Unga fólkið og mannauðurinn

Oft gleymist í umræðu um auðlindir þjóða að verðmætust erum við sjálf og alveg sérstaklega þarf að huga að stöðu ungu kynslóðanna í þeim efnum. Íslendingum var lengi vel tamt að horfa fyrst og fremst til náttúruauðlinda sinna og var þá einblínt á fiskinn í sjónum og orkuna. Áþreifanlega hefur þó ljóst að í landinu sjálfu, náttúrperlum þess og víðáttu eigum við einnig stórkostlega auðlind. Um leið fylgir því mikil ábyrð að vera vörslumenn þeirra verðmæta, vernda þau og gæta og hafa að láni frá komandi kynslóðum.

Auðvitað eru auðlindirnar eða verðmætin sem í efnislegum eða óefnislegum skilningi má flokka í þennan hóp margs konar og nánast óteljandi. Menningin og menningararfurinn, tungan, byggðirnar, maturinn, hreina loftið, lega landsins, allt geta þetta talist auðlindir. Það verður okkur ágætlega ljóst ef við spyrjum okkur, hversu miklu fátækari værum við ef eitthvað af þessu vantaði?

Mannauður með fyrirvara

Víkjum þá að okkur sjálfum, fólkinu sem býr hér og starfar. Hugtakið mannauður, eða mannauður sem auðlind, er þó ekki gallalaus framsetning. Til eru þeir sem vilja fyrst og fremst leggja mælikvarða efnishyggjunnar á mannauðinn, vilja helst geta sett það upp í excel-skjal og reikna út hvers viði við erum í krónum og aurum. Svo er það hitt að raunverulegur mannauður, þ.e. í skilningnum vel menntaðir, heilsuhraustir og ánægðir einstaklingar sem saman byggja gott samfélag, hefur óendanlegt gildi í sjálfu sér. Er það ekki um það sem þetta raunverulega allt nýst?                                                                                                  Jú, það vona ég. En það breytir auðvitað ekki hinu að um leið erum við íbúarnir með þekkingu okkar og færni mikilvægasta auðlind landsins.

Þurfum að gera betur  

Hvernig stöndum við svo að vígi, Íslendingar, þegar kemur að „mannauðnum“ sem ég kýs að hafa hér           innan gæsalappa sbr. það sem áður sagði?

Á margan hátt vel. Við erum lýðfræðilega fremur ung þjóð, vinnufús, heilsuhraust og langlíf. Íslendingar eru talsverðir frumkvöðlar í sér, stundum um of, en er samt ótvíræður kostur þegar kemur að nýsköpun og drifkrafti framþróunar. En svo er það sem betur mætti fara. Áhyggjuefnin og áskoranirnar til framtíðar litið:

– Ísland er ekki nógu samanburðarhæft þegar kemur að væntingum ungs fólks um góð lífskjör og fjölskylduvænt samfélag þar sem ákjósanlegt er að setja sig niður, ala upp börn og búa við góð lífskjör án óhóflega langs vinnudags, borið saman við t.d. hin Norðurlöndin. Þessa sér áþreifanlega stað í nánast samfelldu nettó tapi í flutningsjöfnuði Íslands og umheimsins hvað varðar ungt fólk síðustu áratugi.

– Menntunarstig hér er lægra en í flestum samanburðarlöndum og verulegar skekkjur eru í samsetningu menntunar þeirra sem ljúka langskólanámi. Bóknám er ráðandi á kostnað verk- og iðnnáms, verulega vantar uppá að sambærilegu fjármagni sé veitt til náms, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi, sem hlutfalli af landsframleiðslu og gert er á hinum Norðurlöndunum.

– Horfur um mönnun starfa á fjölmörgum undirstöðusviðum samfélagsins á komandi árum eru vægast sagt bágbornar. Við blasir kennaraskortur, læknaskortur, hjúkrunarfræðingaskortur, okkur vantar iðnaðarmenn, kokka, framreiðslufólk, o.s.frv., o.s.frv.

Með öðrum orðum. Það eru veilur í undirstöðunni þegar framtíðarhorfur Íslands eru greindar hvað „mannauð“ snertir. Og þá er ekkert til bragðs að taka annað en ráðast að rótum vandans. Við þurfum að leggja stóraukna áherslu á að skapa hér barnvænt og fjölskylduvænt samfélag. Við þurfum að tryggja hér samanburðarhæf lífskjör án óhóflega langs vinnudags. Við verðum að leggja meira fé í menntakerfið og leiðrétta þar ýmsar skekkjur. Verðmætast verður þó alltaf ef við getum í sannleika sagt, fyrir því eru fullar innistæður og þjóðin er því sammála; að hér sé gott og réttlátt samfélag. Þar vilja menn búa.

 

Steingrímur J. Sigfússon

alþingismaður, skipar 1. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi