Dagskrá

Föstudagur 15. nóvember

17.00 Setning, Svanhildur Kaaber varaformaður VG

17.15 Stjórnmálin í aðdraganda alþingiskosninga, Steingrímur J. Sigfússon formaður VG reifar málin og kynnir drög að ályktunum fundarins

17.45 Drögum að málefnahandbók fylgt úr hlaði, ritnefnd: Svanhildur Kaaber, Ármann Jakobsson, Gunnlaugur Haraldsson

18.00 Matarhlé

19.00 Fjármál og flokksstarf, Tryggvi Friðjónsson, Kristín Halldórsdóttir

19.30 Almennar umræður um málefnahandbókina og stjórnmálin í aðdraganda alþingiskosninga

22.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 16. nóvember

09.00 Starfshópar fjalla um málefnahandbók, stjórnmálaályktanir, fjármál og flokksstarf

11.00 Starfshópar skila niðurstöðum. Afgreiðsla ályktana

12.00 Fundarlok

Ályktanir fundarins

Stjórnmálaályktun

Fundur flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 15. og 16. nóvember hvetur forystu flokksins, stjórn, þingflokk og væntanlega frambjóðendur til einarðrar baráttu fyrir myndun velferðarstjórnar og gerbreyttri stefnu í umhverfismálum. Mikilvægt er að róttækar félagslegar áherslur og vernd umhverfis og náttúru verði leiðarljós slíkrar stjórnar. Breyta þarf áherslum í atvinnumálum og hafa fjölbreytni að leiðarljósi, efla og treysta byggð um allt land, auka jöfnuð, lýðræði og félagslegt réttlæti. Ísland á mikla möguleika til að verða í fararbroddi hvað varðar sjálfbæra þróun og sjálfbæra nýtingu auðlinda en til þess þarf að verða gagnger breyting frá núverandi stjórnarstefnu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill treysta sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar og leggja lóð Íslands á vogarskálar afvopnunar og friðarviðleitni.

Fundurinn hvetur til þess að gengið verði til kosninga, fyrst og fremst á grundvelli málefna og að áherslur verði skýrar og afdráttarlausar eins og verið hefur aðalsmerki flokksins hingað til. Markmið Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er gerbreytt stjórnarstefna og flokkurinn er reiðubúinn til samstarfs við önnur stjórnmálaöfl til að knýja þær breytingar fram.

Velferðarstjórn

Brýnt er að snúa vörn í sókn og hefja endurreisnar- og umbótastarf í velferðarmálum eftir langvarandi setu ríkisstjórna sem siglt hafa eftir leiðarljósum nýfrjálshyggjunnar. Verulega sér á íslenska velferðarkerfinu eftir nær 12 ára ríkisstjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og síðan með Framsóknarflokknum. Hverfa verður af braut einkavæðingar í almannaþjónustu og sífelldra kostnaðarhækkana á almenning með komugjöldum, háu lyfjaverði og sjúklingasköttum, skólagjöldum og öðru slíku. Efla þarf á ný undirstöðu velferðarþjónustu, sem byggir á jafnrétti allra og jöfnum aðgangi að menntun, heilsugæslu og nauðsynlegri umönnun án tillits til efnahags.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að leggja beri höfuðáherslu á öfluga undirstöðuþjónustu í heilbrigðiskerfinu, þ.e. heilsugæslu og forvarnir, og bæta aðbúnað langveikra og aldraðra. Forðast ber að íslenska heilbrigðisþjónustan þróist í átt að tvöföldu kerfi með tilheyrandi mismunun og óheyrilegum kostnaði fyrir þjóðarbúið í heild.

Á sviði menntamála þarf að hverfa frá braut skólagjalda og leggja höfuðáherslu á jafnan aðgang og jafnrétti til fjölbreytilegs náms. Flokksráðið minnir í því sambandi á tillögur þingsflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um samfellt grunnnám til 18 ára aldurs í heimabyggð. Einnig er mikilvægt að efla nám á háskólastigi í öllum landshlutum og uppbyggingu fjarkennslu. Styrkja þarf framhaldsskólana og efla verkmenntun, símenntun og endurmenntun.

Þörf er fyrir stórátak á félagslegum grunni í húsnæðismálum til að binda enda á það ófremdarástand sem nú ríkir, einkum á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð krefst þess að húsaleigubætur verði hækkaðar og gripið til aðgerða til að bæta stöðu þeirra sem byggja og reka félagslegt leiguhúsnæði. Einnig þarf að auðvelda tekjulágum fjölskyldum og þeim sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þá verður að taka til sérstakrar skoðunar hvernig tryggja má eðlilega endurnýjun húsnæðis á landsbyggðinni þar sem fasteignaverð er lágt.

Bæta þarf lífskjör þeirra í hópi aldraðra og öryrkja sem engar tekjur hafa aðrar en samfélagslaun. Þúsundir einstaklinga og fjölskyldna í landinu eru föst í fátæktargildru sem aðallega orsakast af lágum dagvinnulaunum, veikleikum og götum í velferðarkerfinu og ranglátri skattheimtu. Þörf er á gerbreyttri skattastefnu til kjarajöfnunar, hækka þarf samfélagslaun úr almannatryggingakerfinu og auka möguleika atvinnulausra til endurmenntunar og starfsþjálfunar.

Umhverfi og virkjanir

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram ítarlegar tillögur um hvernig standa beri að ákvörðunum um sjálfbæra þróun og sjálfbæra nýtingu orkulinda landsins í almannaþágu og sátt við umhverfi og náttúru. Fundurinn telur ríkisstjórnina og Landsvirkjun á miklum villigötum í umhverfismálum. Framkvæmdir með tilheyrandi raski eru hafnar á hálendinu norðan Vatnajökuls áður en samningar liggja fyrir við kaupendur að orkunni. Önnur mikilsverð atriði eru ófrágengin. Fundurinn ítrekar þá afstöðu flokksins að gerð Kárahnjúkavirkjunar sé óverjandi vegna þeirra miklu og óafturkræfu náttúruspjalla sem hún hefði í för með sér. Auk þess er framkvæmdin hreint óráð frá sjónarhóli arðsemi og þjóðhagslegrar hagkvæmni.

Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Norðlingaöldumiðlunar í Þjórsárverum er nú í uppnámi. Fram hafa komið rökstuddar ásakanir nokkurra vísindamanna um að þeir hafi verið beittir þrýstingi og niðurstöðum þeirra verið hagrætt við vinnslu endanlegrar útgáfu matsskýrslu. Flokksráðið telur einsýnt að hverfa beri frá öllum hugmyndum um orkumannvirki sem skerða myndi Þjórsárver meira en orðið er. Þvert á móti ber að tryggja ævarandi verndun Þjórsárvera og stækka friðlandið í Þjórsárverum eins og þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt til. Fráleitt er að ætla að fórna dýrmætustu öræfum á Íslandi fyrir stóriðjuframkvæmd. Skerðing friðlandsins í Þjórsárverum gengur gegn ákvæðum náttúruverndarlaga.

Fjölbreytni og nýsköpun – leiðarljós í atvinnumálum

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi þjóðarinnar. Fundurinn minnir á þau sóknarfæri sem felast bæði í nýsköpun í atvinnurekstri og vaxtarmöguleikum hefðbundinna atvinnugreina. Alþjóðlegar kannanir og reynsla nágrannaþjóða sýna að í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sé að finna mikilvæga vaxtarsprota og þar verði hlutfallslega til mun fleiri störf en vænta megi í stóriðju og öðrum stórum fyrirtækjum.

Skapa þarf hagstæð skilyrði til nýsköpunar í atvinnumálum til að koma á fót og starfrækja ný fyrirtæki og tryggja þeim greiðan aðgang að fjármagni. Ekki síst er mikilvægt að huga að starfsskilyrðum atvinnulífs og nýsköpun í atvinnumálum á landsbyggðinni. Þörf er á gerbreyttri stefnu við stjórn fiskveiða þannig að tryggður verði réttur fólksins í byggðum landsins til að nýta þær auðlindir sem búseta þess byggir á til sjávar og sveita. Fundurinn minnir á ítarlegar tillögur flokksins um útfærslu á nýju fiskveiðistjórnunarkerfi.
Mikilvægt er að öll slík nýsköpun í atvinnumálum taki mið af markmiðum sjálfbærrar þróunar atvinnulífsins og samfélagsins alls. Sérstaka áherslu ber að leggja á að virkja frumkvæði kvenna, skapa verðmæti úr hugviti og þekkingu, virkja mannauðinn og þau hráefni íslenskrar náttúru og umhverfis sem til staðar eru og mögulegt er að nýta á sjálfbæran hátt.

Jafnrétti og kvenfrelsi

Til að tryggja langþráð jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi, sem ætti að vera óaðskiljanlegur hluti mannréttinda, þarf að leggja áherslu á velferð, félagslegar lausnir og samfélagshugsun. Einstaklingsvæðing þjóðfélagsins þar sem fólk lætur sig aðra engu skipta er hættuleg jafnréttinu, ávísun á stöðnun og jafnvel afturför. Örva þarf umræðu og efla fræðslu um jafnréttismál í þjóðfélaginu, tryggja þátttöku beggja kynja á öllum sviðum þjóðfélagsins; í starfsstéttum, stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Þá minnir fundurinn á að fjárhagslegt jafnræði kynjanna er nauðsynlegt til að vinna á misréttinu hvort sem er á vinnumarkaði eða inni á heimilunum.

Ein af skuggahliðum hnattvæðingar er að verslun með konur dafnar sem aldrei fyrr. Klámiðnaður með þeirri kúgun og niðurlægingu sem í honum felst að líta á konur sem neysluvöru er orðinn staðreynd á Íslandi. Fundurinn minnir á frumvarp þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um að gera kaup kynlífsþjónustu ólögleg og að refsa beri gerandanum, kaupandanum, en ekki þolandanum.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð byggir á samþættingu vinstristefnu og róttækrar kvennabaráttu, femínisma, og segir hvers kyns kynbundnu misrétti stríð á hendur.

Alþjóðamál

Í alþjóðamálum teflir Vinstrihreyfingin – grænt framboð fram áherslum sínum um friðsamleg samskipti þjóða, afvopnun og lýðræðislega alþjóðasamvinnu á sviði öryggismála. Fundurinn ítrekar þá stefnu flokksins að Ísland eigi að vera herlaust og standa utan hernaðarbandalaga.

Reynslan sýnir að öryggi og friður verða ekki tryggð með vopnum og að misskipting, kúgun og ranglæti kveikja stöðugt nýja elda ófriðar í stað þeirra sem reynt er að slökkva. Hnattvæðing fjármagnsins, framferði fjölþjóðafyrirtækja og ýmissa fjármálastofnana í þróunarríkjunum og síðast en ekki síst yfirgangur hernaðarstórvelda sætir nú alþjóðlegri og vaxandi gagnrýni. Leggja ber áherslu á réttlátar og sanngjarnar leikreglur í viðskiptum, stóraukna þróunarsamvinnu og jafnari skiptingu jarðargæða.

Alþjóðleg deilumál ber að leysa á friðsamlegan hátt en ekki með yfirgangi og hernaði. Stríðsæsingar Bandaríkjamanna hafa sett mark sitt á alþjóðastjórnmál að undanförnu, vakið hörð viðbrögð og virkjað fleiri til þátttöku í mótmælum en sést hefur í áratugi. Fundurinn krefst þess að ríkisstjórn Íslands mótmæli kröftuglega öllum áformum um árásir á Írak og neiti árásaraðilum um leyfi til afnota af íslensku landi.
Í alþjóðasamvinnu ber að leggja áherslu á fullveldi Íslands en efla jafnframt samskipti við aðrar þjóðir í öllum heimshlutum með samstarfi innan lýðræðislegra alþjóðastofnana og tvíhliða samningum við einstök ríki og ríkjasambönd. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar aðild að Evrópusambandinu og leggur áherslu á að nýta þau tækifæri sem bjóðast víðs vegar um heiminn á sviði viðskipta og samvinnu.