Ung Vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn, áskorun.

Ung vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn senda eftirfarandi áskorun til þingflokka: Í dag er ákveðin óvissa sem við lifum við í íslenskum stjórnmálum. Við vitum að við göngum til kosninga. Við vitum ekki um hvað tekur við fram að kosningum, hvernig gengi stjórnmálaflokka mun verða í kosningunum eða hver mun taka við stjórn í landinu. En áður en farið er af stað í kosningabaráttu af fullum krafti er eitt sem verður að huga að – óvissa sem hægt er að eyða. Nú bíða tvær ungar stúlkur eftir vernd eða höfnun frá íslenska ríkinu. Sú óvissa sem þær lifa við akkúrat núna er vart hægt að ímynda sér, óvissa sem gæti snúist um líf eða dauða. Óvissa um hvort þeim muni bíða heimili til frambúðar eða áframhaldandi flótti um heiminn. Ung vinstri græn og Ungir jafnaðarmenn skora á sína eigin þingflokka jafnt sem aðra flokka að grípa til aðgerða áður en það verður um seinan. Annaðhvort verður að setja frumvarp Samfylkingarinnar um ríkisborgararétt Mary og Haniye í forgang á næstu dögum, eða leggja fram frumvarp til breytingar á útlendingalögum sem að nær yfir þeirra mál. Nú reynir á að sýna samstöðu á óvissutímum, virða barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og tryggja þessum stúlkum heimili til frambúðar.