Upptaka skólagjalda á Hvanneyri og Hólum

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og fyrrverandi menntamálaráðherra, spurði Illuga Gunnarsson núverandi menntamálaráðherra í dag út í hugmyndir um sameiningu Háskólans á Bifröst, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á Hólum.

Katrín spurði ráðherra hvort gerð hafi verið fýsileikakönnun af hálfu ráðuneytisins á annars vegar faglegum ávinningi af sameiningu og hins vegar á fjárhagslegum ávinningi. Katrín spurði einnig sérstaklega um rekstrarform sameinaðs háskóla og hvort til stæði að taka upp skólagjöld í skólanum eins og gert er á Bifröst: „Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort það liggur fyrir að rekstrarformi þessara tveggja opinberu háskóla yrði þá breytt í sjálfseignarstofnun og hvort því mundi þá fylgja upptaka skólagjalda við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Hólum, sem væri þá talsverð breyting.“

Í svari sínu sagði menntamálaráðherra að rekstrarform sameinaðs háskóla væri „líka til skoðunar“ og sagði hann „opinn fyrir öllum hugmyndum“ og tók ekki fyrir upptöku skólagjalda á Hvanneyri og á Hólum. Ráðherra vísaði ekki til neinna gagna sem sýndu fram á faglegan ávinning af sameiningu háskólanna. Í seinni ræðu sinni benti Katrín á að ef tekin yrðu upp skólagjöld til að mennta bændur og fleiri stéttir væri það veruleg stefnubreyting „sem kallaði á miklu meiri umræðu á vettvangi Alþingis ef sú væri ætlunin“.