Dagskrá

Föstudagur 19. mars

17.00 Setning: Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG

17.15 Flokksstarfið

a) Fjármál, Tryggvi Friðjónsson.

b) Húsnæðismál, Kristín Halldórsdóttir.

c) Starfsáætlun, Kristín Halldórsdóttir.

d) Störf þingflokks, Ögmundur Jónasson.

e) Ung vinstri græn, Oddur Ástráðsson.

f) Starfshópar gera grein fyrir gangi mála.

18.15 Stjórnmál líðandi stundar, Steingrímur J. Sigfússon.

18.45 Matarhlé

19.45 Almennar umræður um stjórnmálin og flokksstarfið

23.00 Fundi slitið.

Ályktanir fundarins

Ályktun um skólagjöld við opinbera háskóla
Hverfum ekki frá hugmyndinni um jafnrétti til náms

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Hótel Loftleiðum föstudaginn 19. mars 2004, skorar á stjórnvöld að efla menntun á Íslandi með þjóðarhag að leiðarljósi og andmælir harðlega öllum hugmyndum um að veitt verði heimild til að taka upp skólagjöld í opinberum skólum á háskólastigi. Jafnframt skorar fundurinn á stjórnvöld að leggja út í endurskoðun á íslensku menntakerfi með það að markmiði að skapa heildstæða menntastefnu til eflingar menntunar á Íslandi. Stjórnvöld verða að hafa kjark til þess að leggja af þá tilvikjanakenndu stýringu sem menntakerfið hefur búið við til margra ára.

Á sama tíma og Íslendingar verja hlutfallslega mun minna fé til háskólastigsins en gert er annars staðar á Norðurlöndum skýtur það skökku við að leysa eigi fjárhagsvanda opinberra háskóla með því að velta honum
yfir á nemendur. Þar með er gert lítið úr þjóðhagslegum ávinningi þess að sem flestir sæki sér nám á háskólastigi, og horfið frá hugmyndinni um jafnrétti til náms. Þá gildir einu hvort þau eiga að vera á grunn- eða framhaldsstigi.

Ennfremur er fólki beint inn á tilteknar námsbrautir sem eru gróðavænlegar að loknu námi enda byggist skólagjaldahugmyndin á því að nemendur eigi eftir að hagnast persónulega á náminu. Á sama tíma standa fyrir dyrum stórfelldar lækkanir á sköttum sem hingað til hafa verið nýttir til að fjármagna samneysluna.

Skólagjöld eru ekkert annað en fjöldatakmarkanir, byggðar á fjárhag, og til marks um innreið frjálshyggju og markaðslögmála í menntakerfi þjóðarinnar.

Drög að ályktun

Með mannréttindum og friði
― gegn hernaðarhyggju

Fundur flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Hótel Loftleiðum föstudaginn 19. mars 2004, ítrekar andstöðu flokksins við hið ólögmæta árásarstríð Bandaríkjamanna og Breta gegn Írak, nú þegar þess er minnst að ár er liðið frá upphafi þess. Fundurinn mótmælir einnig harðlega ákvörðun Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar um að setja Ísland á lista yfir stuðningsaðila ólögmætrar innrásar og valdatöku í Írak án samráðs við Alþingi og í óþökk meirihluta þjóðarinnar. Þó seint sé ber Íslendingum sóma síns vegna að falla frá þeim stuðningi enda beitt blekkingum og lygum til að ginna auðtrúa ráðamenn til stuðnings við stríðið.

Eins og sorgleg dæmi að undanförnu sanna hefur herská stefna Bandaríkjamanna og stuðningsaðila þeirra og stríðin í Afganistan og Írak engum árangri skilað í baráttu gegn hryðjuverkum heldur gert illt verra. Aðferðafræðin er röng í grundvallaratriðum. Eina varanlega lausnin er að ráðast gegn þeirri örbirgð, misskiptingu og kúgun sem birtist m.a. í hernámi, aðstæðum flóttamanna, mannréttindabrotum og megnu hatri sem skapa jarðveg fyrir ofstækishreyfingar og hryðjuverkastarfsemi. Ranglæti heimsins verður ekki útrýmt með því að láta sprengjum rigna af himnum yfir vanþróuð lönd. Þá er ljóst að lykillinn að bættum samskiptum Arabaríkja og Vesturlanda er að endi verði bundinn á ólöglegt hernám og ofbeldi Ísraela í garð Palestínumanna.

Það er til háborinnar skammar að núverandi ráðamenn á Íslandi skuli bendla landið við heimskulega og hrokafulla hernaðarhyggju í samskiptum þjóða í stað þess að leggja lóð á vogarskálar friðsamlegra og fyrirbyggjandi aðgerða. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill stórauka virka og raunverulega þróunaraðstoð, jafna lífskjör í heiminum og bæta sérstaklega aðstæður kvenna og barna í þróunarríkjum. Fjármunir sem varið er til að auka menntun, efla lýðræði og mannréttindi, vinna bug á sjúkdómum og leysa vandamál flóttamanna eru líklegir til að skila sér margfalt og leggja grunn að betra ástandi heimsmála til framtíðar. Gengdarlaus fjáraustur í vígbúnað og styrjaldarrekstur hefur gagnstæð áhrif eins og enn er að sannast.

Að lokum mótmælir fundurinn sérstaklega, og lýsir vanþóknun á, tilraunum forsætisráðherra og fleiri talsmanna ríkisstjórnarinnar til að gera út á nýliðna hörmungaratburði á Spáni í örvæntingarfullum tilraunum til að halda í herstöðina á Miðnesheiði.