Dagskrá

Föstudagur 9. september

17.00 Setning, Katrín Jakobsdóttir varaformaður

17.15 Undirbúningur landsfundar – drög að dagskrá og fyrirkomulagi landsfundar: Svandís Svavarsdóttir framkvæmdastjóri

17.45 Staða málefnavinnu og lagabreytinga fyrir landsfund

  • menntamál
  • heilbrigðismál
  • stefnuyfirlýsing
  • trúfrelsi

18.30 Matarhlé

19.30 Undirbúningur sveitarstjórnarkosninga og staða framboðsmála. Steingrímur J. Sigfússon formaður

19.50 Aðkoma flokksins að sveitarstjórnarkosningum. Svandís Svavarsdóttir

21.30 Umræður dregnar saman. Katrín Jakobsdóttir

22.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 10. september

10.00 Umræður um framlögð gögn varðandi málefni. Katrín Jakobsdóttir stýrir

12.00 Hádegishlé

13.00 Afgreiðsla ályktana og önnur mál

14.30 Fundarlok

Ályktanir fundarins

Ályktun flokksráðsfundar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um efnahagsmál: Reykjavík 9.-10. september 2005

Forusta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur að undanförnu rætt og skoðað sérstaklega stöðu efnahags-, verðlags- og gengismála og fengið til sín ýmsa sérfræðinga á því sviði. Þá hafa efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis fundað sameiginlega og haft efnahags- og gengismál sérstaklega til skoðunar. Einnig hafa fróðlegar upplýsingar komið fram að undanförnu um ruðningsáhrif hinna gríðarlegu stóriðjuframkvæmda og hæpinn þjóðhagslegan ávinning stóriðjustefnunnar, um erfiðleika útflutnings- og samkeppnisgreina og fleira má nefna sem gefur tilefni til að endurmeta áherslur í efnahags- og atvinnumálum, gengis- og verðlagsmálum. Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vill af þessu tilefni leggja áherslu á eftirfarandi:

Ekkert af því sem nú er að gerast þarf að koma á óvart, allra síst stjórnvöldum sem sjálf bera mikla ábyrgð á því jafnvægisleysi sem nú er við að glíma í íslenskum þjóðarbúskap. Meginskýringar jafnvægisleysisins eru:

• Stóriðjustefnan, þ.e. hinar gríðarmiklu samanþjöppuðu framkvæmdir og ruðningsáhrif þeirra í efnahags- og atvinnulegu tilliti. Einnig væntingar sem haldið er við með því að boða viðstöðulaust áframhald stóriðjuframkvæmda í kjölfar þeirra sem nú standa yfir.
• Stórfelldar skattalækkanir á þenslutímum og sérstaklega að lögfesta áframhald þeirra mörg ár fram í tímann með tilheyrandi væntingum.
• Þensla á fasteignamarkaði, sem stjórnvöld bera líka sína ábirgð á.
• Vaxandi misskipting og stóraukinn launamunur sem eðlilega veldur óróleika á vinnumarkaði og ólgu í þjóðfélaginu. Undirstöðustörf í þjóðfélaginu eins og uppeldi og fræðsla barna og ummönnun aldraðra og sjúkra eru hróplega illa launuð með tilheyrandi flótta úr viðkomandi greinum meðan milljarðamæringar fjármálaheimsins og stórfyrirtækjanna skammta sér jafnvel milljónatugi í laun á mánuði hverjum.
• Almennt andvaraleysi gagnvart veikleikum í hagkerfinu, svo sem geigvænlegum viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun heimila, atvinnulífs og sveitarfélaga
• Skeytingaleysi gagnvart óviðunandi rekstrarskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreina og ónógur stuðningur við nýsköpun í almennu atvinnulífi.

Störf tapast nú hundruðum saman á mánuði hverjum vegna Kárahnjúkavandans í efnahagsmálum, t.d. í fiskvinnslu, ferðaþjónustu og útflutnings- og samkeppnisiðnaði. Þetta gerist ýmist með því að starfsemi leggst af og vinnustöðum er lokað eða umsvifin flytjast úr landi. Þá er ekki síður tilfinnanlegt, með framtíðarhagsmuni þjóðarbúsins í huga, að skilyrði til nýsköpunar almennt í atvinnulífinu er nánast ekki fyrir hendi. Margvísleg tækifæri fara því forgörðum og mikill fjöldi starfa verður aldrei til borðið, saman við það sem orðið hefði við eðlilegar aðstæður.

Fráleitt er, eins og ýmsir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna reyna nú að gera, að kenna Seðlabankanum einum um eða skella skuldinni á erlenda spákaupmenn þótt þeir grípi tækifærið eins og fleiri og taki að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og nágrannalandanna.

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur óumflýjanlegt og brýnt að gripið verði til samræmdra aðgerða til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og átelur ríkisstjórnina fyrir háskalegt andvaraleysi. Flokksráðið vísar til tillagna þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá sl. vetri á þingskjali 1014 á 131. löggjafarþingi. (sjá http://www.althingi.is/altext/131/s/1014.html)