokksins, jafnvel þótt þær gangi gegn persónulegri sannfæringu þeirra um stundar sakir í einstaka málum – en hverfa af vettvangi að örðum kosti.

Einarður stuðningur flokksráðs VG við ríkisstjórn vinstriflokkanna
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 20. – 21. maí 2011, ítrekar einarðan stuðning sinn við ríkisstjórn vinstriflokkanna. Flokksráðsfundurinn minnir þingmenn, ráðherra sem og aðra kjörna fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á þá ófrávíkjanlegu lýðræðisskyldu þeirra að fylgja í hvívetna stefnu flokksins.
Stefna flokksins grundvallast hverju sinni á ákvörðunum stofnanna flokksins þ. e. landsfundar, flokksráðs, stjórnar, svæðisfélaga og bæjarmálaráða. Fundurinn hvetur til fyllstu samstöðu og einingar allra vinstri- og umhverfisverndarsinna til stuðnings ríkisstjórninni í ötulli baráttu hennar fyrir bættu samfélagi á erfiðum tímum.

Flokkráð VG ítrekar það að Vinstrihreyfingin-grænt framboð er opinn lýðræðislegur stjórnmálaflokkur þar sem ákvarðanir eru teknar á lýðræðislegum forsendum af þar til lýðræðislega kjörnum stofnunum flokksins. Allir flokksmenn skulu jafnir og skulu hafa sömu möguleika hvað það varðar að koma skoðunum sínum á framfæri innan flokksins. Ákvörðunum teknum af stofnunum flokksins skulu allir þeir hlíta sem telja vilja sig fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og þar með kjósenda flokksins. Samskipti flokksmanna VG skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu, ást og kærleika, slíkt er forsenda þess að okkur muni takast að byggja réttlátt samfélag.

Stuðningur við almenningssamgöngur
Flokksráðsfundur VG haldinn 20. til 21. maí 2011 fagnar frumkvæði innanríkisráðherra um stuðning við almannasamgöngur. Óhófleg notkun einkabílsins er óhagkvæm fyrir þjóðarheildina og hefur í för með sér sóun náttúrugæða. En það er nauðsynlegt að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, byggi upp gott kerfi almenningssamgangna þannig að slíkur samgöngumáti verði raunhægur valkostur fyrir alþýðu manna.