Uppstilling í Reykjavík

Samþykkt var á félagsfundi Vinstri grænna í Reykjavík að stilla upp á lista hreyfingarinnar fyrir alþingiskosningar í haust. Vel sóttur félagsfundur VGR sem haldinn var á Hallveigarstöðum í gærkvöld samþykkti uppstillingu í atkvæðagreiðslu með umtalsverðum meirihluta.

Fimm manna kjörnefnd var einnig kosin á fundinum og mun hún gera tillögu um lista hreyfingarinnar, m.a. á grundvelli hugmynda almennra félagsmanna um frambjóðendur. Gert er ráð fyrir að kjörnefnd ljúki störfum sínum í ágúst. Tillögur kjörnefndar um frambjóðendur þarf að staðfesta á almennum félagsfundi sem gert er ráð fyrir að verði haldinn í lok ágúst.

Kjörnefnd skipa Elín Oddný Sigurðardóttir formaður, Steinar Harðarson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Elías Jón Guðjónsson og Ragnar Auðun Árnason.