Umhverfisvænna höfuðborgarsvæði

Oddvitar Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu kynntu í dag sameiginlegar áherslur sínar í umhverfismálum. Vinstri græn leggja áherslu aukið samstarf sveitarfélaganna í umhverfismálum og aðgerðir sem miða að því að gera höfuðborgarsvæðið umhverfisvænna og auka lífsgæði íbúa í nútíð og framtíð.

Þau Bjarki Bjarnason í Mosfellsbæ, Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir í Hafnarfirði, Líf Magneudóttir í Reykjavík og Margrét Júlía Rafnsdóttir í Kópavogi kynntu áherslur sínar á blaðamannafundi í dag og lögðu áherslu á að umhverfismálin yrðu meira rædd fyrir sveitastjórnarkosningarnar á laugardaginn.

 

Helstu atriðin eru eftirfarandi:

  • Átak í uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla á höfuðborgarsvæðinu.
  • Sveitarfélög styðji íbúa við að koma upp hleðsluaðstöðu við heimili.
  • Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinist um aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.
  • Valfrelsi í samgöngum verði aukið og loftgæði bætt með Borgarlínu og fleiri hjólreiðastígum.
  • Sveitarfélögin sniðgangi plast eins og hægt og styðji betur við endurvinnslu þess.
  • Sveitarfélögin standi betur vörð um græn svæði og náttúru á höfuðborgarsvæðinu.
  • Dregið verðu úr sóun með því að gera öllum mögulegt að flokka sorp til endurvinnslu.

 

Átak í uppbyggingu hleðslustöðva

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga í samstarfi við ríkið að ráðast í átak í uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla við opinberar byggingar og bílastæði í almenningseigu. Jafnframt eiga sveitarfélögin að veita íbúum aðstoð og stuðning við að koma upp hleðsluaðstöðu við heimili sín,“ segir Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík.  „Árangursríkasta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er að ráðast í orkuskipti í samgöngum. Það er mikill áhugi hjá almenningi að fara í orkuskipti en lítið aðgengi að hleðslu hindrar þá í því. Þar geta sveitarfélögin lagt sitt að mörkum.“

 

Minna plast, minni sóun og betri endurvinnsla

„Sveitarfélögin eiga að sniðganga plast eins og kostur er og einnota hluti og beita sér fyrir því í innkaupastefnu sinni,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir oddviti Vinstri grænna í Kópavogi. „Plastmengun og sóun er eitt stærsta umhverfisvandamál samtímans og þess vegna verða sveitarfélögin að grípa til aðgerða og stuðla að meiri og betri endurvinnslu, hjá heimilum og fyrirtækjum, þar sem markmiðið er að allir geti flokkað sorp til endurvinnslu.“

 

Valfrelsi í samgöngum eykur lífsgæði

„Við viljum betri almenningssamgöngur til að draga úr mengun og gera fjölskyldum mögulegt að eiga færri bíla. Með Borgarlínunni og áframhaldandi uppbyggingu hjólreiðastíga á öllu höfuðborgarsvæðinu tryggjum við aukið valfrelsi í samgöngum og drögum úr bílaumferð,“ segir Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir oddviti Vinstri grænna í Hafnarfirði. „Þannig getum við stytt ferðatíma, minnkað slit á vegum, dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnkað svifryk.“

 

Sameiginleg aðgerðaráætlun í loftlagsmálum

„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga að móta sameiginlega aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Hér búa næstum tveir þriðju hlutar landsmanna og því bera sveitarfélögin mikla ábyrgð þegar kemur að loftslagsmálum en hafa að sama skapi mörg tækifæri til að ná árangri í þeim ,“ segir Bjarki Bjarnason oddviti Vinstri grænna í Mosfellsbæ. „Við þurfum að horfa heildrænt á málin, til dæmis hvað varðar skipulag, samgöngur og skógrækt.Það skiptir einnig miklu máli að þessi sveitarfélög beiti sér gegn allri mengandi atvinnustarfsemi og standi vörð um verndun náttúrunnar og grænna svæða.“

 

Allar frekari upplýsingar veita:

  • Anna Lísa Björnsdóttir kosningastjóri í síma 659 3804 og netfanginu annalisa@vg.is.