Uppsagnir ræstingakvenna

Bjarkey Gunnarsdóttir

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls í upphafi þingfundar í dag til að ræða uppsagnir 18 ræstingarkvenna í stjórnarráðinu. „Um er að ræða tekjulægsta hóp stjórnarráðsins og allt eru þetta konur sem eiga ekki endilega auðvelt með að fá sambærileg störf annars staðar á sömu kjörum,“ sagði Bjarkey og bætti við: „Það er lítil reisn yfir svona aðgerðum og ótrúlegt á sama tíma og ríkisstjórnin vill ekki framlengja auðlegðarskattinn eða fá auknar greiðslur fyrir afnot af sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni.“

Bjarkey setti uppsagnirnar í samhengi við orð ýmissa þingmanna stjórnarflokkanna um fækkun opinberra starfsmanna. Hún benti á að vegna fjölgunar ráðherra og aðstoðarmanna þeirra þurfi að skera niður í rekstrarkostnaði ráðuneyta með því að segja upp láglaunafólki. „Því miður styður þessi aðgerð við það sem margoft hefur verið sagt að við völd á Íslandi í dag er ríkisstjórn hinna ríku,“ sagði Bjarkey að lokum.