Dagskrá

Föstudagur 19. nóvember

16:00 Fundur formanna svæðisfélaga

17:00 Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksráðs, setur fund og kynnir umræður af málefnaþingum

17:30 Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ræðir stjórnmálaástandið

17:50 Bjarkey Gunnarsdóttir, nýr formaður sveitarstjórnarráðs VG, ræðir málefni sveitarfélaga

18:10 Matarhlé

19:00 Kynning ályktana

19:30 Almennar stjórnmálaumræður

22:30 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 20. nóvember

10:00 Afgreiðsla ályktana

12:00 Fundi slitið

Ályktanir fundarins

Ályktun um stuðning við ríkisstjórnina
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík dagana 19.-20. nóvember 2010, lýsir yfir fullum stuðningi við ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar og hvetur þingmenn og ráðherra flokksins til að fylgja ötullega stefnu hans hvað varðar félagslegt réttlæti og jöfnuð, náttúruvernd og sjálfbæra þróun, sjálfstæða utanríkisstefnu og friðarstefnu og kvenfrelsi.

Fundurinn lýsir ánægju sinni með þá framþróun sem samráð stjórnmálaflokka og fjölmargra hagsmunaaðila hefur skilað að lausn á skuldavanda heimilanna. Til viðbótar við frumvarp ríkisstjórnarinnar um gengislán bætast við aðgerðir til handa þeim skuldsettu heimilum sem hafa átt erfitt með að ná endum saman.

Flokksráð fagnar þeim markverða árangri sem ríkisstjórnin hefur náð við erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi. Staða efnahagsmála hefur styrkst og stöðugleiki er að nást með lækkun verðbólgu og vaxta og stöðugu gengi krónunnar. Slíkur stöðugleiki er forsenda kjarabóta fyrir allt samfélagið. Þá ber sérstaklega að fagna þeim árangri sem skattkerfisbreytingar í upphafi árs hafa skilað við að færa skattbyrði af þeim tekjulægri yfir á þá tekjuhærri. Ýmis réttlætismál hafa náð fram að ganga að undanförnu svo sem úrbætur í málefnum hælisleitenda og boðaðar breytingar á réttarvörslukerfinu og er ástæða til að fagna því. Tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru mikilvægt skref í átt að því að skapa nýtt og réttlátt kerfi.

Flokksráð Vinstri grænna hvetur ráðherra flokksins í ríkisstjórn til að fylgja eftir stefnu flokksins í orku- og auðlindamálum með því að tryggja að auðlindir þjóðarinnar verði í hennar forsjá og eigu.

HS Orka komist aftur í almenningseigu og sala hennar verði rannsökuð
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, ítrekar eindregna andstöðu sína við sölu eða langtímaframsal á orkuauðlindum og orkufyrirtækjum. Öll stærri orkufyrirtæki eiga að vera í fullri eigu almennings. Flokksráðsfundur skorar á ráðherra og þingmenn VG að grípa til allra tiltækra ráða svo að HS-Orka komist aftur í almenningseigu í samræmi við fyrri samþykktir flokksráðs og annarra stofnana flokksins. Jafnframt beiti þau sér fyrir því að opinber rannsókn verði hafin á sölu á HS Orku til Magma Energy. Engan undanslátt má gefa frá yfirlýstum loforðum ríkisstjórnarinnar um að undið verði ofan af einkavæðingu HS Orku.

Ályktun um íslenska háskólakerfið.
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, skorar á þingmenn flokksins og ráðherra menntamála sérstaklega að beita sér fyrir því að gerðar séu breytingar á stjórnunar- og fjármálakerfi háskólanna þannig að staðinn sé vörður um akademískt frelsi, lýðræði og jafnrétti innan og meðal háskólastofnana.
Ekkert hermang á okkar vakt!
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, hvetur samgönguráðherra til að gera ljóst að vinstri grænn ráðherra sé tekinn við ráðuneytinu. Undir slíkri stjórn á að vera skýrt að hermangarar fá ekki næði til að þjálfa hermenn hér á landi og starfsemi málaliða sé ekki velkomin hingað. Í því skyni á ekki að þurfa að vísa í hagkvæmnis- eða viðskiptasjónarmið – heldur má andstaða við rekstur fyrirtækisins ECA hvíla á bjargföstum grunni friðarstefnunnar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð starfar eftir.

Ályktun gegn fátækt
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, lýsir yfir áhyggjum sínum af því ef íslenskt samfélag breytist úr því sem kalla má velferðarsamfélag í ölmususamfélag. Við svo búið má ekki standa. Það er brýnasta verkefni vinstri ríkisstjórnar, þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa VG að snúa þessari þróun við. Félagshyggjufólk getur ekki sætt sig við fátækt enda eru það sjálfsögð mannréttindi að allir íbúar landsins fái lifað með reisn, hafi í sig og á og þak yfir höfuðið.
Flokksráðið beinir því til sveitarstjórnarfólks og þingflokks að beita sér fyrir því að öll laun, hvort sem um er að ræða lágmarkslaun, lífeyri, framfærslustyrki eða bætur, verði færð upp fyrir lágtekjumark Hagstofu Íslands sem nú er 160.800 kr. í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling á mánuði. Upphæðin verði endurskoðuð þegar lágmarksframfærsluviðmið liggur fyrir, en ekki er lengur hægt að láta þá sem hafa lægri tekjur gjalda þess að viðmiðið skuli ekki tilbúið.

Gagnsætt bankakerfi – burt með verðtryggingu – þak á vexti
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, skorar á ráðherra og þingmenn flokksins að beita sér fyrir því að stjórnsýsla í bankakerfinu verði gerð gagnsæ og ákvarðanir þar öllum kunnar. Opin aðkoma að vinnu í þrotabúum gömlu bankanna sem og eftirlit með því sem fer fram fer innan bankanna er ein af forsendum þess að hér fái myndast heilbrigðari bankastarfsemi. Skilanefndir verði lagðar niður svo fljótt sem auðið er. Flokksráðsfundurinn krefst þess að tryggður verði með lögum aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingasjóða og að afnumin sé með lögum verðtrygging lána og þak sett á fjármagnskostnað.

Ljósmæðraþjónusta við allar barnshafandi konur tryggð
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, ítrekar fyrri ályktanir um að tryggja skuli öllum konum ljósmæðraþjónustu, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.
Á tyllidögum hreykir Ísland sér af því að vera í fremstu röð með lægsta ungbarnadauða í heimi. Fyrirliggjandi fækkun fæðingarstaða á Íslandi og skerðing á sólarhringsþjónustu ljósmæðra á landsbyggðinni, með tilheyrandi þjónustuskerðingu fyrir barnshafandi konur, grefur undan öryggi þeirra og velsæld. Slíkt er óásættanlegt.

Þegar grundvallar skipulagsbreytingar eru gerðar í barneignarþjónustu landsmanna og hagræða á í kerfinu verður að gera slíkt í nánu samráði við þær fagstéttir sem þjónustuna veita. Grunnforsenda er að fyrir liggi heildarstefnumótun þar sem skipulagsbreytingar skuli stuðla að betri gæðum þjónustunnar og skila raunverulegum sparnaði í heilbrigðiskerfinu þegar til lengri tíma er litið.
Flokksráð beinir því til ráðherra og þingmanna að móta heildstæða stefnu um fæðingarþjónustu landsmanna og gera slíkt í nánu samráði við bæði fagfólk og heimamenn.

Kynferðisbrotadeild verði starfi sínu vaxin
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, lýsir þungum áhyggjum vegna meðferðar kynferðisbrotamála innan lögreglunnar, í ljósi þess að aðeins 3-6% af þeim málum sem upp koma enda með sakfellingu.

Nýleg ummæli ríkissaksóknara og yfirmanns kynferðisafbrotadeildar, sem nýverið hefur snúið aftur til starfa, þar sem ábyrgð á kynferðisbrotum er varpað yfir á þolendur, draga úr trausti almennings á því að réttlátt og fagleg vinnubrögð séu viðhöfð innan réttarvörslukerfisins. Flokksráðsfundur skorar á dómsmála- og mannréttindaráðherra að bæta meðferð kynferðisafbrotamála innan réttarvörslukerfisins og tryggja að brotaþolar geti undantekningarlaust treyst á sanngjarna meðferð þessara mála.

Vændiskaupendur nafngreindir
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, hvetur dómsmála- og mannréttindaráðherra til að tryggja að dómstólar gæti jafnræðis við nafngreiningu afbrotamanna í dómum. Það er með öllu ólíðandi að vændiskaupendur fái að stunda glæpi sína í skjóli nafnleyndar, ólíkt flestum öðrum dæmdum afbrotamönnum.

Ályktun um tekjustofna sveitarfélaga
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, leggur áherslu á að sveitarfélögum verði gert auðveldara að verja grunnþjónustu sína á tímum tekjumissis og útgjaldaauka. Ráðherrar og þingmenn flokksins eru hvattir til að beita sér fyrir hækkun fjármagnstekjuskatts sem renni til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þau sveitarfélög sem ekki fullnýta útsvarsheimildina njóti þó ekki góðs af þessari tekjuaukningu sjóðsins. Aðrir möguleikar á tekjuöflun sveitarfélaga verði jafnframt kannaðir svo sem aðstöðugjald, landsútsvar og umhverfisgjöld.

Ályktun um stjórnarsamstarfið, efnahagsmál og ESB
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, lýsir eindregnum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarf flokksins og Samfylkingarinnar.

Flokksráð fagnar þeim árangri sem ríkisstjórnin hefur náð, þrátt fyrir erfiðar aðstæður, við að ná efnahagslegum stöðugleika, en með honum er lagður grunnur að uppbyggingu íslensks samfélags upp úr frjálshyggjuhruninu. Árangurinn birtist meðal annars í lækkun verðbólgu og vaxta, sterkara og stöðugra gengi krónunnar og að kaupmáttur fer nú vaxandi á nýjan leik. Þessi árangur bendir til að á næstu misserum skapist forsendur fyrir efnahagsbata og úrbætur í kjaramálum. Mikilvægt er að sá efnahagsbati stuðli að auknum jöfnuði í lífskjörum og verði á forsendum náttúruverndar og sjálfbærni – byggi á menntun, sköpun, hugviti og fjölbreytni í atvinnumálum.

Flokksráð fagnar því að þær skattkerfisbreytingar sem gerðar hafa verið í anda stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa sannað gildi sitt og hlíft þeim tekjulægstu við skattahækkunum og leitt til hlutfallslega minni skattbyrði lægri launa.

Flokksráð hvetur til að aðgerðum í þágu skuldsettra heimila og fyrirtækja verði hraðað og leitað verði allra leiða til að draga úr sársaukafyllsta niðurskurðinum í velferðarmálum, ekki síst heilbrigðismálum, án þess að markmiðum um sjálfbærni í ríkisfjármálum sé fórnað. Flokksráð leggur jafnframt áherslu á að við framkvæmd fjárlaga og undirbúning atvinnuátaksverkefna verði sérstaklega hugað að þörfum beggja kynja og svæðum þar sem atvinnuleysi er mest.

Flokksráð áréttar þá afstöðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Flokksráð ítrekar einnig mikilvægi þess að niðurstaða þess umsóknarferlis sem nú stendur yfir verði lögð í dóm þjóðarinnar. Brýnt er að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu fari fram opin og lýðræðisleg umræða í samfélaginu um kosti og galla þeirrar niðurstöðu sem kosið verður um. Flokksráð hvetur stofnanir og kjörna fulltrúa flokksins til að taka virkan þátt í og efla þá umræðu og nálgast hana út frá grundvallarstefnu flokksins. Mikilvægt er að afstaða flokksins komi skýrt fram í þjóðmálaumræðunni í samræmi við það sem kveðið er á um í samstarfsyfirlýsingu VG og Samfylkingar. Til þess að umræðan verði í reynd sanngjörn og lýðræðisleg þarf að nást sátt um skýrar leikreglur sem tryggja jafna stöðu allra sjónarmiða og nái meðal annars utan um kostnað og fjármögnun áróðursstarfsemi. Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild.

Flokksráðið hvetur til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis. 
Flokksráð hvetur forystu flokksins, ráðherra, þingmenn og aðra fulltrúa hans til að sýna samstöðu og vera á varðbergi gagnvart hatrömmum tilraunum hægriaflanna til að reka fleyg í raðir vinstrimanna. Slíkar tilraunir þjóna þeim eina tilgangi að leiða þá sem hvað mesta ábyrgð bera á hruninu aftur til valda. Baráttunni fyrir endurmótun og úrbótum í samfélaginu þarf að halda óhikað áfram og er þátttaka Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í ríkisstjórn forsenda þess að hún vinnist.

Saksókn gegn níumenningum falli niður
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, skorar á dómsmála- og mannréttindaráðherra að hafa, á grundvelli 29. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, frumkvæði að því að forseti Íslands stöðvi þau réttarhöld sem nú standa yfir svokölluðum „níumenningunum“ með því að saksókn fyrir meinta árás á Alþingi skuli niður falla.

Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu verði endurskoðaður
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, haldinn í Reykjavík 19.-20. nóvember 2010, ítrekar fyrri ályktanir um mikilvægi heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu fyrir alla landsmenn óháð búsetu.

Flokksráðsfundur beinir því til ráðherra og þingmanna að endurskoða þann niðurskurð sem boðaður er innan heilbrigðisþjónustunnar.

Þol sumra stofnana er nú þegar komið að endamörkum. Ljóst er að sumar stofnanir, þar á meðal Landspítalinn, stærsta heilbrigðisstofnun landsins, þola ekki niðurskurð umfram þann sem þegar hefur orðið án þess að alvarlega sé vegið að þjónustunni. Sýna þarf fram á að þær heilbrigðisstofnanir sem á annað borð þurfa að sæta niðurskurði séu færar um það án skerðingar þjónustu og uppsagna starfsfólks með tilheyrandi afleiddum kostnaði.

Umtalsverð skerðing á þjónustu jafnhliða fjöldauppsögnum blasir við ef ekki er að gert. Sparnaðartillögur starfsfólks verður að grandskoða áður en lengra er haldið enda er víðtækt samráð og öflug samfélagsleg umræða grunnforsenda þess að vel megi takast til við áframhaldandi þróun heilbrigiðsþjónustu landsmanna.

Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð til að standa vörð um jöfnuð og velferð. Flokksráð VG leggur áherslu á að þessi stefnumarkmið birtist í verki í fjárlögum næsta árs.