,

Una Hildardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, flutti jómfrúrræðu sína á Alþingi 24 jan. 2018

Virðulegur forseti. Ég vil beina augum þingheims að stöðu samnings Evrópuráðsins um forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi sem undirritaður var í Istanbúl 2011. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta:
„Lagaumhverfi kynferðisbrota verður rýnt með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota. Istanbúl-samningurinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi verður fullgiltur.“
Ég fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að vinna að fullgildingu samningsins. Eftir #metoo-byltinguna kallaði almenningur eftir nauðsynlegum breytingum á lagaumhverfi kynferðisbrota og væri fullgilding samningsins stórt skref í þá átt.
Ofbeldi gegn konum, þar með talið heimilisofbeldi, er ein alvarlegasta tegund kynbundinna mannréttindabrota sem um getur og samfélagsmein hvar sem þess gætir. Istanbúl-samningurinn skuldbindur aðildarríkin til að gera ráðstafanir gegn ofbeldi gegn konum og er því mikilvægt að hann verði fullgiltur hér á Íslandi og þær breytingar gerðar á lögum sem fullgildingin krefst.
Samkvæmt svari ráðherra við skriflegri fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur til þáverandi innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, á 144. löggjafarþingi er greint frá lagabreytingum sem gera þurfi áður en unnt sé að fullgilda samninginn. Síðan segir, með leyfi forseta:
„Því má búast við því að fullgilda megi samninginn þegar fyrrgreind frumvörp ná fram að ganga. Stefnt er að framlagningu þeirra á haustþingi 2015.“
Enn hefur þessi mikilvægi samningur ekki hlotið fullgildingu en mikilvægt er að það gerist eins fljótt og unnt er og staðið verði við fyrirheit í stjórnarsáttmála þá sem málið varðar. Greinilegt er að málið er komið langt á leið miðað við svör þáverandi ráðherra árið 2015. En því er ekki lokið. Ég mun því á næstu dögum senda inn nýja fyrirspurn til ráðherra um stöðu málsins og vona að þingmenn fylgist með því að Istanbúl-samningurinn verði fullgiltur hið fyrsta.

Hægt er að horfa á ræðuna hér.