United Silicon á opnum fundi þingnefndar

Fundur umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis með forsvarsmönnum United Silicon á morgun, um mengunar og mengunarvarnir verður opinn fjölmiðlum og almenningi að frumkvæði þingmanna Vinstri grænna sem eiga sæti í nefndinni. Þeir  eru Ari Trausti Guðmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé.  Mælingar hafa sýnt arsenmengun umfram viðmiðunarmörk, en deilt hefur verið um hvort mælingarnar standist – Fundurinn hefst klukkan 9:30 og er haldinn á nefndarsviði Alþingis, Austurstræti 8-10.  Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er formaður nefndarinnar.  Hún segir við Rúv að fundurinn sé opinn  í forvarna og upplýsingaskyni,  því auðvitað eigi íbúar sem eru nálægt svona fyrirtæki rétt á að vita hvort það er að valda þeim heilsutjóni.  Íbúar mótmæltu verksmiðjunni á föstudaginn og kröfðust þess að henni yrði lokað. Valgerður hefur áhyggjur af því að verksmiðjan hafi verið höfð fyrir rangri sök.  Ari Trausti og Kolbeinn hafa áhyggjur af menguninni, sem hefur truflað íbúa svæðisins með lykt og valdið þeim óþægindum.