Dagskrá

Föstudagur 1. september

17.00 Setning og kynning ályktana, Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG
17.20 Sveitarstjórnarkosningar 2006: Hvað gekk vel og hvað má bæta? – Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður og Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi
17.50 Málefni, flokkar og samstarfsmöguleikar í aðdraganda konsinga – Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG
18.20 Kosningabaráttan og flokksstarfið framundan – Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG
18.45 Matarhlé
19.45 Almennar stjórnmálaumræður
23.00 Fundi frestað til morguns

Laugardagur 2. september

9.00 Hópastarf um kosningabaráttuna framundan;

  • málefnaundirbúningur
  • innra skipulag, verkstjórn, fjármál ofl.
  • framsetning, aðferðir, áróður

10.30 Starfshópar skila niðurstöðum. Umræða og afgreiðsla mála
12.00 Fundi slitið

Strax að loknu hádegishléi hefst ráðstefna sveitastjórnarfulltrúa VG á saman stað sem að sjálfsögðu er opin flokksráðfulltrúum og öðru áhugafólki um sveitastjórnarmál þó það sé ekki kjörið í sveitarstjórn.

Ályktanir fundarins

Ályktun um aukna misskiptingu í valdatíð ríkisstjórnarinnar
Brýnt er að hafist verði handa við að vinda ofan af þeirri misskiptingu og misrétti sem skapað hefur verið í íslensku samfélagi. Þörf er á kraftmikilli baráttu fyrir öflugu samábyrgu velferðarkerfi og jafnlaunasamfélagi í anda þess besta sem þekkist á norræna vísu. Nú er hins vegar svo komið að við stöndum hinum Norðurlöndunum langt að baki. Stórefla þarf velferðarkerfi sem tryggir jafna og góða þjónustu fyrir alla og grípa þarf til tekjujöfnunaraðgerða í skattkerfinu um leið og einkavæðingar- og fákeppnisgróðaöflunum verði settar skorður. Á undanförnum hálfum öðrum áratug hafa ríkisstjórnir undir forystu Sjálfstæðisflokksins beinlínis ýtt undir misskiptinguna með meðvituðum hætti, m.a. með breytingum á skattkerfinu. Hátekjuskattur hefur verið afnuminn, skattar á hlutabréfagróða lækkaður en skattleysismörkum haldið niðri þannig að almennt launafólk og lágtekjuhópar borga hærri skatta en fyrr. Við þetta verður ekki búið lengur og verður að skera upp herör gegn þessari óheillastefnu. Til þess þarf að skipta um ríkisstjórn í landinu.

Tilhögun kosningaundirbúnings:
Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs samþykkir eftirfarandi:
Að landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á árinu 2007 verði, með hliðsjón af alþingiskosningum, haldinn á fyrstu mánuðum ársins en ekki að hausti eins og venjan hefur verið. Minnt er á að samkvæmt lögum VG skal halda landsfund annað hvert ár og ber flokksstjórn að ákveða fundarstað og fundartíma. Þessi tilhögun rúmast því vel innan ramma laga flokksins. Enn fremur er minnt á að landsfundur skal boðaður með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara, mál og tillögur skulu berast flokksstjórn sex vikum fyrir landsfund og kjörbréf fulltrúa á landsfund skulu berast flokksstjórn a.m.k. tveimur vikum fyrir fund.

Þá beinir flokksráðið þeim tilmælum til kjördæmisráða að þau hraði undirbúnings-vinnu fyrir næstu þingkosningar, m.a. með því að ákveða sem fyrst hvernig staðið skuli að uppröðun á lista, hvenær þeir verði afgreiddir og kosningabaráttan undirbúin og skipulögð að öðru leyti. Flokksráð leggur jafnframt til að uppröðun á lista verði í samræmi við kvenfrelsiskafla stefnuyfirlýsingar flokksins og að í undirbúningi kosningabaráttu verði haldin námskeið fyrir frambjóðendur í helstu áherslumálum flokksins.

Flokksráð lýsir stuðningi við þá ákvörðun flokksstjórnar að miðlæg kosningastjórn starfi áfram að undirbúningi þingkosninga. Þegar hefur verið sent út bréf til kjördæmisráða þar sem þau eru beðin um að tilnefna fulltrúa í stjórnina en hún verður eins skipuð, þ.e. einn fulltrúi frá hverju kjördæmi auk sjöunda fulltrúa stjórnar VG sem jafnframt stýrir starfinu.

Ályktun um möguleika lífrænnar framleiðslu
Fundur flokksráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fagnar nýrri skýrslu starfshóps um stöðu og möguleika lífrænnar framleiðslu á Íslandi. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að gríðarleg sóknarfæri liggi í lífrænum aðferðum við framleiðslu matvæla, snyrtivara, vefnaðarvara og hvers kyns náttúruafurða og að Íslendingar eigi þar mikil ónotuð tækifæri.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á lífrænar aðferðir, bæði í landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu sinni, í atvinnu- og byggðamálum almennt og að sjálfsögðu sem lið í heildstæðri umhverfisstefnu. Stefnu sinni hefur flokkurinn m.a. fylgt eftir með ítarlegum og endurteknum tillöguflutningi á Alþingi. Hlutfall lífræns nytjalands hér á landi er einungis 0,3% en er um 4% að jafnaði í löndum ESB og á bilinu 6–15% í þeim löndum sem lengst eru komin á þessu sviði. Mörg nágrannalanda okkar hafa sett sér metnaðarfull markmið í þessum efnum og má nefna að norsk stjórnvöld vinna samkvæmt því markmiði að hlutfall lífræns nytjalands verði 15% árið 2015.

Miklu skiptir að íslensk stjórnvöld taki við sér í þessum efnum enda lífrænar framleiðsluaðferðir mikilvægar fyrir umhverfi og heilbrigði. Nauðsynlegt er að hið opinbera styrki þá bændur myndarlega sem ákveða að skipta yfir í lífrænan landbúnað enda er slík aðlögun ávallt kostnaðarsöm. Ef bændur fá styrk til að komast af stað má búast við góðum árangri þeirra enda vaxandi eftirspurn innanlands eftir lífrænum vörum og að öllum líkindum gríðarlegir ónýttir útflutningsmöguleikar einnig.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hvetur til þess að mótuð verði framsækin stefna og stutt við bakið á þeim sem vilja nota lífrænar framleiðsluaðferðir.

Ályktun um frestun á fyllingu Hálslóns og málsmeðferð fyrrv. iðnaðarráðherra
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir stuðningi við eftirfarandi ályktun flokksstjórnar og þingflokks VG:
„Frá upphafi hefur ríkt óvissa um hve mikil áhætta yrði samfara fyllingu Hálslóns og starfrækslu Kárahnjúkavirkjunar. Vísbendingar um þessa áhættu hafa styrkst mjög að undanförnu. Í ljósi þessa skora stjórn og þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á ríkisstjórnina og stjórn Landsvirkjunar að fresta fyrirhugaðri fyllingu Hálslóns þar til sérstaklega skipuð matsnefnd óháðra aðila hefur verið fengin til að vinna nýtt áhættumat vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þess verði beðið að nefndin skili áliti áður en aðhafst verður frekar enda hér um gríðarlega afdrifaríka ákvörðun að ræða sem ekki verður aftur tekin. Þeir þingmenn og sveitarstjórnarmenn, er samþykktu byggingu Kárahnjúkavirkjunar á viðkomandi vettvangi, bera einnig ríki ábyrgð í málinu. Því samþykkja stjórn og þingflokkur VG jafnframt að leita eftir stuðninigi þessara aðila við ofangreinda kröfu með formlegu erindi.“

Enn fremur leggur fundurinn áherslu á að könnuð verði ábyrgð ríkisstjórnar og einkum þó fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur á því að haldið var leyndum frá Alþingi mikilsverðum upplýsingum, þegar frumvarp um Kárahnjúkavirkjun var þar til umfjöllunar og afgreiðslu. Er þar sérstaklega átt við skýrslu Gríms Björnssonar, jarðfræðings, en ráðherra tjáði sig á þá leið um það mál síðastliðna helgi að athugasemdir Gríms hefðu ekkert erindi átt til Alþingis, þær væru flóknar og tæknilegs eðlis og svo framvegis. Slík viðhorf eru fáheyrð og verkja spurningar um dómgreind og hæfi ráðherrans því auðvitað á þingið að hafa aðgang að öllum upplýsingum sem skipt geta máli og meta sjálft gildi þeirra en ekki framkvæmdavaldið.

Ályktun Flokksráðs VG um brottför hersins og mótun nýrrar utanríkisstefnu
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 1.-2. september 2006 fagnar þeim tímamótum sem eru að verða með brottför hersins. Það er táknrænt að á sama tíma og félagar í VG brýna sig fyrir komandi kosningar er fáni hersetuliðsins á Miðnesheiði dreginn niður fyrir fullt og allt. Nú þarf að veita heimamönnum á Suðurnesjum öflugan stuðning við að nýta þau mannvirki, aðstöðu og tækifæri sem svæðið hefur upp á að bjóða til að byggja upp fjölbreytt og framsækið atvinnulíf og skapa störf í stað þeirra sem hverfa með brottför hersins. Tryggja verður að Bandaríkjamenn hreinsi upp alla mengun sem hersetan skilur eftir sig.
Þá fagnar fundurinn því tækifæri sem þessi tímamót skapa til að hverfa frá fylgispekt við hernaðarhyggju og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Þess í stað verði mótuð sjálfstæð utanríkisstefna á Íslandi byggð á afvopnun og friðarviðleitni og virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðarlögum.

Ályktun um að VG haldi ráðstefnu um lýðræði
Flokksráðstefna Vinstri grænna skorar á VG að haldinn verði ráðstefna um lýðræði í þjóðfélaginu á haustmánuðum.